Mér finnst bleikt.is óþolandi síða. Ekki vegna þess hve hátt hlutfall af efninu snýst um tísku og sambönd heldur vegna þess;

  • hvað þessi síða er hroðalegt dæmi um vonda blaðamennsku
  • hvað er erfitt að komast hjá því að verða var við þennan hroða (ég hef engan áhuga á golfi en golfáhugamenn mega alveg stunda sitt golf í friði fyrir mér, mér þætti hinsvegar pirrandi að rekast daglega á eitthvert golfefni innan um fréttir sem koma mér við,
  • hvað fjölmiðlar eru virkir í því að ýta undir þá hugmynd að umfjöllunarefni slíkra síðna séu einhverskonar kvenlegt norm,
  • að það bæði hryggir mig hversu margar konur leggja lítið til samfélagsumræðu og sýna lítinn áhuga á öðru en því sem ég álít yfirborðslegt og ég finn til vanmáttar yfir því að geta ekki bara skipað öllum konum að hugsa sjálfstætt og hafa áhuga á því sem mér finnst mikilvægt.

Stundum taka vonbrigði mín og annarra sem eru sama sinnis, á sig mynd sem er líklegri til að fæla „bleiku konurnar“ frá áhuga á pólitík, vísindum og annarri menningu en tísku og útliti. Við tölum niður til þeirra. Gerum grín að vondu málfari. Einhver stofnar blogg sem er sérstaklega ætlað til að hæðast að stúlkum sem hafa áhuga á tísku. Við gubbum yfir eitthvað jafn kjánalegt og „rannsóknir sýna að konur með bólu á nefinu eru algjör dýr í rúminu“ á bleiku síðunum en horfum samtímis gagnrýnislaust á paranoju á borð við „rannsóknir sýna að karlar eru vitlausir í barnaklám“ hjá ákveðnum hópi feminista enda þótt báðir hóparnir séu með vafasöm vísindi á bak við sig. Prinsessuskóli verður að „námskeiði í hlutgervinu og undirgefni“, kona sem hefur meiri áhuga á að ala upp börn en að fara í háskólanám er sögð metnaðarlaus. Konur sem fjarlægja kynhár verða sjálfsvirðingarlaus fórnarlömb klámvæðingarinnar.

Ég lít á það sem vandamál ef fólk situr fast í viðjum staðalmynda. Það sem mér finnst dýrmætast við feminismann fyrir okkar samfélag í dag er mótspyrnan gegn því að kynferði ákvarði mikilvæga hluti eins og t.d. hvaða nám og störf við veljum, hversu vel við komumst af fjárhagslega, möguleika okkar á að njóta frístunda, verja tíma með börnunum okkar o.s.fv. Við þurfum á feministum að halda vegna þess að það eru þeir sem standa vaktina gagnvart þessum málum.

Feministum finnst stundum miða hægt og það er skiljanlegt að grípi um sig gremja þegar staðalmyndirnar, hlutgervingin, yfirborðsmennskan, sofandahátturinn virðist ekkert vera á undanhaldi. En ef hver sá sem nefnir hætturnar sem – ekki feminisk viðhorf – heldur frekar tilfinningaleg viðbrögð vonsvikinna feminista hafa í för með sér, er stimplaður karlremba eða sjónarmið hans afgreidd með dómum um grunnhyggni og skilningsleysi, þá erum við ekki að halda uppi umræðu heldur stofna til grjótkasts. Ef má ekki tala um neikvæðar birtingarmyndir gremjunnar þá mun hún bara skapa dýpri gjá milli kvenna, þrýsta á konur um að taka afstöðu með eða móti feministum. Og trúið mér, það er áreynsluminna að mynda sér skoðun á varalit en réttlætismálum. Auk þess sem vondar bækur og illa unnar fréttir seljast iðulega vel.

Mynd: Macro Verch, Flickr