Nýtt merki Samfylkingarinnar vakti töluverða athygli á samfélagsmiðlum í gær. Bent var á líkindi þess við eldra merki Byggðastofnunar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson velti því upp hvort merkið boðaði breytta stefnu í byggðamálum.

Elliði Vignisson birti svo færslu sem ekki vakti minni athygli:

Í dag kynnti Samfylkingin nýtt merki, þar er um að ræða hvítan hring á rauðum fleti. Ætli þeim hafi á einhverjum tímapunkti dottið í huga að googla hverskonar samtök noti helst það myndmál? Samfylkingin á ekkert skylt við þessi samtök og þess vegna veltir maður fyrir sér afhverju þetta myndmál sé notað

Með færslunni birtir Elliði þessa mynd:

Margir hafa furðað sig á þeirri ályktun að nýja merkið líkist merkjum nasista. Atli Þór Fanndal birtir færslu á Facebook sem nær nokkuð vel utan um rök þeirra sem telja Elliða ósmekklegan og/eða úti á túni.

Ummæli Atla Þórs Fanndal

Í gær birti Samfylkingin nýtt merki flokksins í tilefni af tuttugu ára afmæli hreyfingarinnar. Þessu fagnaði Elliði Vignisson með því að bera nýja merkið saman við myndmál nasista.

Þetta var svo fjallað um í fjölmiðlum líkt og ekkert væri eðlilegra en að stjórnmálamaður gantist með að flokkur andstæðinga hans sé að spila með myndmál hugmyndanna að baki helförinni.

Merkið (hvað sem öllum finnst um það) er ekki í myndmáli nasista. Það sjá allir með augu, þannig að þessi tenging er alveg út úr korti. Nasistarnir fundu ekki upp hring sem form. En hvað um það, það þarf eiginlega enga þekkingu á sögu grafískrar hönnunar til að sjá að þetta er bara bull.

Það sem er þó fyndið við þetta: Elliði er í flokki með fálka í merkinu sínu, félagsskap sem notaði beinlínis auglýsingar frá þjóðernissinnum, flokki sem hafði tengsl við nasista og flokki sem gerir ekki annað en að sussa á gagnrýnendur sína fyrir meint ómálefnaheit ef andað er í áttina á þeim.

Saga sem aldrei má minnast á án þess að þetta lið bilist enda agalega ljótt að tala um sögu þessa flokks sem neitt annað en stórkostlegar ýkjur um gamla góða Sjálfstæðisflokkinn.

Þvílíkt andlegt þrot sem þessi flokkur er. Allstaðar annarsstaðar myndu menn flykkjast í að fjarlægja sig þessum durti en ekki sjálfstæðismenn. Nei, þeir þurfa ekkert að skammast sín að þeirra mati þótt einn af þeirra gulldrengjum hafi þetta rugl til málanna að leggja. Þessi maður er bæjarstjóri.

Persónulega nennir maður ekki að móðgast yfir þessu. Stóri glæpurinn er nú bara hvað þessi maður eru hræðilega laus við að vera frumlegur eða fyndinn. Ef ég vildi í alvörunni taka þetta alvarlega þá myndi maður auðvitað gera svolítið mál úr því að í risastórri krísu sé maðurinn að dunda sér við þetta rugl.

Þess má geta að Katrín Jakobsdóttir hélt ræðu hjá íhaldinu á þeirra afmæli. Já, og Heiða Björg úr Samfylkingunni hélt líka ræðu og óskaði Valhöll til hamingju. Lotningin fyrir íhaldinu og kurteisin sem þeim er sýnd hefur búið til flokk frekja sem kunna enga mannasiði en telja sig geta sett okkur hinum einhverja siðferðisramma. Valhöll endurgreiðir aldrei sýnda virðingu.

Myndmál og tákn

Í nóvember 2019 vakti myndmál Fé­lags sjálf­stæð­is­manna um full­veld­is­mál nokkra athygli. Tiltækið varð hvati að ágætri umfjöllun Stundarinnar um tengsl myndmáls sjálfsstæðismanna við þjóðernishyggju.

Ritstjórn bendir áhugasömum um tengsl Sjálfstæðisflokkins við nasisma einnig á þessa grein eftir Benjamín Julian. Þótt fókusinn sé þar á sögu lögreglunnar varpar hún líka ljósi á áhugaverða þætti í sögu Sjálfstæðisflokkins.