Þegar ég kom til Íslands í sumar líkti ég sölu á grænmeti og ávöxtum á Íslandi við skipulagða glæpastarfsemi. Ég er nefnilega vön að kaupa gulrætur á 181 kr/kg í Glasgow og tvær melónur saman á sem svarar 544 kr. (tilboð sem hefur verið í gildi í matvörubúinni næst okkur þessa 18 mánuði sem ég hef búið þar.) Ég fann þessar vörur ekki á svipuðu verði í Reykjavík. Stuttu síðar birtust fréttir af því að á Íslandi væri  innkaupakarfan ódýrust á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað.

Nú veit ég ekki hvað var í þessari ódýru innkaupakörfu en mig langar að vita það. Mjólkin er sennilega á lægra verði en dýrasta mjólkurfernan í Danmörku en íslenska mjólkin er nú samt dýrari en sú ódýrasta sem ég keypti meðan ég bjó í Danmörku.

Ég fékk paprikur á góðu verði í síðustu viku, innan við 600 kr kílóið. Það er aðeins lægra en verðið á paprikunum sem ég kaupi í Skotlandi en ég hef líka séð paprikur á tæpar 900 kr. í Reykjavík. Í gær sá ég kirsuberjatómata, lífrænt ræktaða, á 3796 kr/kg. Ólífrænu tómatarnir í sömu búð kostuðu tæpar 1800 kr/kg sem er mun hærra en við erum vön að greiða fyrir sambærilega tómata úti.

Ég veit ekki hvað var í matarkörfunni sem sögð er ódýrust á Íslandi en ég á bágt með að trúa því að það sé ekki hægt að gera töluvert hagstæðari innkaup í bæði Danmörku og Bretlandi.

Ég hef geymt kassastrimlana þennan tíma sem ég hef verið á Íslandi og þegar ég kem til Glasgow aftur ætla ég að bera saman verðið á þeim vörum sem við kaupum raunverulega. Við kaupum hvorki dýrustu tómatana né hleypt soð dulbúið sem skinku, heldur eitthvað þar á milli.