Síðasta föstudag deildi ég á Facebook-síðu minni tengli á þessa yfirlýsingu Dofra Hermannssonar þar sem hann talar um umfjöllun Stundarinnar um mál sín sem ofsóknir. Þetta er ekki frétt sem rannsóknarvinna liggur á bak við, heldur – eins og fyrirsögn gefur til kynna – einhliða yfirlýsing, birt undir merkinu „aðsend grein“.

Nokkrar umræður urðu á Facebook-vegg mínum í framhaldinu, aðallega við innlegg Jóns Trausta Reynissonar, ritstjóra og framkvæmdastjóra Stundarinnar, sem gerir eftirfarandi athugasemdir:

  • að Kvennablaðið vinni ekki rannsóknarvinnu í þeim málum sem það fjallar um
  • deili „ásökun á miðilinn sem þó vinnur rannsóknarvinnuna“
  • hafi birt ásakanir á hendur nafngreindri konu án þess að vita neitt um málið
  • að Dofri sé að snúa út úr orðalagi Stundarinnar í fréttinni sem yfirlýsingin snýst um

Nú skulum við skoða þessar staðhæfingar Jóns Trausta vandlega ásamt tildrögum þess að mál Dofra Hermannssonar rataði á síður Kvennablaðsins.

Stundin birtir drottningarviðtal við Dofra um ofbeldi barnsmóður

Í desember 2015 birti Stundin sögu Dofra Hermannssonar sem sagði eiginkonu sína hafa beitt sig ofbeldi og skaðað samband hans við dætur sínar. Þetta var drottningarviðtal, það er að segja einhliða frásögn þar sem viðmælandi blaðamanns fékk engar óþægilegar spurningar og umfjöllunin var öll á hans forsendum.

Drottningarviðtöl eru gagnrýniverð þegar umfjöllun snýst um mál sem varða almannahagsmuni en þau eiga oft rétt á sér í öðru samhengi og eru normið þegar um reynslusögur einstaklinga er að ræða. Drottningarviðtal merkir samt ekki endilega að blaðamaður hafi ekkert kynnt sér málið og í fyrrnefndu innleggi á Facebook gefur Jón Trausti berlega í skyn að Stundin birti ekki einhliða frásagnir nema hafa fengið staðfestingu á því úr öðrum áttum að sagan sé nokkuð áreiðanleg. Forsvarsmenn Stundarinnar hafa því álitið sögu Dofra árið 2015 nægilega sannaða til þess að réttlætanlegt væri að birta hana. Um er að ræða frásögn sem gæti talist ærumeiðandi fyrir meinta ofbeldiskonu og vegur að friðhelgi einkalífs hennar og dætranna. Það skiptir auðvitað ekki nokkru máli hvort konan var nafngreind eða ekki, það að hún hafi búið með manninum og eignast með honum börn eru yfirdrifið nægar upplýsingar til þess að hver sem kærir sig um getur auðveldlega fundið nafn hennar.

Það var því Stundin sem upphaflega birti ásakanir Dofra á hendur barnsmóður sinni. Það gerir blaðamaður – ef eitthvað er að marka þá stefnu sem Jón Trausti talar um – eftir að hafa fengið staðfest að Dofri hefði rétt fyrir sér.

Rannsókn að baki birtingu einhliða yfirlýsinga hjá Stundinni

Síðan líða fimm ár og fimm mánuðir án þess að Dofri ræði persónuleg mál sín á opinberum vettvangi, að frátöldum pistli sem hann birti á Facebook haustið 2016. Á þeim tíma fer hann aftur á móti að vinna með Félagi um foreldrajafnrétti og kemur fram fyrir hönd þess á opinberum vettvangi. Á degi foreldraútilokunar, þann 25. apríl sl. birti Vísir grein eftir Dofra með fyrirsögninni „Leyfi til að elska“ þar sem hann skrifar sem formaður félagsins og ræðir foreldraútilokun á almennum nótum án þess að nefna sína eigin reynslu. Uppkomnar dætur hans birta í kjölfarið yfirlýsingu á Facebook, þar sem þær tala um Dofra sem ofbeldismann, án þess að skýra það frekar. Stundin segir frá þessari yfirlýsingu.

Jón Trausti er ósáttur við að Kvennablaðið hafi birt einhliða yfirlýsingar Dofra Hermannsonar. Það mætti því ætla að vönduð rannsóknarvinna hafi legið á bak við þá ákvörðun Stundarinnar að birta einhliða yfirlýsingu dætra Dofra. Hér hefur starfslið Stundarinnar haft hraðar hendur því yfirlýsingin birtist á Facebook-vegg Lífs án ofbeldis kl. 19:33 þann 26. apríl. Kl. 20:05 birtist umfjöllun Stundarinnar í fréttaformi.

Umfjöllun Kvennablaðsins um mál Dofra

Þegar ég sá umfjöllun Stundarinnar um yfirlýsingu dætra Dofra óskaði ég eftir viðtali við hann með áherslu á það hvort áhrif foreldraútilokunar vari virkilega langt fram á fullorðinsár og jafnvel ævina á enda.

Viðtalið snýst að verulegu leyti um þær skýringar sem sálfræðingar hafa gefið Félagi um foreldrajafnrétti á sálrænum afleiðingum þess þegar annað foreldrið innrætir barni fjandsamlega afstöðu til hins foreldrisins og/eða annarra í fjölskyldunni. Skiljanlega vekur frásögn Dofra af persónulegri reynslu sinni meiri athygli en kenningar um foreldrafirringu. Í viðtalinu eru þó engar ásakanir á hendur barnsmóður hans sem ekki höfðu áður komið fram í Stundinni og ólíkt umfjöllun Stundarinnar er þar engum smáatriðum lýst.

Þetta er í fyrsta sinn frá því að Stundin birti drottningarviðtalið við Dofra árið 2015 sem hann tjáir sig í fjölmiðlum um samskiptin við barnsmóður sína og dætur. Síðan hefur Kvennablaðið tvívegis birt einhliða yfirlýsingar frá Dofra, merktar sem slíkar. Í báðum tilvikum er um að ræða viðbrögð hans við fréttum Stundarinnar af einkamálum hans og dóttur hans á grunnskólaaldri.

Með fyrri yfirlýsingunni brást Dofri við frétt Stundarinnar um að hann hefði numið dóttur sína á brott. Það er út af fyrir sig fréttnæmt ef formaður félags sem berst gegn umgengnistálmunum beitir sjálfur umgengistálmunum. En það er líka eðlilegt að sá sem telur sig hafa góða ástæðu til að halda barni frá hinu foreldrinu ræði sína hlið á málinu opinberlega þegar það ratar í fjölmiðla.

Í seinna tilvikinu er um að ræða yfirlýsingu vegna fréttar Stundarinnar með fyrirsögninni „Lögregla fylgdi Dofra af heimili að ósk fyrrverandi eiginkonu.“  Ekki verður séð að atvikið að baki þeirri frétt varði almenning. Þetta er ekki einhliða yfirlýsing heldur frétt þar sem fullyrt er, en ekki haft eftir öðrum, að lögreglan hafi fylgt Dofra af heimili hans eftir að konan óskaði eftir aðstoð. Lesendur eiga því að geta treyst því að það sé rétt.

Stundin birtir ranga frétt og ærumeiðandi

Ég taldi í fyrstu að Stundin hefði birt fréttina án þess að geta heimildamanns, í trausti þess að upplýsingarnar væru réttar. Af orðum Jóns Trausta verður þó ekki annað skilið en að alvöru rannsóknarvinna liggi að baki fréttinni. Þar með veit blaðamaður að í gögnum lögreglu kemur ekkert fram sem gefur efni til þeirrar túlkunar að Dofri hafi verið fluttur af heimilinu með lögregluvaldi. Í gögnum lögreglu segir að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna ágreinings. Að sögn Dofra óskuðu þau bæði eftir aðstoð. Málið er skráð sem „ágreiningur“ hjá lögreglu og aðilum bent á reyna að finna farsæla lausn á málinu. Jafnframt var þeim gerð grein fyrir því að ef þau óskuðu frekari aðstoðar vegna málsins yrði það skráð sem heimilisofbeldi. Annað var ekki bókað enda óskaði hvorugt frekari afskipta. (Og já, Kvennablaðið hefur þessi gögn undir höndum.)

Hið rétta í málinu er því eftirfarandi:

  • Konan óskaði ekki frekari aðstoðar og því ekki hægt að draga þá ályktun að hún hafi gert lögreglu grein fyrir því að hún liti svo á að um heimilisofbeldi væri að ræða.
  • Lögregla fylgdi Dofra ekki af heimilinu og vísaði honum ekki út.


Hvaða ályktanir er svo hægt að draga af fyrirsögn og umfjöllun Stundarinnar? Tvennt kemur til greina; annaðhvort er rannsóknarblaðamennska Stundarinnar ekki í því skínandi góða fari sem Jón Trausti álítur, eða þá að Stundin hefur vísvitandi birt ranga frétt og ærumeiðandi.

Í fyrrnefndri athugasemd á Facebook segir Jón Trausti að Dofri hafi snúið út úr orðalagi Stundarinnar. Þessi réttlæting er ekki einu sinni svaraverð. Lesendur vita nákvæmlega hvaða ályktun þeim er ætlað að draga af fyrirsögninni og ekkert kemur fram í fréttinni sem gefur lesendum ástæðu til að endurskoða þá ályktun.

Kannski ætti Jón Trausti að byrja heima hjá sér

Sannleikurinn um rannsóknarblaðamennsku Stundarinnar í máli Dofra Hermannssonar er því eftirfarandi:

  • Það var Stundin en ekki Kvennablaðið sem hóf umfjöllun um reynslu Dofra og þá afstöðu hans að barnsmóðir hans sé ofbeldismanneskja.
  • Stundin hefur dregið upp mynd af Dofra sem ofbeldismanni út frá einhliða frásögn, bæði með viðtali við dætur hans og í formi fjölda frétta sem sannarlega kalla á viðbrögð af hans hálfu.
  • Stundin hefur – annað hvort í góðri trú eða vísvitandi – birt ranga og ærumeiðandi frétt af afskiptum lögreglu af Dofra Hermannssyni.

Stundin getur auðvitað ekki frekar en ég eða nokkur annar vitað hvað nákvæmlega hefur gerst í samskiptum Dofra, dætra hans og barnsmóður. Við getum ekki slegið því föstu hver beitti hvern gaslýsingu, hver laug upp á hvern eða hver beitti hvern ofríki í tilvikum þar sem engar heimildir eru fyrir hendi nema frásagnir hlutaðeigandi. Það sem við getum gert við frásagnir sem ekki er hægt að staðfesta er að meta hvort þær eigi erindi við almenning og ef svo er að setja þær þá fram á þann hátt að lesendum dyljist ekki að um einhliða frásögn er að ræða. Svör við ásökunum um ofbeldi eða aðra óþolandi hegðun eiga að sjálfsögðu alltaf rétt á sér. Kvennablaðið hefur þessvegna birt svör Dofra við umfjöllun Stundarinnar.

Sannleikurinn er sá að öll umfjöllun um mál Dofra er knúin af Stundinni og síðasta útspil Stundarinnar gæti jafnvel kallað á meiðyrðamál. Jón Trausti Reynisson ætti því kannski að taka til heima hjá sér áður en hann skensar aðra.

Þessu tengt: