Þar sem hvorki fréttir frá Sýrlandi né mitt eigið ákall um viðbrögð stjórnvalda við innrás Tyrkja í Afrín hafa skilað árangri, bið ég um aðstoð allra þeirra sem telja rétt að Íslenska ríkið fordæmi innrásina. Hægt er að undirrita áskorun hér.

Kúrdar eru stærsta landlausa þjóð veraldar og hafa gegnum tíðina búið við stöðugar ofsóknir. Fjöldamorð Saddams Hussein á Kúrdum voru á sínum tíma úrskurðuð þjóðarmorð fyrir Alþjóðlega glæpadómstólnum í Haag og á seinni árum hafa Sameinuðu þjóðirnar skilgreint ofsóknir Islamska ríkisins gegn Yazidi-fólkinu í Irak sem þjóðarmorð.

Síðustu árin hafa Kúrdar barist fyrir rétti sínum til sjálfsstjórnarsvæðis og lagt sig fram um að byggja upp samfélag á grundvelli jafnréttis, lýðræðis og trúfrelsis. Þessari samfélagstilraun hefur verið mætt af fullri hörku úr ýmsum áttum þar á meðal af hálfu Tyrklands sem eins og Ísland á aðild að Atlantshafsbandalaginu.

Meðal þeirra sem harðast hafa gengið fram gegn Kúrdum á síðustu árum má nefna liðsmenn Islamska ríkisins sem náðu yfirráðum í borginni Raqqa með gegndarlausu ofbeldi, þar á meðal  opinberum aftökum. Þeim var að lokum stökkt á brott, mestmegins af kúrdískum andspyrnuhreyfingum, í október 2017. Sýrlenskar árásarsveitir undir stjórn Assads og með fulltingi Rússa, hafa herjað á Austur Ghouta, meðal annars með efnavopnum. Tyrkir náðu yfirráðum í Afrín um miðjan mars, eftir ríflega 7 vikna linnulausar loftárásir með dyggum stuðningi Islamista og sýrlenskra hersveita. Ofbeldinu er þó hvergi nærri lokið og hefur Erdoğan, forseti Tyrklands, nú tilkynnt að hersveitir hans muni halda áfram innrás sinni í Rojava. Næst verði ráðist á Tal Rifaat þar sem nú dvelja um 50.000 flóttamenn sem flestir hafa flúið Afrín.

Það er hryggilegt að Íslendingar skuli telja sig til bandamanna þjóða sem fremja voðaverk í skjóli ríkisvalds og hafa nýtt sér stuðning hryðjuverkasamtaka á borð við Islamska ríkið. Það er alþjóðasamfélaginu til háborinnar skammar að láta ofsóknir gegn Kúrdum viðgangast og það er með öllu óásættanlegt að Íslendingar taki því þegjandi.

Hér má undirrita svohljóðandi áskorun:

Í ágúst 2016 hvatti þingflokkur Vinstri grænna íslensk stjórnvöld til að fordæma mannréttindabrot Tyrkja gegn Kúrdum, á alþjóðavettvangi. Ekki brást þáverandi ríkistjórn við ákallinu. Nú þegar Vinsti græn eru leiðandi í ríkisstjórn væri við hæfi að þingflokkur þeirra gengist fyrir því að Íslenska ríkið taki opinbera afstöðu til innrásar Tyrkja í Rojava og fordæmi hana á alþjóðavettvangi.

Við undirrituð skorum því á forsætisráðherra landsins, Katrínu Jakobsdóttur, að beita sér fyrir því að ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja í Afrín og mannréttindabrot þeirra gegn Kúrdum. Nái það ekki fram að ganga skorum við á Katrínu að  að senda frá sér slíka yfirlýsingu í eigin nafni.