Stjórnlagadómstóll Þýskalands hefur komist að þeirri niðurstöðu að ekki megi synja óskilgetnum börnum Gyðingakarla sem sviptir voru þýskum ríkisborgararétti í valdatíð Nazista um ríkisfang í Þýskalandi.
Bandarísk kona, dóttir Gyðings sem var sviptur ríkisborgarrétti árið 1938, krafðist ríkisborgararéttar fyrir dómstólum en tapaði á lægri dómstigum. Stjórnlagadómstóllinn sagði þá framkvæmd fela í sér mismunun, þar sem henni hefði verið synjað um ríkisfang á þeirri forsendu að bandarísk móðir hennar og faðir hennar sem var Gyðingur hefðu verið ógift. Konan fæddist í Bandaríkjunum árið 1967.
Í stjórnarskrá Þýskalands er kveðið á um rétt Þjóðverja sem sviptir voru ríkisborgarrétti á árunum 1933-1945 á grundvelli stjórnmálaskoðana, kynþáttar eða trúar, sem og afkomenda þeirra til þýsks ríkisfangs.
Í niðurstöðu dómsins, sem kveðinn var upp þann 20. maí en birtur í dag, segir að þessi réttur nái einnig til þeirra barna fyrrum Þjóðverja sem fæddust utan hjónabands. Forsenda þessarar niðurstöðu er sú að ekki megi mismuna fólki á grundvelli hjúskaparstöðu foreldra eða kyns foreldra.
Dómurinn markar tímamót í sögu réttindabaráttu fórnarlamba Helfararinnar. Óskilgetin börn Gyðinga hafa lengi barist fyrir því að fá rétt sinn viðurkenndan en það er fyrst nú sem því marki er að fullu náð. Á síðasta ári var túlkun umrædds ákvæði stjórnarskrárinnar rýmkuð með því að þeim sem fæddust fyrir apríl 1953 og eiga gyðinglega móður en föður af erlendu bergi var játaður ríkisborgararéttur. Með dómnum frá 20. maí gengur ríkisborgararéttur feðra í erfðir rétt eins og ríkisborgararéttur mæðra.