Mér var satt að segja dálítið brugðið þegar ég sá úttekt Hildar Lilliendahl á kynjahlutföllunum í fréttablaðinu, fyrir nokkrum vikum. Ekki svo að skilja að niðurstaðan hafi komið mér á óvart. Ég hefði sjálf giskað á að fréttir af konum og viðtöl við konur væru um 25% af því efni sem dagblöð og fréttastofur ljósvakamiðlanna birta.
Það sem kom illa við mig var öllu heldur það að þetta hefur aldrei angrað mig neitt. Konur þykja ómerkilegra fréttaefni en karlar, þannig er það bara og ég hafði gengið út frá því nánast eins og náttúrulögmáli að fréttir og fréttatengt efni snerist meira um karlmenn.
Konan er ennþá hitt kynið. Helmingur mannkyns vekur síður áhuga en karlarnir og ég hafði aldrei haft fyrir því að agnúast út í fjölmiðla yfir því. Það var nú bara ekki í lagi, hugsaði ég og setti í gírinn, bjó mig undir að brjálast út í sjálfa mig fyrir að vera ekki hneykslaðri. Ég var dálítið hneyksluð jújú, en hneykslun mína skorti bæði kraft og einlægni. Mér fannst þetta ekki í lagi, alls ekki en mér var fyrirmunað að sjá fréttablaðið eða aðra fréttamiðla sem sökudólga. Vandamálið er ekki einfaldlega það að fjölmiðlar vanræki konur, það er dýpra og flóknara en svo.
Hvað með aðra hópa?
Fátækir eru meirihluti mannkyns en þó kemst fátæklingur sjaldan í fréttir vegna þess sem hann hefur að segja. Fátæklingur á forsíðu er annaðhvort afreksmaður eða glæpon, nú eða þá að fréttin snýst um fátækt eða önnur vandamál sem haldast í hendur við hana.
Börn eru meira en 25% mannkyns en hversu hátt er hlutfall barna í fréttum? Ef börn rata á forsíður dagblaðanna er það sjaldan vegna þess að þau hafi eitthvað að segja. Barn kemst á forsíðu vegna sérstöðu sinnar, það er annaðhvort afreksbarn eða fórnarlamb eða þá að fréttin snýst um málefni barna. Oftast eru börn bara notuð sem skraut. Krakkarnir á leikskólanum Bangsalandi fóru í vorferð. Það er nefnilega svo krúttlegt. Já og þá sjaldan að barn kemst í fjölmiðla vegna þess að það hafi eitthvað að segja eða hafi sýnt frumkvæði og hugmyndaauðgi, þá jeminna bloggheimar á innsoginu af einskærri krúttupúttu. Það sem skiptir máli er ekki það sem barnið hefur að segja, heldur það að barn skuli segja það. Litla dúllan. Hún er lúmsk helvítis krúttupúttan, og nákvæmlega sama eðlis og sú karlremba sem erfiðast er að uppræta. Ósköp öðlingsleg gerð af yfirlæti sem felur ekki í sér fyrirlitningu en gerir samt á ákveðinn hátt lítið úr mælandanum. Yfirlæti sem beinir sjónum sínum frá efninu og að því sem hefðin segir að geri persónuna ótrúverðuga, hvort sem það er nú að vera eitthvað lítið og sætt eða bara að skarta röngu millifótadjásni. Það svo krúttlegt að manneskja sem tilheyrir ótrúveðugri tegund, skuli geta sagt eitthvað af viti. Svona eins og api sem kann samlagningu.
Ekki við fjölmiðla eina að sakast
Fréttir snúast um það sem vekur óhug og aðdáun. Um stóra atburði, afburðamenn og örlagavalda. Þá sem stjórna heiminum en ekki þá sem láta að stjórn. Og þeir sem stjórna heiminum eru heilbrigðir, ríkir karlar á aldrinum 35-65 ára. Ekki börn og fátæklingar. Ekki sjúklingar, innflytjendur eða konur. Jújú, konur stjórna pínulitlu, alveg smá, stundum. Þær eiga líka til að vinna afrek og ódæði. Svona eins og fátæklingar. En tiltölulega fáar konur eru áhrifavaldar á sama hátt og miðaldra, hvít jakkaföt.
Það er ekkert við því að búast að fjölmiðlar einbeiti sér að konum. Fjölmiðlar þjóna lesendum og lesendur eru upp til hópa ofurseldir þeirri hugmynd að þeir sem hlustandi er á, séu helst þeir sem bæði telja sig þess umkomna að hafa vit fyrir öðrum og einnig tengsl og peninga til að ná völdum. Þeir sem eru lausir við allan krúttleika. Það er skiljanlegt að við höfum meiri áhuga á því hvað þeir sem ráða örlögum okkar eru eiginlega að bardúsa en á hugmyndaheimi hinna valdalausu. Heimi krúttanna. Vandamálið er ekki fjölmiðlarnir heldur hitt að það skuli viðgangast að fámenn stétt manna með takmarkaða reynslu og sjónarmið, skuli komast upp með að ráða svo miklu sem raun ber vitni.
Margir sjá lausnina í kynjakvótum. Jafna hlutfall karla og kvenna í stjórnsýslunni, fyrirtækjum, fjölmiðlum og bingó! viðhorf og hagsmunir kvenna fá meira vægi.
Ég efast. Við getum komið á kynjakvótum, aldurskvótum, efnahagskvótum og heilsukvótum, jafnvel krúttkvótum en ég efast um að það skili betra samfélagi. Ég get t.d. ekki séð að það hafi gagnast mér neitt, hvorki sem manneskju né konu að hafa Þorgerði Katrínu á þingi. Eða Rannveigu Rist í álverinu í Straumsvík.
Á meðan við byggjum upp og viðhöldum kerfi, þar sem sumir ráða og aðrir hlýða, munu hverskyns kvótar þjóna takmörkuðum tilgangi. Að því kemur að börn fá að taka þátt í stjórnkerfinu. Nei það er ekkert fráleitt, til eru börn sem eru betur upplýst og betur hugsandi en sumir þeirra sem hafa farið í framboð og náð kjöri út á eitthvað allt annað en hæfileika. En þau börn sem munu sækjast eftir áhrifastöðu, verða ekki dæmigerð börn. Það verða þau börn sem eiga hvað mest sameiginlegt með fullorðnu valdafólki. Þau verða ekki fulltrúar barna, heldur krúttlegir fulltrúar sinna líka, þeirra sem vilja stjórna öðrum og hafa vit fyrir þeim.
Á meðan við byggjum heim þar sem fámennur hópur stjórnar og fjöldinn fylgir, verður ekkert jafnrétti. Hvorki í fjölmiðlum né annarsstaðar. Kynjakvótar geta hugsanlega fært okkur dagblöð með konu á hverri opnu en þeir munu ekki ljá öllum konum rödd og allra síst þeim fátæku, undirokuðu og krúttlegu. Þeir munu heldur ekki rétta hlut fátækra, sjúklinga eða barna.
Aðeins þátttökusamfélag, samfélag þar sem allir hafa sama rétt og bera sömu ábyrgð á því að móta samfélag sitt og umhverfi, getur gert þá kröfu til fjölmiðla að þeir sinni öllum hópum jafnt. Aðeins þátttökusamfélag getur upprætt þá hófsömu gerð undirokunar sem opinberast í aumingjagæskunni, harmarunkinu, karlrembunni og krúttupúttunni. Aðeins þátttökusamfélag mun geta af sér þátttökufjölmiðla.