Maðurinn er það sem hann gerir, hvað sem nútíma sálarfræði segir. Það er þessvegna sem flestum finnst gagnrýni óþægileg. Gagnrýni á verk manna, hegðun og hugsunarhátt verður alltaf að einhverju leyti persónuleg. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: Óflokkað (allt efni)
Leyndarmál
-Áttu leyndarmál? segi ég við Elías.
-Allir eiga leyndarmál, svarar hann.
-Ég á ekki við þessi venjulegu leyndarmál sem konur segja bara einum í einu og karlar bara kærustunni sinni eða besta vininum heldur alvöru leyndarmál sem þú segir engum.
-Allir eiga eitt eða tvö svoleiðis.
-Ekki ég.
-Nú lýgurðu.
-Nei, ég lýg ekki. Ég er sögupersóna og sögupersónur eiga ekki leyndarmál.
-Viltu að ég segi þér leyndarmál?
-Já takk.
-Finnst þér þá að þú eigir meira í mér?
-Nei. Þá finnst mér eins og þú sért af mínum heimi, sögupersóna eins og ég. Sem þarf engin leyndarmál. Halda áfram að lesa
Kæri Sáli
Kæri Sáli horfði á mig samúðarfullu augnaráði og spurði hvort gæti verið að harmleikur sálar minnar ætti rætur í höfnun eða áföllum í bernsku. Ég svaraði því til að ég þekkti nú reyndar enga manneskju sem hefði ekki orðið fyrir áföllum í æsku en flestu fólki tækist nú samt, eftir rækilegan lestur á meira en 200 sjálfsræktarbókum, að plata sjálft sig til að verða ástfangið af einhverjum sem vildi eitthvað með það hafa. Halda áfram að lesa
Tölvan úr viðgerð
Tölvan mín er endurheimt! Nú veit ég hvernig karlmanni líður þegar hann fær bílprófið aftur eftir að hafa misst það í 3 mánuði. Í augnablikinu get ég ekki gert upp við mig hvort ég elska heitar; tölvuna eða þann sem læknaði hana. Ég er allavega búin að kyssa þau bæði.
Líkami minn er gáfaðri en ég
Líkami minn er gáfaðri en ég sjálf. Hann virðist allavega ætla að standa sig prýðilega í því að hafa vit fyrir mér hvað varðar val á félagsskap. Fyrst hafnar hann Manninum sem drakk ekki konuna sína frá sér heldur reið hana frá sér á fylliríi (væntanlega á þeirri forsendu að hann sé líklegri til að sýkja mig af þunglyndi en að gera mig að þjóðskáldi, þetta tvennt þarf víst ekki endilega að fara saman) og nú er hann búinn að ákveða að einn liður í viðleitni minni til að verða fallegt lík sé sá að hætta algerlega að umgangast reykingafólk. Ég get a.m.k. ekki túlkað skilaboð hans á annan veg.
Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta gerræði. Vildi gjarnan geta hitt annað fólk af og til án þess að hósta gengdarlaust og engjast í andnauð næstu nótt. Greind er stórlega vanmetið fyrirbæri og spurning hvort ég eigi ekki að reyna að verða mér úti um heimskari líkama.
Ryk
Sameignarryksugan er biluð og stigagangurinn orðinn -úff. Sjálf á ég enga ryksugu, bara drullusokk og hann gerir jöskuðum gólfmottum ekkert gagn. Þótt ryksuguskortsdrama mitt sé einmitt öfugt við ryksugudrama Langa Sleða finn ég til djúprar samkenndar með honum þessa dagana. Ég held nefnilega að ryksogsleysi lífs míns sé í raun táknrænt jin sem fellur nákvæmlega að hinu ryksogna jangi í lífi Sleðans. Ég er búin að biðja hann að giftast mér en hann vill það ekki. Ég skildi rökin ekki alveg en þau tengjast held ég Íslendingabók. Halda áfram að lesa
Í fréttum er þetta helst
Í fréttum er þetta helst:
Tölvan mín er veik. Með einhvern ógeðsvírus og þar sem tölvulæknirinn minn hefur, sökum félagslegara aðstæðna, takmarkað leyfi til fjarveru frá heimili sínu hef ég setið uppi með sjúklinginn alls ónothæfan síðan á mánudagskvöld.
Síðustu helgi smíðaði ég 40 vatnsnema og setti í eina þvottavél. Afleiðingarnar eru ástand. Næstu helgi verð ég á Nesjavöllum. Spurning hvort ég eigi ekki bara að panta Heiðar og co strax? Halda áfram að lesa
Búrið
Elskan mín og Ljúflingur
Allt sem þú vilt geturðu fengið, spurningin er bara þessi eilífa; hvað má það kosta? Líklega verður þetta lögmál rauði þráðurinn í ævisögu minni þegar upp er staðið.
Það er fyrst núna sem hugmyndin um að eitthvað kunni að breytast, (aðstæðurnar eða viðhorf hans eða að ég sjálf sjái skyndilega hlutina í allt öðru ljósi) vekur mér engar væntingar. Ég er komin yfir sorgina og tilbúin til að halda áfram. Kannski veit maður aldrei almennilega hversu háu verði maður er reiðubúinn að greiða hamingju sína en ég veit allavega hvað ég vil ekki. Halda áfram að lesa
Teljarinn sýnir
Teljarinn á síðunni minni gefur ýmsar bráðskemmtilegar upplýsingar. T.d. hefur einhver fundið hana með því að biðja um eitthvað „offensive“. Hann (eða hún) hefur skoðað fullt af eldgömlum færslum en einhvernveginn segir mér svo hugur um að vonir hafi staðið til að finna eitthvað svolítið meira krassandi. Halda áfram að lesa
Grænblár
Ég hef ekki fengist við ljóðaþýðingar fyrr og var eiginlega að hugsa um að gefa verkið frá mér. Það er svo gott á ensku. Merkingin svo margræð og ég var alveg viss um að mér yfirsæist eitthvað. Búin að skoða margar túlkanir á netinu en vissi að eitthvað vantaði. Stundum er engu líkara en lausnin komi að ofan þótt ég efist um að guðdómurinn standi fyrir því sem kom fyrir mig í þetta sinn. Halda áfram að lesa
Hollráð um sölumannstækni
Ég held að það vanti eitthvað inn í tilfinningaskalann hjá mér. Er það ekki merki um að maður sé að verða of raunvísindasinnaður þegar stefnumót verður hvorki fugl né fiskur og maður lítur svo á að enn einn vinudagurinn sé búinn og nú sé pása til morguns.
Ef maður fer heim án væntinga, án gleði ekki með neitt dramakast í farteskinu heldur og segir sjálfum sér að í allri sölumennsku megi gera ráð fyrir að fá 9 nei á móti einu jái og því sé algerlega óréttlætanlegt að fara í fýlu yfir kærastaleysi fyrr en maður er búinn að fá 9 nei, jafnvel fleiri ef duttlungafullar fyrrverandi hjásvæfur eru í úrtakinu; Halda áfram að lesa
Skírlífur, Eilífur og Saurlífur
Vinur minn Skírlífur hefur bara ekkert haft samband. Kannski heldur hann að ég sé ekki þessi eina sanna. Ojæja, hann hefur frest alveg fram á miðvikudag greyskinnið, af því að hann er yngstur og fallegastur af þessum fjórum sem fylla markhópinn.
Eilífur hringdi hinsvegar á slaginu 9:30 í gærmorgun og vildi fá að vita hversvegna hann væri í úrtakinu.
-Af því að þú tilheyrir þeim fámenna hópi einhleypra karla sem er hvorki á framfæri Félagsþjónustunnar né í sárum eftir síðasta samband, svaraði ég og það virtist falla í kramið því hann bauð mér út að borða í kvöld. Halda áfram að lesa
Sölumaður dauðans
-Einhver kona í spilinu?
-Nei, ekki ennþá.
-Ertu til í að hitta mig? Hvernig er þriðjudagskvöldið?
Löng þögn. Halda áfram að lesa
Frí
Sunnudagur og ég er í fríi. Næstum búin að gleyma hvernig það er. Svaf út í morgun, alveg til 7:30 og sökum ofvirkni minnar tók ekki nema 5 klst að þrífa íbúðina. Herbergi yngissveinsins er að sjálfsögðu undanskilið enda húsagaþátturinn Allt í drasli á dagskrá sjónvarpsins í kvöld og standa vonir til að snertirinn hræði drenginn til að moka aðeins undan rúninu og ofan af hillunum. Halda áfram að lesa
Hjálpsamur yfirmaður
Eigandinn setti upp geiflu sem var einhversstaðar miðja vegu milli glotts og kátínubross þegar við hittumst á Nesjavöllum í gær. Kvaðst hafa lesið bloggið mitt og bauðst til að útvega mér nokkur símanúmer.
Ég veit nú ekki alveg hvort maður á að stóla á árangur af því. Eða hvernig hljómar þetta:
-Sæll Gísli/Eiríkur/Helgi, Eva heiti ég. Yfirmaður þinn las á blogginu mínu að ég væri að leita að fallegum hálfvita og gaf mér símanúmerið þitt. Ég var svona að velta fyrir mér hvort þú hefðir áhuga á að mæta í viðtal.
Allt í drasli
Ég ætlaði eiginlega að fagna þessum fyrsta frídegi frá páskum með því að gera ekkert af viti en sé ekki alveg fram á að það gangi upp. Ég hef tekið eftir því að á meðan ég er að heiman vex þvottur í óhreinatauskörfunni og tölvan mín dregur ekki að sér ryk eins og aðrar tölvur, heldur framleiðir hún það. Spurning hvort sé ekki hægt að græða eitthvað á því, stofna rykgerðina ehf.
Þegar Darri var lítill þurfti ég aldrei að ryksuga. Hann var nefnilega alltaf skríðandi í gólfunum og hann átti flíspeysu sem hann var mjög hrifinn af og hún dró að sér öll hundahárin og rykið. Á tímabili stofnaði ég fyrirtæki í kringum hann. Það var fyrirtækið Hárfinnur ehf. Darri var eini starfsmaðurinn og hafði ég töluverðar aukatekjur af því að leigja hann út. Svo kom fulltrúi barnaverndarnefndar í heimsókn og benti mér á að það samræmdist ekki samþykktum EES að láta börn skríða í gólfunum og draga að sér ryk og gæludýrahár í hagnaðarskyni. Fulltrúinn skipaði mér líka að þvo peysuna. Þá grét Hárfinnur og úrsurðaði peysuna ónýta. Síðan hef ég þurft að ryksuga sjálf og það í frítíma mínum. Svona er lífið erfitt.
Fuglasöngur
Mikið er nú dásamlegt að vakna við fuglasöng í stofunni. Sérstaklega eru það þessi háu, hvellu hamingjuóp sem gleðja mig. Ég er að hugsa um að leyfa reykingar inni hjá mér í von um að helvítið fái lungnakrabba.
Eldsnemma að morgni
Klukkuna vantar 20 mínútur í 7 á laugardagsmorgni og ég er á leiðinni á Nesjavelli. Ekki skrýtið að fólk haldi að ég sé galin. Ekki nóg með að ég ætli að eyða laugardeginum, þessum eina í vikunni, við að skrúfa saman hommarör (hvað sem það nú er) heldur ætla ég líka að hætta lífi mínu með því að sitja í bíl með Sigrúnu. Ojæja einn laugardagur Mammoni til heiðurs og hinum fríða flokki karlmanna sem er vistaður þarna uppfrá til yndisauka er víst ekkert óyfirstíganlegt.
Ég er búin að komast að því hvað varð um ostinn minn. Þarf bara að yfirstíga eina hindrun svo ég komist til að sækja hann en það er ekki bara verkefni heldur raunveruleg hindrun. Samkvæmt Brian Tracy er hindrun víst öruggt merki þess að maður sé á vegi velgengninnar. Það er kannski bull í kallinum en ég ætla allavega að hafa það.
Er að bíða eftir henni
Í gær uppgötvaði ég ákveðna fordóma hjá sjálfri mér. Ég á kunningja, sætan strák sem ég vissi ekki betur en að væri algjör drusla. Auk þess er hann alki svo það er engin hætta á að ég verði ástfangin af honum. Hann var þessvegna um hríð ofarlega á lista yfir þá fjölmörgu karlmenn sem ég hafði í hyggju að forfæra en fyrst dróst það sökum anna og svo komst ég að því að hann var ekki nærri jafn vitlaus og hann leit út fyrir að vera. Það varð til þess að ég lagði plön mín um að táldraga hann til hliðar, ég hef það nefnilega fyrir reglu að sofa aldrei hjá neinum sem hefur ekki fallið á greindarprófi. Nema náttúrulega að ég ætli að giftast honum, þá má hann slaga upp í meðalgreind en samt ekki vera klárari en ég. (Enda sjaldan nokkur hætta á því og er ég þó mun vitlausari en ég lít út fyrir að vera) Undantekningin er doktorsnefnan sem hefur aldrei viljað mig, hann er miklu klárari en ég en ég myndi samt alveg giftast honum. Af því ég veit að hann verður góður við konuna sína. Halda áfram að lesa
Passa þig
-Mig vantar leikfélaga, strák til að spila skrabbl og fara með mér í leikhús og á myndlistarsýningar og svoleiðis.
-Varstu ekki búin að finna einhvern?
-Hélt það kannski jú en hann hefur aldrei samband að fyrra bragði. Sennilega hræddur við mig.
-Ég er ekki hræddur við þig.
-Ég veit, afhverju heldurðu að ég sé að hringja?
-Þú ert hinsvegar hrædd við mig.
-Glætan. Nenni bara engu rugli og þú ert ekki jafnoki minn í skrabbli.
-En hvað? Allt er hey í harðindum?
-Þeir fiska sem róa.
-Við erum góð. Ættum að gefa út málsháttabók. Halda áfram að lesa