Þetta er voða vondur húmor.
Ekki rassgat betri en karlrembuhúmor og ekki einu sinni fyndinn.

Ég er hreint ekki saklaus af tilhneigingu til karlfyrirlitningar. Hef oft gengið í gegnum tímabil þar sem ég hef yfirfært slæma reynslu mína á stóran hluta karlkynsins og fundið einhverja undarlega fróun í húmor sem ber meiri vott um fordóma en kímnigáfu.

Og það er oft skiljanlegt. Karlmenn geta verið óþolandi. Konur áreiðanlega líka. Ég finn iðulega fyrir því að vera, á þessum kvenfrelsistímum og þrátt fyrir að hafa sæmilegt bein í nefinu, af „hinu“ kyninu, tilheyra einhverskonar minnihlutahópi sem þó er í rúmum meirihluta. Ég þekki konur sem þurfa að berjast fyrir því að störf þeirra njóti sannmælis á sama tíma og körlum í sömu greinum er klappað á bakið. Mér finnst óþolandi að hefðbundin kvennastörf skuli ekki vera vel launuð.

En hversu skiljanlegt sem það er, þá er lítið unnið við að finna neikvæðum tilfinningum sínum réttlætingar. Karlfyrirlitning er ekkert skárri en kvenfyrirlitning en af einhverjum ástæðum er hún samt umborin. Við ættum frekar að líta það sem vandamál þegar staðalmyndir af körlum móta viðhorf okkar og láta það verða okkur hvatning til að endurskoða viðhorf okkar.