Fjölmiðlakafli Kynungabókar

fjolmidlar teikining
Þessi færsla tilheyrir pistlaröð sem  fjallar um kennivald kvenhyggjunnar. Til þess að draga fram þau sjónarhorn á jafnréttismál sem feministar eru að reyna að innleiða í skólakerfið, er tilvalið að skoða Kynungabók, kennslubók skrifaða á forsendum feminisma og mótunarhyggju.

Í þeim köflum Kynungabókar sem ég þegar hef fjallað um vantar sjónarhorn karla. Þeir kaflar eru því ótækir til jafnréttisfræðslu. Fjölmiðlakaflinn einkennist svo af þeirri feminísku heimssýn að konur séu alltaf og allsstaðar fórnarlömb.

Skýringar Kynungabókar á kynjahlutföllum í fjölmiðlum

Í fjölmiðlakafla Kynungabókar er áherslan sem fyrr á staðalmyndir og skarðan hlut kvenna. Því hefur verið haldið fram að karlar séu fleiri í áhrifastöðum og því meira fréttaefni. Bent er á að sú skýring á kynjahallanum haldi ekki vatni, þar sem fjöldi viðmælenda af hvoru kyni endurspegli ekki kynjahlutföll í pólitík. Ekki halli aðeins á konur hvað varðar fjölda viðmælenda og umfjöllun um umsvif og afrek, heldur sé áherslan þar sem konur eru í fyrirrúmi á einkalíf og dægurmenningu.

Það er gott og rétt að fjalla um þennan kynjahalla. Fjölmiðlar ættu að fjalla meira um konur. Af hverju fá t.d. íþróttir kvenna minna vægi en íþróttir karla þrátt fyrir glæsilegan árangur kvennaliða? Ég er hinsvegar ósátt við þær skýringar á kynjahallanum sem Kynungabók býður upp á.

Samkvæmt þeim heimildum sem vísað er til, er hlutfall kvenna í fréttum og fréttatengdu efni hærra í yngri aldurshópum. Fyrsta skýringin sem mér kemur í hug er sú að yngra fólk álíti síður að  konum fari best að halda sig til hlés, auk þess sem hlutfall kvenna í stjórnmálaþátttöku og áhrifastöðum eykst dálítið með hverri kynslóð. Höfundar Kynungabókar draga hinsvegar þá ályktun að yngri konur þyki eftirsóknarverðara fjölmiðlaefni en hinar eldri. Klámvæðingin er ekki nefnd hreint út í þessu sambandi en hér sem annarsstaðar virðist klámvæðingardjöfullinn undirliggjandi; ef konur sjást lítið í fjölmiðlum er það kynbundin mismunun; ef þær sjást þá er það merki um hlutgervingu og æskudýrkun.

Og lausnin er að koma konum til valda í fjölmiðlaheiminum

Berlega er gefið til kynna að kynjahallinn stafi beinlínis af fordómum, staðalmyndum og áhugaleysi fjölmiðlafólks á konum. Engin önnur hugsanleg skýring er nefnd. Þau ráð sem eru nefnd til að jafna kynjahlutföllin eru að auka aðgengi kvenna að fjölmiðlum og hlut þeirra í ákvarðanatöku innan fjölmiðlaheimsins, auk þess að vinna gegn staðalmyndum. Á bls 24 er spurt:

Hvaða áhrif telur þú að það geti haft á dagskrá og umfjöllun fréttamiðla ef konur jafnt sem karlar eru í æðstu stjórnunarstöðum?

Þessu hefur þegar verið svarað. Dagskárstjóri Ríkisútvarpsins var til skamms tíma kona. Sigrún Stefánsdóttir var ráðin sem dagskrárstjóri Rásar 2 árið 2005 og frá 2010 var hún dagskrárstjóri yfir Ríkisútvarpinu öllu. Ritstjórar hinna vinsælustu netmiðla sem ala á heimskulegu bulli og staðalmyndum eru konur og það sama á við um glanstímarit. Völd kvenna innan fjölmiðla virðast ekki breyta neinu um hlut kvenna og kynjaímyndir en höfundum Kynungabókar finnst víst óþarft að taka það fram.

Gagnleysi þess fyrir jafnréttishugsjónina að koma konum til valda, endurspeglast víðar en í fjölmiðlaheiminum.  Skemmst er að minnast stóra símaskrármálsins þar sem kvennaveldið hjá ja.is skreytti símaskrána með annáluðum fulltrúa þeirra kynjaímynda sem kvenhyggjuhreyfingin hefur lýst hvað mestri andúð á. Félag kvenna í atvinnurekstri veitti þeim svo sérstaka viðurkenningu fyrir.

Hversvegna í ósköpunum leggur kvenhyggjuhreyfingin svona mikla áherslu á að koma konum til valda þegar reynslan er sú að konur eru körlum ekkert ólíklegri til að hafa fyrst og fremst áhuga á eigin völdum og hagsmunum? Og hvað græðum við á því að mata unglinga á þeirri ranghugmynd að valdapot kvenna þjóni kynjajafnrétti?

Bloggheimar

Ég get tekið undir flest af því sem rætt er í kaflanum um dægurmenningu og auglýsingar. Þó vil ég gera eina athugasemd við það hvernig sannleikanum er hagrætt í þágu fórnarlambsvæðingar kvenna.

Í dægurkaflanum er komið inn á bloggmenninguna. Bent á að aðeins tvær konur hafi, einn tiltekinn dag, komist inn á 25 sæta vinsældalista Blogggáttarinnar. Ekki fær ungviðið þó neinar upplýsingar um hversu margar konur birtu bloggfærslu þennan dag og raunar er útilokað að komast að því. Rökrétt ályktun hjá unglingi sem veit ekkert meira um bloggmenninguna er sú að konur birti álíka marga pistla og karlar en lesendur lesi 12-13 pistla eftir karla á móti einum eftir konu.

Ég hef margsinnis skoðað kynjahlutföll á Blogggáttinni. Í hvert einasta sinn hafa karlar birt margfalt fleiri pistla en konur; hlutfall pistla eftir konur fer sjaldan yfir 25% og það er algjör undantekning ef sama konan Bloggar oftar en vikulega að jafnaði (sú undantekning heitir Eva Hauksdóttir og reiknar aldrei með að fá flettingar á óbirt skrif.) Þegar þetta er ritað (upp úr hádegi 27. okt) eru hlutföll þeirra pistla sem sjást á Blogggáttinni (pistla tveggja daga) þannig: 69 pistlar hafa verið birtir, þar af 60 eftir karlmenn, 9 eftir konur.  Því eru 13% birtra pistla eru því eftir konur. Bak við þessa 69 pistla eru 50 pennar, 42 karlar og 8 konur. Konur eru þannig 16% þeirra bloggara sem birtu pistil þennan dag.

Á vinsældalistanum er 21 pistill eftir karla en 4 eftir konur. Konur eiga því 16% þeirra pistla sem fá margar flettingar í gegnum gáttina. Það er 18 pennar  á bak við þá sem ná inn á vinsældalistann, þar af 16 karlar og 2 konur. Af vinsælum bloggurum eru konur því 11%.  Karlar eiga 60 pistla, þar af hafa 21 komist inn á vinsældalistann eða 35%.  Konur eiga 9 pistla, þar af komast 4 inn á vinsældalistann eða 44% birtra pistla eftir konur.

Þetta er enganveginn áreiðanleg niðurstaða þar sem aðeins er um að ræða gögn frá einni gátt á einu tilteknu augnabliki. Þetta er þó sama aðferð og notuð er í Kynungabók og því jafn ábyggileg. Höfundar guðspjallsins nefna þó afkastamun kynjanna ekki einu orði, heldur búa svo um hnútana að rökrétt ályktun nemenda er sú að það sé kvenfyrirlitning en ekki lítil virkni, sem veldur þessum kynjahalla á vinsældum bloggara.

Hvað situr eftir?

Sá skilningur sem fjölmiðlakafli Kynungabókar skilur eftir er að mínu mati þessi:

1) Fjölmiðlar leggja óeðlilega litla áherslu á umfjöllun um konur.
2) Umfjöllun um konur er alltof oft lituð af staðalmynd konunnar sem passífrar og yfirborðslegrar veru.
3) Ástæðan fyrir því að konur sjást minna í fjölmiðlum en karlar er sú að þær hafa verri aðgang að fjölmiðlum og konur ráða litlu á fjölmiðum.
4) Til þess að breyta þessu þarf að koma konum í valdastöður.
5) Kynjafordómar ráða því að konur fá minni athygli en karlar í samfélagsumræðu á netinu.

Ég tek undir fyrsta og annað atriðið.

Hið þriðja er helbert bull. Ekkert bendir til þess að konur hafi verri aðgang að fjölmiðlum en karlar. Ef eitthvað er, bendir þátttaka kvenna í samfélagsumræðu til þess að konur hafi að jafnaði minni áhuga á því að hafa áhrif. Konur tjá sig miklu frekar um einkalíf og mál sem tengjast heimili og fjölskyldu, hönnun, útliti og dægurmálum. Vettvangur þeirra er facebook, bleikt.is og álíka miðlar; ekki af því að þær séu útilokaðar frá stjórnmálaumræðu, heldur af því að þær hafa minni áhuga á henni en karlarnir.

Fjórði þátturinn er í besta falli vafasamur og að mínu mati ömurlegt að sjá jafnréttisbaráttu notaða sem rök fyrir því að koma konum í valdastöður. Það er ekkert heiðarlegra en að halda því fram að þingseta Helga Hjörvar skipti sköpum fyrir réttindamál fatlaðra.

Fimmta atriðið er óstjórnleg þvæla. Líklegast er að blaðagreinar og bloggskrif kvenna fá athygli í svipuðu hlutfalli og karla.

Kynjahallinn í fjölmiðlum á sér sennilega að nokkru leyti skýringu í eðlislægum kynjamun. Það er ekki þar með sagt að við ættum ekki að bregðast við honum. E.t.v. væri hægt að auka vægi kvenna með því að framleiða fjölbreyttara fjölmiðaefni með þarfir kvenna í huga og kanna hvort önnur framsetning myndi t.d. auka áhuga kvenna á hefðbundnum „karlasviðum“. Sannleikurinn er sá að konur eru ekki óvinsælli en karlar, heldur hafa þær sig síður í frammi. Ekkert bendir til þess að hægt sé að breyta því með því að fjölga konum í valdastöðum, leita allstaðar að merkjum um kvenfyrirlitningu og fylla höfuð skólabarna af ranghugmyndum um óvinsældir kvenna.

 

Hér eru tveir eldri pistlar þar ég fjalla um mýtuna um slæmt aðgengi kvenna að fjölmiðlum.

Ekki kvenmannsverk
Hver meinar konum að tjá sig?

Deildu færslunni

Share to Facebook