Ég giftist Hilmari 18 ára og ólétt. Fyrsta heimilið okkar var í vesturbæ Hafnarfjarðar en þegar Haukur fæddist fluttum við í götóttan hjall við Lækinn. Hann hét Brautarholt og var rifinn fyrir mörgum árum. Þegar við fluttum inn hafði húsið þegar verið úrskurðað óíbúðarhæft og dæmt til niðurrifs en þar sem eigandi neðri hæðarinnar, fátæk, einstæð móðir með bein í nefinu, harðneitaði að flytja nema bærinn útvegaði henni íbúð sem hún réði við að borga af, varð ekkert af framkvæmdum í nokkur ár.

Gólfdúkurinn á eldhúsinu var morkinn af elli. Stofuloftið lak í rigningu og hálmurinn hékk út úr veggjum í svefnherberginu. Hefði lítið þurft til að kviknaði í og ég þorði varla að kveikja á kerti. Fúkkalykt í fataskápunum, pöddur í eldhússskápunum og silfurskottur á baðinu. Þvottahúsið var í kjallaranum og ég var svo hrædd við rottur að ég fór aldrei þangað niður nema taka kisa minn með mér. Hann var að vísu lítið stærri en rotta en það var töggur í honum. Ég hafði sjálf horft á hann henda miklu stærri ketti út í lækinn og setjast svo niður á bakkanum og sleikja punginn á sér í mestu makindum á meðan ég hjálpaði viðfangi árásargirni hans upp úr læknum við illan leik. Kom heim klóruð og bitin en Natan ljónaköttur vorkenndi mér ekkert.

Svefnherbergisglugginn sneri út að Lækjarskóla. Við áttum ekki mikla peninga – eða eiginlega enga, og eitt af því sem ekki lenti á forgangslista voru gluggatjöld. Við bjuggum á annarri hæð. Glerið var skýjað, næsta hús var skólinn handan tjarnarinnar, þar var enginn á kvöldin, fjarlægðin of mikil til að sæist neitt að ráði, hvað þá ef ljós voru slökkt og við vorum ekkert að stríplast fyrir framan gluggann hvort sem var.

Ég hafði engar áhyggjur af þessu gardínuleysi en það lagðist hinsvegar á sálina í henni Ömmu Hullu. Hún var stöðugt að bjóða mér gamlar gardínur sem hún hafði notað 20 árum fyrr, tekið niður (af skiljanlegri ástæðum en þeim sem urðu þess valdandi að hún setti þær upp) en ekki tímt að losa sig við, svo hún safnaði þeim í ferðatösku í von um að við systurnar myndum nota þær síðar.

Heimilið mitt var samsafn af dóti sem aðrir vildu ekki. Appelsínugulur sófi í stofunni. Ég hataði hann. Hilmar átti IKEA-borð; glerborð með krómaðri grind. Það var eina húsgagnið sem við áttum sem nálgaðist það að vera móðins en auk þess höfðum við fengið IKEA standlampa og tvö klappstóla í brúðkaupsgjöf. Planið var að íkea heimilið upp smám saman  og í örvæntingarfullri tilraun til að skapa einhverskonar samræmi tók ég alla skrautmunina úr gömlu barnaherbergjunum okkar Hilmars og úðaði þá með silfurlitu lakki. Andartak hvarflaði að mér að Hilmari þætti illa farið með Hugsuðinn, sem hann hafði líklega fengið í fermingargjöf en honum fannst þetta bara fyndið. Sagðist alltaf hafa langað til að skella klósetti undir karlinn. Amma Hulla varð ekki eins hrifin. Jeminn, ég veit ekki hvert hún ætlaði þegar hún sá meðferð mína á þessu listaverki. Löngu seinna sá ég Hugsuðinn steyptan í ál. Það fannst mér einkar viðeigandi.

Þannig leit heimilið út: Appelsínugulur sófi, veglegur hægindastóll með rauðu plussáklæði, hansahillur, körfustóll og basthilla, skólabækur, ljóðabækur og postulínsbrúður í pífukjólum í bland við IKEA-króm-og-gler og silfurlitar styttur. Mér fannst ekki á óskapnaðinn bætandi með gluggatjöldum frá 7. áratugnum.

Eitt kvöldið fórum við Hilmar í bíó. Hulla litla systir mín gætti Hauks á meðan. Ég held að við höfum séð þýsku myndina Otto. Allavega einhverja mjög skemmtilega mynd því við vorum ennþá að bresta í hlátur þegar við komum heim. Hulla var dálítið vandræðaleg þegar við komum inn. Amma Hulla hafði nefnilega vitað að við vorum að fara út. Hún hafði komið steðjandi með Afa Jóa, verkfærasett, gardínustöng og dýrgrip úr gardínutöskunni góðu og stjórnað bæði Afa og Hullu af alkunnri röggsemi sinni.

Fyrir glugganum í svefnherberginu héngu nú gardínur. Þær voru úr háglansandi ljósgrænbláu efni, með skærfjólubláum blómum á stærð við botninn á skúringafötunni.

Ég hringdi í Ömmu Hullu.
– Amma mín, ég veit að þetta er vel meint en ég var eiginlega búin að afþakka þessar gardínur. Og ég er sko eiginlega fullorðin. Ég er gift þú veist. Og ég á barn. Finnst þér bara allt í lagi að koma heim til mín þegar þú veist að ég er ekki heima og setja upp gluggatjöld sem þú veist að ég vil ekki?

Ja, það var bara ekkert hægt að hafa þetta svona, sagði hún.
-Þú venst þessu strax, bætti hún við.