Í síðustu viku velti Elías Halldór Ágústsson upp þessari spurningu á snjáldursíðu sinni:

1)   ef vændi verður að fullu lögleg starfsgrein og
2)   ef atvinnuleysisbætur verða ekki borgaðar þeim sem [ekki] tekur störf í boði;
hlýtur hið opinbera þá ekki að neyða fólk í vændi? Síðustu tvö árin hef ég búið í Danmörku þar sem vændi er löglegt (enda þótt vændiskonur þar kvarti mjög undan ágangi sjálfskipaðra bjargvætta sem virðast hafa félagslegt samþykki fyrir því að angra fólk sem vill ekkert með þær hafa.) Ég þekki fólk sem árum saman hefur verið á atvinnuleysibótum eða félagsmálastyrk í Danmörku. Ýmislegt er gert til að reyna að hjálpa þessu fólki út á atvinnumarkaðinn og þrýsta á það að prófa störf sem það þekkir ekki. Ekki hef ég þó heyrt af því að neinum hafi verið boðið starf á vændishúsi, hvað þá að nokkur hafi verið þvingaður til að taka slíku starfi. Ég hef heldur ekki heyrt að neinn sem ekki hefur áhuga á þungarokkstónlist hafi verið þvingaður til að taka að vinnu þar sem slík tónlist glymur í eyrum eða að fólk sem þolir ekki að sjá blóð sé þvingað til að vinna í sláturhúsi. Sjálf leitaði ég til atvinnumiðlunar og var spurð hvaða störf ég gæti EKKI unnið. Sagðist helst vilja komast hjá því að aka leigubíl þar sem ég á mjög erfitt með að rata og er bílhrædd og það var góðfúslega tekið til greina. Siðmenntuð samfélög neyða fólk ekki til að taka vinnu sem því líður illa í, svo ég hef engar áhyggjur af því að Elías þyrfti að kveikja í félagsmálaráðuneytinu enda þótt Íslendingar hættu að líta á vændiskonur sem geðsjúklinga sem helst ætti að svipta sjálfsforræði.

Hér má sjá gífurlegt þakklæti danskra vændiskvenna í garð feminstanna sem ætla að hafa vit fyrir þeim. Þess má geta að síðar um daginn var stafsetningarvillan leiðrétt enda fékk hún töluvert meiri athygli en það sem málið snerist um.

Svo sem vænta má þegar kyn og klám er annarsvegar, hafði spurningin í för með sér umræður og eitt af því sem kom til tals voru órökstuddar fullyrðingar um vændismarkaðinn svo sem að langflestum vændiskonum sé nauðgað, þær séu nánast allar fíkniefnaneytendur o.s.frv. Kona nokkur benti mér á „rannsóknir“ sem eiga að sýna fram á þetta, rannsóknir unnar af þeim sem standa að þessari síðu og rannsóknir sem byggja á speki þeirra kvenna sem halda henni úti. Ég hef töluvert við aðferðafræði þessara „vísindamanna“ að athuga og reiknaði í fyrstu með að þurfa að skrifa langa ritgerð til að fletta ofan af bullinu í þeim en var svo heppin að rekast á þessa ágætu grein eftir Ronald Weitzer. (Hún birtist í tímaritinu „Violence Against Women“ 11. árg. 7. tbl. júlí 2005, bls:934-949.)

Helstu niðurstöður Weitzers eru þær að;
-Melissa Farley, samstarfsfólk hennar og sporgöngumenn nálgist viðfangsefni sín beinlínis út frá þeirri hugmynd að það sé óumdeilanlegt að vændi sé í öllum tilvikum kúgun karla á konum.
-Orðræða þeirra beri vott um að rannsóknum þeirra sé fremur ætlað að afla skoðunum þeirra fylgis en að gefa raunhæfa mynd af veruleikanum.
-Aðferðir þeirra standist engan veginn vísindalegar kröfur og þar með séu niðurstöðurnar ekki marktækar.
-Túlkun niðurstaðna sé sömuleiðis vafasöm.
M.ö.o. þessar konur eru fúskarar og „rannsóknir“ þeirra eiga meira skylt við skáldskap en vísindi.

Það skal tekið fram að Ronald Weitzer er ekki neinn sérlegur baráttumaður fyrir lögleiðingu kláms og vændis, hann hefur einnig gagnrýnt óvandaðar rannsóknir þar sem dregin er upp glansmynd af þessum þáttum menningarinnar. Hann er fyrst og fremst fræðimaður sem gerir þá kröfu til fólks sem heldur einhverju fram sem vísindum að það vinni eins og vísindamenn en ekki grunnskólanemar.

Nú eru þessar konur (sem þrátt fyrir að vera ekkert annað en fúskarar, njóta óskiljanlegrar virðingar meðal dólgafeminista,) ekkert að reyna að fela ásetning sinn. Þær taka sjálfar fram að þær vinni út frá feminisku sjónarhorni og það er í sjálfu sér allt í lagi. Ég held að hlutlaus vísindamaður sé ekki til. Ástæðan fyrir því að menn vilja rannsaka tiltekið efni er sú að þeim finnst það áhugavert, hafa kynnt sér það og eru með tilgátu í huga. Það er ekkert leyndarmál og bara gott mál að það komi fram. En það að menn hafi ákveðna tilgátu í huga, gefur þeim hinsvegar ekki leyfi til að sniðganga vísindalegar aðferðir en kynna samt niðurstöður sínar sem vísindi.

Ég hafna að sjálfsögðu „rannsóknum“ á borð við þessar en sú sem mælir með þessu lesefni, benti mér einnig á norska rannsókn sem Cecilie Høigård og Liv Finstad unnu og kom fyrst úr 1986. Ég hef ekki fundið neitt um rannsóknir Cecilie Høigård og Liv Finstad á netinu fyrir utan örfáar tilvitnanir í bókina. Það að sömu konur og Ronald Weitzer gagnrýnir, skuli lofa bókina í hástert, vekur þó grun að hér séu jafnvel á ferðinni álíka vandaðir fræðimenn og enn styrkist sá grunur þegar í ljós kemur að Liv Jessen hefur gagnrýnt hana.

Liv Jessen var í bjargvættaliðinu. Afstaða hennar gerbreyttist þegar hún fór að hlusta á konur í kynlífsþjónustu og áttaði sig á því að þeirra reynsla var ekki í neinu samræmi við ímynd róttækra feminsta. Árið 2004 hlaut hún mannréttindaverðlaun Amnesty fyrir baráttu sína fyrir réttindum vændiskvenna. Þetta var í fyrsta sinn sem Amnesty viðurkennir mannréttindi vændiskvenna á þann hátt.