Á meðan svotil ekkert var vitað um kórónuveiruna eða útbreiðslu hennar, ekkert bóluefni í augsýn og heilbrigðiskerfið engan veginn undir heimsfaraldur búið, lögðu stjórnvöld áherslu á að raska sem minnstu og forðast íþyngjandi aðgerðir. Þær ráðstafanir sem gripið var til voru réttlættar með því að útbreiðsla veirunnar mætti ekki verða svo hröð að það yrði heilbrigðskerfinu ofviða. Rökin veru ekki þau að það þyrfti að ráða niðurlögum veirunnar. Þó nokkuð stór hópur var ósáttur við þessa áherslu og vildi einmitt losna algerlega við þessa veiru en ekkert var á okkur hlustað. Grímuskylda þótti of íþyngjandi og hugmyndir um að loka skólum voru afskrifaðar. Krafa um að loka landshlutum kom aldrei til álita af hálfu yfirvalda.
Um þetta leyti í fyrra hefði óvissan um útbreiðslu og afleiðingar veirunnar réttlætt harðar aðgerðir. Auk þess var fólk almennt tilbúið til að fara eftir reglum og þeir sem brutu þær voru harðlega gagnrýndir. Þrátt fyrir óttann og óánægju með skert frelsi ríkti ákveðin stemning í samfélaginu. Daglegir fundir almannavarna vöktu mikinn áhuga, sumum fannst góð tilbreyting að vinna að heiman og fólk nýtti tímann í sóttkví til að sinna verkefnum sem höfðu setið á hakanum. Líkamsræktartól til heimanota seldust upp, byggingarvörur sledist sem aldrei fyrr því margir höfðu allt í einu tíma til að flikka upp á heimili sín. Ástandið sem fylgdi farsóttinni varð mörgum efni til listsköpunar, góðlátleg kimni tengd veirunni varð áberandi á samfélagsmiðlum, fólk setti tákn um samhygð og hvatningu út í glugga og söng fyrir nágranna sína af svölunum. Fólk var áhyggjufullt og óttaslegið en ekki þreytt. Meirihlutinn var til í að leggja sitt af mörkum til að ráða niðurlögum veirunnar með því að ganga í gegnum tímabundna frelsisskerðingu. Vonin um tilslakanir með sumrinu voru okkur hvatning.
Sem betur fer var fljótlega horfið frá hjarðónæmisstefnunni og almennt hefur afstaða sóttvarnaryfirvalda einkennst af vilja til að ná tökum á ástandinu. Hagsmunir ferðaþjónustunnar hafa samt verið settir framar heilbrigðissjónarmiðum. En nú hefur heldur betur orðið breyting á. Nú, ári síðar, þegar fólk er almennt orðið langþreytt á þeirri röskun sem samkomutakmarkanir hafa í för með sér, virðist ríkisstjórnin loksins vera að horfast í augu við veruleikann. Markmiði með sóttvörnum er gerbreytt án þess að það sé formlega kynnt. Markmiðið er ekki lengur að varna því að heilbrigðiskerfið springi heldur að koma í veg fyrir smit. Þótt ég sé ánægð með þessa áherslubreytingu finnst mér nauðsynlegt að stjórnvöld svari því hver tók þessa ákvörðun og hvenær.
Hversu hlynntur sem maður er hörðum sóttvarnarráðstöfnum er þó eðlilegt að gera þá kröfu að vel sé að þeim staðið. Sú er þvi miður ekki raunin. Skyndilega er öllu meðalhófi hent út í hafsauga, tekið upp afar vafasamt litakóðakerfi og fólk skikkað til dvalar i sóttvarnahúsi án þess að fyrir liggi grunur um smit. Reglugerðarbreyting sem heimilar það var ákveðin viku áður en þessar hertu aðgerðir tóku gildi en gera má ráð fyrir að margir hafi þá löngu verið búnir að skipuleggja páskana. Og já það er annað að vera heima hjá sér en á hóteli. Það skiptir fólk máli að geta eldað sjálft, þann mat sem það vill, hafa aðgang að sínum eigin hlutum og geta átt einhverskonar samneyti við fjölskyldu sína þótt halda þurfi líkamlegri fjarlægð. Og það ekki nóg með að fólk sé nauðungarvistað á vafasömum forsendum heldur var farið út í þær aðgerðir í óvissu um það hvort ferðalangar ættu að vera í einangrun og án þess að réttur til útivistar væri tryggður. Reglugerðarákvæði um þvingaða dvöl í sóttkvíarhúsi hefur enga lagastoð og ég verð mjög undrandi ef þessi flumbrugangur leiðir ekki til þess að ríkið verði dæmt til greiðslu skaðabóta.
Og hvert er svo hið raunverulega markmið með litakóðakerfi og nauðungarvistun? Að uppræta veiruna? Nei – hið raunverulega markmið er að búa í haginn fyrir ferðaþjónustuna með meiri tilslökunum frá 1. maí.
Íþyngjandi inngrip í frelsi fólks er alltaf til þess fallið að vekja reiði og mótþróa en því fremur þegar illa er að málum staðið. Ákveðin hætta er á því að ef of langt er gengið minnki vilji almennings til þess að vinna með stjórnvöldum og leggja sitt af mörkum til að halda veirunni í skefjum. Það jákvæðasta sem gæti komið út úr þessu síðasta útspili er að einhverjir þeirra sem jafnan tala um fangelsi sem hótel átti sig. Ömurlegast er þó að þessi staða væri ekki uppi ef strax hefði verið gripið til víðtækra lokana fyrirtækja og stofnana og ferðatakmarkana milli landshluta.