Ég er orðin hundleið á málfarsfastisum sem heimta að fólk eyði ómældum tíma í að læra flókin og forneskjuleg málkerfi í stað þess að sætta sig við eðlilega þróun tungumálsins.

Það er tímafrekt að vera Íslendingur í dag. Fyrir utan fulla vinnu þarf maður að horfa á 5-6 raunveruleikaþætti á viku, til að vera viðræðuhæfur um það sem er að gerast í samfélaginu. Svo þarf að fara í ræktina til að sporna gegn þeirri offitu sem eðlilega fylgir aukinni velmegun og framþróun í tækni og vísindum. Það er fráleitt að ætlast til þess að venjulegur Íslendingur hafi tíma til að eltast við tittlingaskít eins og bera fram ð í ógeðslega geðveikt eða segja ólst upp, þegar er miklu einfaldara að segja aldist upp.

Málfasistar leggja á sig gríðarlega vinnu til að finna upp nýyrði og orðalag sem fáir skilja og enginn notar. Mörg dæmi tengjast tölvum og netnotkun. Hvort er t.d. þægilegra í beygingu, gegnsærra og hljómar eðlilegar; url eða slóð? Hví ætti nokkur maður að leggja á sig vinnuna við að segja gefðu mér slóðina, þegar hann getur allt eins sagt ka´r´addna urlið?

Tengisnobbið er kapítuli út af fyrir sig. Fasistaliðið gengur svo langt að vera með tengla á vefbókunum sínum í stað linka eins og venjulegt fólk. Um daginn hitti ég málfarsfasista sem sagði; Ég er með netfangið þitt. Má ég ekki tengja þig við spjallrásina mína?

Því miður er þessi maður ekkert sá eini sem sóar tíma sínum á þennan hátt. Í stað þess að nota hið þjála og einfalda orð e-mail, ver hann ómældri orku í uppskrúfaða snobbyrðið netfang. Í stað þess lipra og fljótlega orðalags að adda þér á msnið, notar tengifasistinn illskiljanlegan bókmenntafrasa.

Einföldun málsins er brýnt mál og nauðsynlegt. Við málþróunarsinnar höfum þó engu að kvíða. Framþróunin verður ekki stöðvuð.