Uppfært: Það kom á daginn að vitanlega er hægt að tryggja fólki möguleika á að nýta kosningarétt sinn. Þetta er skítaredding, ekki reiknað með að fólk sé bíllaust eða próflaust, en dugar vonandi. Ég legg til að hugað verði að lausnum fyrirfram ef svipaðar aðstæður koma upp aftur.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur trúir ekki á þá aðferð að hafa plan B í bakhöndinni. Og nú eru 300 manns í sóttkví á kjördag.
Það er því miður ekki hægt að leyfa þeim að kjósa.
Ekki hægt að leyfa þeim að kjósa?
Fyrirgefið – en yfirvöld leyfa fólki ekki að kjósa. Það eru borgaraleg réttindi okkar og við þurfum ekki blessun yfirvaldsins til að nýta þann rétt. Við búum í lýðræðisríki sem grundvallast á rétti allra sem njóta kosningaréttar að lögum til að taka þátt í kosningum. Þessi réttur er þáttur í stjórnskipan landsins og það vill svo til að ríkisstjórnin er bundin af þeirri stjórnskipan, hvort sem hún trúir á plan B eður ei.
Hlutverk ríkisins er ekki að leyfa okkur að kjósa eða meina okkur það heldur að sjá til þess að við getum nýtt kosningarétt okkar.
Það er ríkið sem ber ábyrgð á þessari stöðu
Að sjálfsögðu geta komið upp aðstæður sem verða til þess að fólk getur ekki nýtt kosningarétt sinn. Ríkið ber ekki ábyrgð á því ef kjósandi veikist, verður strandaglópur eða man ekki hvaða dagur er. En hér erum við ekki að tala um slíkar aðstæður.
Ríkisstjórnin tók upplýsta og meðvitaða ákvörðun um að hleypa kórónuveirunni inn í landið. Það var fullkomlega fyrirsjáanlegt að sú staða kæmi upp að fólk yrði skikkað í sóttkví og kæmist því ekki á kjörstað. Það var að sjálfsögðu hægt að bregðast við því en þess í stað var ákveðið að fórnarlömbin þyrftu til viðbótar að þola mannréttindabrot. Fólkið sem þarf að verja sumarfríinu sínu í einangrun og fólkið sem mögulega sér fram á langvarandi heilsutjón á bara ekkert að geta nýtt lýðræðislegan rétt sinn til að kjósa sér forseta.
Hvernig voru eiginlega umræðurnar á ríkisstjórnarfundinum þar sem ákveðið var að falla frá kröfu um sóttkví við komu til landsins?
Já en krakkar, svo eru þessar forsetakosningar. Hvað ef veiran berst til landsins og einhverjir þurfa að vera í sóttkví á kjördag? Getum við þá leyft þeim að kjósa?
Sko, nú þurfum við að hugsa um markmiðið. Markmiðið er að fá sem flesta útlendinga til landsins án þess að heilbrigðiskerfið fari á hliðina. Ekki að leyfa fólki að kjósa.
Já en Katrín, þau mega kjósa. Stjórnarskráin er túlkuð þannig að allir sem hafa kosningarétt megi kjósa. Ekki bara okkar stjórnarskrá, þú’st, heldur allar stjórnarskrár allra vestrænna ríkja. Þannig að ef við bönnum þeim að fara á kjörstað og finnum ekki aðra leið, þá verða kosningarnar kærðar. Þurfum við ekki plan B?
Ja það hefur nú gagnast mér vel að vera bara ekkert að hugsa um plan B.
Eða fór þetta samtal kannski aldrei fram? Var ENGINN í ríkisstjórninni að hugsa?
Hvað gera dómstólar?
Kosningarnar verða kærðar. Og hvað gera dómstólar þá? Mögulega reyna dómarar að halda því fram að þar sem 300 atkvæði hefðu ekki getað breytt niðurstöðu kosninganna þá séu þær gildar. En ef það yrði niðurstaðan þá væri með sömu rökum hægt að meina tilteknum hópum aðgang að kjörstað í alþingiskosningum í trausti þess að dómstólar segi að það sé alltílæ fyrst atkvæði þeirra hefðu engu breytt. Dettur einhverjum í hug að það sé hægt að ákveða að fótboltadeild Fylkis verði að sitja heima á kjördag, af því bara, og réttlæta það með því að atkvæði meðlima hefðu ekki breytt neinu um niðurstöðuna? Og nei – það er ekkert annað að banna fólki í sóttkví að kjósa en fótboltadeild Fylkis – það er einfaldlega ekki gild ástæða að stjórnvöld hafi gleymt að gera ráðstafanir vegna fullkomlega fyrirsjáanlegra aðstæðna.
Ég hef enga trú á því að Mannréttindadómstóll Evrópu fallist á að ríki sé heimilt að svipta fólk rétti til að kjósa sér forseta á þeirri forsendu að stjórnvöld trúi ekki á plan B. Ríkið hefur að þessu leyti skyldur við okkur en ekki vald yfir okkur og MDE veit það, hvort sem íslenskir dómarar átta sig á því eða ekki.
Hér er það ríkið sem er með brúnt í buxunum en ekki kjósendur og það væri frekar leiðinlegt fyrir dómara Hæstaréttar að fá enn eina flenginguna frá Mannréttindadómstóli Evrópu.