Þegar ég var lítil fyrirvarð ég mig fyrir klámmynd sem hékk uppi á vegg heima hjá mér. Þetta var blýantsteikning af nöktu pari í faðmlögum. Mér fannst nógu dónalegt að hafa berrassað fólk uppi á vegg en þegar drengur sem kom í heimsókn fullyrti að þau væru “að ríða” var mér allri lokið. Móðir mín harðneitaði að fjarlægja klámmyndina sem hún sagði að væri hreint ekkert klám. Hvor okkar hafði rétt fyrir sér?

Það er ekki hægt að framfylgja klámbanni nema skilgreina klám

Ég veit ekki hvor mér finnst hlægilegri fyrirsögnin á þessari frétt eða ályktunin sem sagt er frá. Fyrirsögnin er Kynjamismunun án kláms. Það má semsagt mismuna kynjunum en skilyrði að það sé gert án þess að klæmast – eða hvað?

Hvaða tilgangi á svo þessi ályktun að þjóna? Hvernig ætla menn að koma í veg fyrir klám í “fjölmiðlum”? Enn hefur engum tekist að finna skilgreiningu á klámi sem sæmileg sátt ríkir um og þar sem internetið er fjölmiðill hlýtur ályktunin að fela í sér ritskoðun á netinu. Ég hélt að klámskjöldur þjóðarinnar hefði komist nálægt því að sprengja ruglskalann með ummælum sínum um að fyrst sé hægt að senda menn til tunglsins megi alveg eins ritskoða internetið en það er víst satt sem Carlo M. Cippola segir; fjöldi heimskingja í umferð verður seint ofmetinn.

Það er hægt að stjórna því að nokkru leyti hvað maður sér á netinu

Það er margt óvelkomið áreiti annað en klám sem blasir við okkur bæði í fjölmiðlum og á öðrum opinberum vettvangi. Við getum ekki bannað fjölmiðlum að birta það sem við viljum ekki sjá en það er kannski hægt að ná samkomulagi um það hvað má vera í barnaherberginu og hvað ekki. Mér fannst stórkostlegt framfaraskref þegar DV fór að merkja efnisflokka sína með mismunandi litum því nú ramba ég ekki lengur óvart á fréttir af fræga fólkinu og megrunarkúrum.

Það er líka margt sem við getum haft stjórn á ef við vitum hvernig á að fara að því. Auglýsingar fara í taugarnar á mér og ég væri alveg til í auglýsingalausa fréttamiðla. Það er ekki raunhæft en hinsvegar jók það lífsgæði mín til muna að fá ad-block forrit. Af og til sé ég facebook vini mína beina gremjulegum tilmælum til fólks á vinalistnum um að hætta að senda sér leikjaboð. Þetta fólk veit ekki að það er hægt að blokkera leikjaboð á facebook og stjórna því að nokkru marki hvaða innlegg maður sér á fréttaveitunni. Það er m.a.s. miklu raunhæfara að ritstýra sinni eigin fréttaveitu en því hvað annað fólk gerir á facebook.

Engin lausn er fullkomin svo tökum frekar þær raunhæfu

Mér finnst fara best á því að klám og annað efni sem fer fyrir brjóstið á mörgum sé aðallega geymt á sérstökum svæðum sem blasa ekki við manni hvar sem er. Bara svona eins og maður geymir klámið sitt í skúffum og skápum en ekki uppi á vegg í stofunni. En ég sé samt ekki fyrir mér að menn verði nokkurntíma sammála um það djarfleikastig sem er viðeigandi í stofunni. Hver á að ákveða það? Átta ára púrítaninn á heimilinu eða frjálslynda kvenfrelsiskonan? Því verður seint svarað en það er raunhæfara að það sem nokkuð góð sátt ríkir um að fari illa á stofuveggnum sé geymt í skúffum og skápum en að það sé bannað.

Það er líka raunhæfara að hver og einn komi sér upp vörnum gegn því efni sem hann vill ekki sá á sínum eigin tölvuskjá en að yfirvaldið sjái um að velja það fyrir okkur. Það mun ekki duga til þess að við sjáum aldrei rassa eða neitt annað ósmekklegt en það er allavega raunhæfara en að ætla að ritstýra internetinu.