Á snjáldrinu keppast notendur við að deila tengli á grein sem á að sýna fram á skaðsemi örbylgjuofna.

Efni greinarinnar er tilraun grunnskólabarns á tveimur plöntum. Margir hafa endurtekið þessa tilraun með töluvert vísindalegri vinnubrögðum og komist að þeirri niðurstöðu að ekkert bendi til þess að örbylgjuhitað vatn hafi önnur áhrif á plöntur en vatn sem hitað er með öðrum aðferðum. Engu að síður sér maður ótrúlegar umræður um þetta á fésinu. Ég hef m.a. séð því haldið fram að örbylgjuhitun „breyti efnasamsetningu vatns“ og „sundri vatnssameindum“.

Ég undrast oft þann einbeitta bábiljuvilja sem birtist í fastheldni við þvælu af þessum toga og það er eiginlega stórfurðulegt að svona fáfræði þrífist á tímum Gúgguls og félaga. Það gekk þó ekki fram af mér fyrr en bent var á að forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ hefði póstað þessu á vegginn sinn á fb. Það fyrsta sem mér datt í hug var að umræddur vísindamaður, Kristín Vala Ragnarsdóttir, hefði tengt á greinina einmitt til þess að vara fólk við þessari vitleysu. Það fékk því töluvert á mig að sjá að tengillinn var settur inn á öðrum stað með „like“ skipuninni, sem getur hæglega gefið fólki þá hugmynd að Kristín Vala sé sammála efni greinarinnar. Verra er þó að engin athugasemd fylgir nema bein tilvitnun í greinina.

Þegar þetta er ritað hefur tengillinn verið inni á vegg sviðsforsetans, Kristínar Völu Ragnarsdóttur í meira en sólarhring. Á veggnum hennar hafa farið fram umræður um hvað það sé hræðilegt að ungbörnum sé gefin örbylgjuhituð mjólk en engar athugasemdir eru sjáanlegar frá henni sjálfri nema tenglar á greinar sem birst hafa á verulega vafasömum vefritum á borð við Global Healing Center og Jesus is Our Saviour. Manneskjan er augljóslega að grínast en það lítur út fyrir að sumir sem taka þátt í umræðunni, líti svo á að henni sé alvara. Hún hefur ekki leiðrétt þá hugmynd og ég hélt í fyrstu að hún hefði verið upptekin við annað og kannski ekki skoðað umræðurnar almennilega en svo sá ég að hún hefur „lækað“ afar vafasöm ummæli.

Jesús Kristur, mannkynslausnari með meiru, reyndi eitt sinn að elda egg í örbylgjuofni. Hann komst að þeirri niðurstöðu að örbylgjuofnar séu verkfæri Satans og í dag spælir hann eggin sín eingöngu á gamalli fægiskúffu.

Hér er um að ræða manneskju sem gegnir áhrifa- og ábyrgðarstöðu á sviði rannsókna og kennslu í raunvísindum við virtustu menntastofnun landsins. Hún vitnar gagnrýnilaust í  tilraun grunnskólabarns, tilraun sem birtist á vefsetri „vísindavefrits“ sem birtir forsíðufrétt um að í genamengi mannsins sé að finna gen úr geimverum. Ekki nóg með það, heldur má hæglega túlka notkun hennar á „like“ skipuninni á þann hátt að hún taki undir vitleysuna.

Facebook er ekki lítill kunningjaklúbbur fólks sem þekkir hvert annars húmor og hugsanagang. Facebook er risastórt vefsamfélag þar sem fólk skiptist á upplýsingum, sumum góðum og þörfum en öðrum beinlínis röngum og jafnvel skaðlegum. Er ekki eðlilegt að gera þá kröfu til vísindamanns í þessari stöðu, að hann útskýri tilgang sinn  þegar hann birtir tengla á greinar á opnum vegg, allavega þegar um er að ræða fráleitar hugmyndir sem fjöldi manns trúir, enda þótt þær eigi sér enga stoð í raunveruleikanum?

Bætt við kl 21.00

Kristín Vala hefur fjarlægt af veggnum sínum á fb umræðuþráð þar sem hún var gagnrýnd fyrir gagnrýnileysi sitt á tilraun grunnskólabarnsins og spurð hreint út hvort hún áliti örbylgjumatreiðslu hættulega eftir að hafa séð aðrar greinar þar sem tilraunin er gagnrýnd. Ég tók afrit af þessum þræði svo ef einhver hefur áhuga á að kynna sér þessar umræður þá er þetta allt saman til. Ennþá er á veggnum hennar annar þráður þar sem þessir hlutir eru til umræðu. Kristín Vala sjálf vísar þar á þessa grein, að því er virðist til stuðnings þeirri tilgátu að örbylgjumatreiðsla sé óheilsusamleg.

Þessu tengt: