Frá árinu 2001 hef ég talað fyrir atvinnufrelsi fólks í klám og kynlífsgeiranum. Ég hef æ ofan í æ bent á gallaðar rannsóknir, kerfisbundna þöggun vændiskvennna og ýkjur og rangfærslur sem jafnan er haldið á lofti í umfjöllun um þessi mál. Skrif mín hafa mjög lítil viðbrögð fengið enda þótt margar færslnanna hafi fengið þúsundir flettinga. Ég er svosem ekki hissa á því, tilgangur fórnarlambsfemnista er ekki sá að halda uppi málefnalegri umræðu heldur að einoka hana. Þetta snýst ekkert um velferð vændiskvenna, hvað þá sjálfsákvörðunarrétt þeirra, heldur er markmiðið að festa í sessi hina ógeðfelldu hugmynd um kynjastríð, þar sem konan er undirskipuð, í rauninni fædd fórnarlamb og nánast allar gjörðir karlsins snúast um það að ná henni á sitt vald. Það er pirrandi fyrir fólk með svona hugsjónir þegar því er svarað en þegar fólk sem er búið að halda á lofti hverri vitleysunni á fætur annarri getur ekki svarað rökum er skynsamlegra að láta sem maður viti ekki af umræðunni og halda bara áfram að bulla.
Í gær gerði þó maður sem almennt virðist með báða fætur á jörðinni tilraun til að svara þeim skoðunum sem ég tala fyrir, þ.e. því að kynlífsþjónustu eigi að nálgast sem atvinnu en ekki glæp eða geðveiki. Helstu rök hans eru þau að það sé svo óskaplega hættulegt að stunda vændi og vísar hann í læknisfræðitímarit máli sínu til stuðnings.
Ég skoðaði greinarnar sem hann vísar í og jújú, það kemur svosem ekki á óvart að svo sem venjan er, þegar rætt er um vændi sem heilsuspillandi og banvænt, er enginn greinarmunur gerður á þrælum og frjálsum konum, hvað þá að menn hafi rænu á því að gera greinarmun á fíklum og konum sem ekki eiga við slík vandamál að etja.
Í fyrri greininni sem Ingólfur vísar til kemur fram að vímuefnaneysla og ofbeldi séu algengustu dánarorsakir vændiskvenna í Colorado frá 1967 til 1999. Nú er Ingólfur stærðfræðingur og maður hefði haldið að hann kynni að greina milli orsakar og afleiðingar. Engu að síður kýs hann að vitna í þessa grein án þess að nefna þá alkunnu staðreynd að margar konur fara út í vændi til þess að fjármagna fíkniefnaneyslu. Þær deyja semsagt ekki vegna þess að þær eru í vændi heldur vegna þess að lifa áhættusömu lífi. Fikniefnaneytendur sem ekki stunda vændi eru iðulega í afbrotum þar sem lífshættan er síst minni. Ekkert hefur hinsvegar nokkru sinni komið fram sem bendir til þess að kona sem ekki er í dópi eða slagtogi við glæpamenn sé í meiri hættu en fólk í mörgum “venjulegum” störfum. (Þar með er ég ekkert að útiloka þann möguleika en verið svo væn að benda á staðreynir en ekki eitthvert kjaftæði.)
Gaman er að bera saman grein Ingólfs og þær hugmyndir sem voru ríkjandi um samkynhneigða á Íslandi fyrir nokkrum áratugum og eiga reyndar enn vinsældum að fagna víða um heim. Orðræðan var lengst af sú sama. Samkynhneigð var félagslegt vandamál og þegar menn féllu frá þeirri stefnu að líta á samkynhneigð sem glæp, var hún skilgreind sem sjúkdómur. Menn lögðu áherslu á forvarnir og mikil orka og tími fór í að reyna að bjarga hommum og lesbíum frá þeim misskilningi að þau mættu ráða því hverjum þau sænguðu hjá, hvernig þær athafnir færu fram og á hvaða forsendum. Þegar maður kom út úr skápnum var gjarnan litið svo á að maki hans hefði „spillt honum“, hann væri í slæmum félgsskap eða hefði leiðst út í þetta líferni. Reynt var að þagga niður í fólki sem studdi mannréttindabaráttu samkynhneigðra með spurningum á borð við; „vildir þú að sonur þinn væri hommi?“ og „ef þú þyrftir að gefa barn til ættleiðingar, myndir þú þá vilja að tveir hommar ælu það upp?“ Gagnkynhneigðir karlar sem vildu að samkynhneigðir nytu sömu mannréttinda og aðrir, ítrekuðu að þeir væru nú samt straight sjálfir og sögðu jafnvel að þeir sæju samkynhneigð sem einhverskonar röskun sem ekki væri rétt að líta á sem glæp, rétt eins og þeir karlar sem eru mótfallnir glæpvæðingu vændiskaupa virðast finna sig knúna til að sverja af sér hverskyns hórirí og taka fram að þeir líti nú samt á vændi sem birtingu félagslegra vandamála, bann við vændiskaupum sé bara ekki rétta leiðin.
Nú er það staðreynd að samkynhneigðir eru öðrum líklegri til að deyja ungir. Fjölmargar rannsóknir sýna að lífslíkur samkynhneigðra eru mun minni en lífslíkur gangkynhneigðra en hverjar nákvæmlega þær eru veltur á trúhneigð rannsakenda og þeirra sem túlka niðurstöðurnar. (Á sama hátt er það ekki umdeilt að meiri líkur eru á að vændiskona verði fyrir líkamsárás í vinnunni en bankagjaldkeri en það veltur á feminiskri afstöðu rannsakenda hvort hlutfallið er nær því að vera 10% eða 90%) Það er þó ekki umdeilt að samkynhneigð, sjúkdómar og áhættusöm kynhegðun fer saman. Sama tímarit og Ingólfur vísar til birtir t.a.m. ýmsar greinar um þær hættur sem steðja að hommum og lesbíum. Þessi grein er því miður ekki aðgengileg nema gegn greiðslu og ég nenni bara hreinlega ekki að leggjast í hommarannsóknir að sinni en var svo heppin að finna pistil þar sem vísað er í margar rannsóknir. Sú grein var birt á vefsíðu Catholic Education Resource Center. Ég tel vel við hæfi að nota hana enda ber umræða feminista um kyn og klám síst minni keim af trúarlegu ofstæki en umræða Kaþólsku kirkjunnar um homma.
Við skulum bera saman umræðuna um vændi og samkynhneigð.
Ingólfur: „Ef trúa má læknisfræðitímaritum þá er vændi versta atvinnugrein í heimi. Í stórri langtímarannsókn frá Bandaríkjunum var dánartíðni vændiskvenna metin sexföld á við meðaltalið, en morðtíðnin átjánföld. (Sjá í British Medical Journal: Mortality in a Long-term Open Cohort of Prostitute Women.) Höfundar telja að vísu að þetta séu of lágar tölur, þær eru algert lágmark og byggjast á staðfestum dauðsföllum. Þeir telja líklegt að þeir hafi misst af einhverjum. Ég skoðaði tvær aðrar greinar (í British Medical Journal og Lancet) sem segja það sama: vændi er hættulegasta og mest heilsuspillandi starf sem til er.“
Eva: „Ef trúa má læknisfræðitímaritum þá er kynlíf samkynhneigðra versta kynhegðun í heimi. Í þessari grein er vísað í margar rannsóknir og sýnir höfundur m.a. fram á að ungir hommar eru í 50% hættu á fá HIV veiruna, endaþarmsmök auka hættuna á krabbameini í endaþarmi um 4000% og margir aðrir sjúkdómar fylgja þessari hættulegu kynhegðun. Sterk tengsl eru milli samkynhneigðar og sjálfsvíga auk þess sem hverskyns tilfinningaleg vandamál og geðraskanir eru mun algengari meðal samkynhneigðra. 39% homma hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi, 44% homma og 55% lesbía verða fyrir líkamlegu ofbeldi af hálfu maka síns og 83-84% fyrir tilfinningalegu ofbeldi, 13% samkynhneigðra karla og 14% samkynhneigðra kvenna verða fyrir kynferðisofbeldi af hálfu maka.“
Ingólfur: „Nú er það ekki óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda að besta ákvörðunin sé að banna vændi með lögum að viðlögðum refsingum fyrir þá sem bjóða það eða kaupa það. Svo virðist sem Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin telji skynsamari leið vera að gera vændi löglegt en beita í staðinn öðrum kraftmiklum aðferðum til þess að hjálpa fólki sem er í vændi, efla vald þess og stöðu, reyndar með það fyrir augum að það geti að lokum sagt skilið við þetta hlutverk. (Sjá í Lancet: Sex-work harm reduction.)“
Eva: „Nú er það ekki óhjákvæmileg afleiðing þessara staðreynda að besta ákvörðunin sé að banna samkynhneigð með lögum að viðlögðum refsingum fyrir þá sem táldraga einhvern af sama kyni eða láta fallerast. Í flestum vestrænum löndum hafa stjórnvöld farið þá leið að lögleiða samkynhneigð. Engu að síður er þörf á öðrum kraftmiklum aðferðum til þess að hjálpa fólki sem stundar hommaskap, efla vald þess og stöðu, reyndar með það fyrir augum að það geti að lokum sagt skilið við þetta líferni. (Trúfélög hafa t.d. beitt sér fyrir afhommun með góðum árangri.)“
Greinin sem ég vísa í er vond. Hún er vond af sömu ástæðum og grein Ingóllfs og túlkun hans á tölum um þær hættur sem vændiskonur búa við. Þar er nefnilega gengið út frá því að vandamál þessa fólks stafi af kynhegðun þess. Ekki er tekið tillit til þess að jaðarfólk og utangarðsfólk er öðrum líklegra til að koma út úr skápnum og að fólk sem býr við fordóma og þarf jafnvel að halda miklivægum hlutum í lífi sínu leyndum, er öðrum líklegra til áhættuhegðunar. Á sama hátt taka þeir sem rannsaka vændi sjaldan tillit til þess að þær vændiskonur sem eru sýnilegastar og líklegastar til að þiggja hjálp (eða telja sig hafa þörf fyrir hana) eru einnig líklegastar til að vera í vímuefnaneyslu, hafa orðið fyrir ofbeldi og eiga við fátækt, sjúkdóma og önnur félagsleg vandamál að etja. Þær konur sem eru ánægðar vilja yfirhöfuð ekkert við sjálfskipaðar bjargvættir tala. Það er heldur ekki tekið tillit til þess að langvarandi vanlíðan stendur oftast í beinu sambandi við það viðmót sem manneskjur mæta í samfélagi sínu og það er ósköp eðlilegt að þeir sem lifa tvöföldu lífi og fá stöðugt þau skilaboð að þeir séu veiklundaðir, sjúkir á geðsmunum, ógeðslegir og siðlausir, þjáist fyrir það.
Niðurstaða Ingólfs er sú að í sósíaldemókratískum löndum sé rétt að yfirvaldið hafi vit fyrir fólki og geri sitt besta til að stjórna kynhegðun þess. Vegna þess að það er svo hættulegt að vera hóra og konum náttúrulega engan veginn treystandi til að meta það sjálfar hvort þær vilji taka áhættuna. Ég er þessu ósammála.
Hvort sem fólk býr við sólíaldemókratisma eða eitthvað annað, ætti það að fá að stjórna sínu lífi sjálft. Sjálfsagt er að taka hart á þrælahaldi, halda uppi öflugu forvarnastarfi meðal unglinga og bjóða upp á aðstoð fyrir þá sem kæra sig um að hætta vímuefnaneyslu og/eða vændi. Það að sjálfskipaðar bjargvættir reyni að hafa vit fyrir öðrum með því að búa til glæp án fórnarlambs er hinsvegar óþolandi. Nær væri að lögleiða vændi, búa þeim sem það stunda almennilegt starfsumhverfi og láta af þessari niðurlægjandi orðræðu sem gerir allar konur að viljalausum verkfærum graðra ofbeldismanna. T.d. væri hægt að gefa vændishúsum gæðastimpil, rétt eins og matsölustaðir þurfa heilbrigðisvottorð. Þannig gætu viðskiptavinir komist hjá því að styðja þrælahald og konur gætu stundað þessa atvinnu í öruggu umhverfi og sótt rétt sinn ef á þeim er brotið.