Kristín heimsótti Margréti rétt fyrir jól og tók með sér gjöf handa henni. Hún var þá nýkomin frá útlöndum og hafði líka keypt gjöf fyrir Margréti í fríhöfninni, nánar tiltekið ilmvatn sem Margrét ætlaði að gefa dóttur sinni og hafði beðið Kristínu að kaupa. Margrét lagði svo andvirði ilmvatnsins inn á bankareikning Kristínar. Hún var fegin að vera búin að finna gjöf handa dóttur sinni.
Þegar við kaupum gjöf handa einhverjum þá er það gjöf sem viðtakandinn fær til eignar. Þegar við kaupum gjöf fyrir einhvern, þá erum við að gera þeim manni greiða með því að kaupa eitthvað sem hann ætlar að gefa öðrum.
Þegar þú kemur heim úr bakaríinu og maki þinn spyr „keyptirðu kleinuhring handa mér?“ er líklegast að hann hafi í hyggju að borða kleinuhringinn. Ef hann spyr „keyptirðu kleinuhring fyrir mig?“ hefur hann líkast til beðið þig um að kaupa kleinuhring. Hvort hann ætlar að borða hann sjálfur eða gefa einhverjum öðrum hann er óvíst. Ef þú kaupir kleinuhring að eigin frumkvæði með því markmiði að gefa maka þínum hann, þá ertu að kaupa kleinuhring handa honum – ekki fyrir hann.