Nýtingarfasistinn 5. hluti
Samkvæmt norskri rannsókn sem gerð var á árunum 2009-2013 er algengasta ástæðan sem fólk gefur fyrir því að það hendi mat sú að hann sé „útrunninn“.Ekki henda mat bara af því að hann er „útrunninn“. Sölu- og neysludagsmerkingar gegna að verulegu leyti því hlutverki að tryggja framleiðandann gegn lögsóknum og oft er matur fullkomlega í lagi þótt hann sé kominn fram yfir síðasta neysludag. Matur lýgur sjaldan, ef hann lyktar vel og bragðast vel er að öllum líkindum allt í lagi með hann.
Það sem ekki er skemmt er oftast nothæft
Grænmeti sem er ekki lengur nógu fallegt til að nota það í salat er samt hægt að nota í pottrétti og súpur. Það er einnig hægt að marinera það í olíu og kryddi.
Ef þú átt grænmeti sem er aðeins farið að þorna er stundum hægt að nota það í salat með því að skera það niður og leggja það í kalt vatn í dálitla stund.
Ef salatið er að byrja að verða slappt, fjarlægðu þá ystu blöðin, settu rótina í vatn, eins og blóm og láttu það standa í vatninu þar til á að nota það.
Grænmeti sem liggur í raka skemmist. Þurrkaðu grænmeti og ávexti með eldhússpappír eða tauþurrku ef er farinn að myndast raki í grænmetisskúffunni og hentu því sem er skemmt strax því það skemmir fljótt út frá sér. Ég geymi sveppi ekki í kæli, því það er vel hægt að nota þá þótt þeir þorni en ef þú vilt geyma þá í kæli láttu þá þá ekki vera í snertingu við grænmeti. Geymdu þá í umbúðunum þar til þú þarft að nota þá og settu afganginn af þeim í bréfpoka eða plastpoka með eldhússpappír.
Þótt standi á krukkunni að innihaldið geymist aðeins 3 daga í ísskáp eftir að krukkan er opnuð er oft hægt að auka geymsluþolið með því að setja plastfilmu yfir innihaldið þannig að nánast ekkert loft komist að því og loka krukkunni vel.
Ef kryddað kjöt lyktar ekki illa þá er í lagi með það þótt það sé komið fram yfir síðasta söludag. Það er afar ólíklegt að krydd blekki lyktarskyn og bragðlauka að því marki að þú borðir eitthvað hættulegt án þess að taka eftir því. Það er útbreidd hugmynd að fyrr á öldum hafi krydd verið notuð til þess að fela bragð af skemmdu kjöti. Ég hef hvergi séð áreiðanlegar heimildir sem styðja þetta. Á norðurslóðum er líklegt að pipar og önnur bragðmikil krydd hafi auk þess verið dýrari en kjöt og fiskur. Ég hef reyndar bjargað kjöti bara með því skola af því kryddið með köldu vatni en grænar kryddjurtir skemmast oft á undan kjötinu.
Pizza sem hefur staðið í ísskáp í 2 daga er ekki spennandi köld en hún er samt ekki óæt ef áleggið á henni er í lagi. Settu hana form sem er nógu djúpt til þess að sé hægt að hylja það með disk eða álpappír, settu formið í kaldan ofn og stilltu hann á 150ºC. Þegar hann hefur náð þeim hita, fjarlægðu þá álpappírinn (þurrkaðu hann og gakktu frá honum svo sé hægt að endyrnýta hann) og kveiktu á grillinu ef þér finnst þörf á því. Það er líka hægt að úða þunnbotnapizzu með smá vatni og setja hana inn í heitan ofn.
Nýttu hráefnið betur
Ég hef margsinnis séð fólk henda brokkolistönglinum og og blómkálsblöðunum. Það er engin ástæða til þess. Það er aðeins neðsti hlutinn af blómkálinu sem er óætur. Blómkálsblöðin og brokkolistönglarnir þurfa lengri suðu en blómknapparnir, en þeir eru samt vel ætir. Það má til dæmis sjóða þá, mauka í matvinnsluvél og nota í súpur og sósur. Það er líka sniðugt að rífa þá hráa og nota ásamt öðru grænmeti í „stir fry“-rétti, lasagna og aðra ofnrétti. Rófukálið er líka ætt en rófur eru nú oftast seldar án þess.