Þessi feministi gerir athugasemdir við pistil sem ég skrifaði um daginn en þar sem hún leyfir ekki svör við færslur á sinni síðu, svara ég bara hér.

Leyniskyttan byrjar reyndar á því að snúa út úr pistli Ragnars Þórs þar sem hann skrifar m.a. um þversagnir feminsmans, skilgreiningarvandann og tilhneigingu mannréttindahreyfinga til pólitískrar rétthugsunar. Þetta tekst leyniskyttunni með einhverjum óskiljanlegum hætti að túlka sem sérstaka fylgni við klámvæðingu og vændi. Auk þess er öll gagnrýni karla á femnista, allavega þeirra sem hafa eitthvert álit á mér, túlkuð sem óþol gegn konum sem vilji ekki að þeir „kaupi sér konur til að ríða eða rúnka sér yfir“ en sem kunnugt er, mun gengdarlaus gredda og kvenhatur eina ástæðan sem nokkur gæti séð til þess að lögleiða vændi (og nei á meðan vændiskaup eru ólögleg er ekki hægt að tala um að vændi sé löglegt.)

Í færslunni minni sem hún vísar til, eiga víst að vera „einhverjar rannsóknir tilteknar sem eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því.“

Þær greinar sem ég vísa til í umræddum pistli, fyrir utan bullrannsóknir feminista, eru viðtal við Liv Jessen, ágæt grein eftir Ronald Weitzer og rannsókn á reynslunni af glæpvæðingu kynlífskaupa í Bergen. Engin þessara heimilda segir orð um það að flestar eða einu sinni sumar konur vilji ekkert frekar en stunda vændi.

Liv Jessen talar um sjálfsákvörðunarréttinn sem mannréttindi og að hún vilji að fólk fái að stjórna lífi sínu sjálft, einnig þegar það taki ákvarðanir sem hún sjálf myndi ekki taka.

Skýrslan frá Bergen segir hvergi neitt fallegt um vændi eða fjölda þeirra sem vilja ekkert fremur. Hún lýsir aðeins á fremur hlutlægan hátt reynslu vændiskvenna af glæpvæðingunni, sem er síður en svo jákvæð og tekur fram að nánast allar konurnar sem rætt var við, segist stunda vændi af eigin vilja og að til séu konur af öllum þjóðernum sem hafi engan áhuga á að hætta.

Weitzer tekur enga afstöðu til þess hversu hátt hlutfall vændiskvenna séu ánægðar enda er ekki um slíka rannsókna að ræða. Hann segir hinsvegar að tilteknar rannsóknir sem staðhæft er að sýni fram á að flestar konur fari nauðugar í vændi og vilji hætta, að flestar vændiskonur hafi verið misnotaðar í æsku, verði fyrir miklu ofbeldi í starfi og séu allar á kafi í dópi, standist engar vísindalegar kröfur. Hann rökstyður þetta mjög vel.

Launsáturskonan virðist vera ósátt við að ég hafni tölfræði sem fengin er fram með svindli og svínaríi. Gaman væri að vita hvað henni finnst um þá sem hafna tölfræði sænsku ROKS kvennanna sem dreifa áróðri um að vikulega falli sænsk kona fyrir hendi maka síns, enda þótt opinberar upplýsingar segi að þessi tala sér að jafnaði 16 konur árlega. Finnst launsáturskonunni móðgandi að fólk taki ekki undir þessa staðreyndafölsun eða eru það aðeins falsupplýsingar um vændisiðnaðinn sem má ekki gagnrýna? Er í lagi að gagnrýna mannránið sem Bellas venner stóðu fyrir og þvæluna um barnafórnir sem ROKS konur halda ennþá fram? Hvenær má gagnrýna lygar feminista og hvenær ekki? (Heimildamyndin kynjastríðið gefur ágæta mynd af lygum dólgafeminista, endilega lítið á þessa mynd ef þið hafið ekki þegar séð hana.)

Skyttunni finnst líka óþolandi að ég hafni því að hægt sé að dæma allan klám og kynlífsiðnaðinn út frá persónulegri reynslu þeirra sem vinna við að líkna konum sem hafa flúið ofbeldi og nauðung. Þær konur fá væntanlega góða innsýn í mörg svaðalegustu dæmin en frjálsar hórur vilja sem minnst við þær tala. Stórmerkilegt finnst mér hvað feministar geta lagt mikið upp úr einstaka sögum af kynlífsþrælum og krakkhórum en afskrifað með öllu frásagnir þeirra kvenna sem eru í þessum störfum á eigin forsendum og hafa ekki hug á að hætta. Sjálf tel ég hvorki að sorgarsögur né einstaka frásögn frjálsrar hóru hafi neitt vísindalegt gildi. Til að meta þennan markað þarf að skoða hann sem heild, gera greinarmun á kynlífsánauð og frjálsu vændi og skoða mismunandi hópa kvenna. Það er t.d. mjög mikill munur á aðstæðum kvenna sem vinna sjálfstætt á vændishúsum þar sem þær leigja pláss og þeirra sem mæla göturnar og fara jafnvel með kúnnunum heim til þeirra. Einstaka sögur mega alveg fljóta með til að skýra hlutina nánar en það er ekki hægt að alhæfa út frá þeim. Þetta vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér félagsvísindi en rannsóknir dólgafeminista eiga náttúrulega ekkert skylt við vísindi.

Vitanlega ræðir leyniskyttan rannsóknaraðferðir og staðreyndafalsanir ekki neitt. Ekki er heldur komið inn á þöggun vændiskvenna né afleiðingar þess að setja lög sem eiga að vernda fólk í óþökk þess. Það er nefnilega ekkert hægt að ræða þessa hluti án þess að rekast óþægilega á þá staðreynd að rannsóknir í nefni feminista og björgunaraðgerðir þeirra eru oft vægast sagt ófaglegar. Þess í stað er athyglinni sem fyrr beint að þrælahaldi og barnanauðgunum. Spurt er hversu mörgum börnum og konum megi fórna í þágu kláms og vændis. Með sömu rökum ættum við auðvitað að banna flugeldagerð, kaffiframleiðslu, mottuvefnað, súkkulaði, demanta, snyrtivörur, bómullarfatnað og mat en það er náttúrulega bara allt annað. Enda snýst þetta þegar upp er staðið ekkert um mannréttindi, heldur eitthvað allt annað. Að einhverju leyti um það hvað kynlíf annarra sé ógeðslegt, að einhverju leyti um duldar aðferðir til að takmarka streymi innflytjenda til Vestur Evrópu, að einhverju leyti um að dímonisera karlmenn og að einhverju leyti sennilega bara um að þurfa ekki að viðurkenna að maður geti haft rangt fyrir sér.

Ég kannast ekki við að hafa, hvorki í umræddri grein né annarsstaðar, vísað í rannsóknir sem „eiga að sanna að vændi sé bara alltílæ, langflestar konur vilji ekkert frekar en hleypa uppá sig hverjum kallinum á fætur öðrum gegn greiðslu, bara gaman að því.“ Ég hef hinsvegar gagnrýnt, annarsvegar þær ýkjur og gölluðu rannsóknir sem haldið er á lofti sem vísindum og hinsvegar þá þöggun sem feministar beita vændiskonur og annað fólk í kynlífsþjónustu, fólk sem er hundóánægt með að vera skilgreint sem ósjálfstæð fórnarlömb sem ekkert mark sé á takandi. Þetta er hinsvegar dæmigert fyrir málflutning dólgafeminista. Ýkjur og útúrsnúningar, jafnvel hreinar og klárar lygar eru sú tækni sem þær beita málstað sínum til framdráttar.