Frí

Sunnudagur og ég er í fríi. Næstum búin að gleyma hvernig það er. Svaf út í morgun, alveg til 7:30 og sökum ofvirkni minnar tók ekki nema 5 klst að þrífa íbúðina. Herbergi yngissveinsins er að sjálfsögðu undanskilið enda húsagaþátturinn Allt í drasli á dagskrá sjónvarpsins í kvöld og standa vonir til að snertirinn hræði drenginn til að moka aðeins undan rúninu og ofan af hillunum.

Ég er sumsé búin að vera í alvöru fríi í rúma 2 tíma og er að drepast úr sektarkennd yfir að vera ekki að gera eitthvað þarft eins og t.d. að vinna ötullega að þeim markmiðum mínum að verða ríkt gamalmenni og fallegt lík. Búin með sunnudagskrossgátuna nema eitt orð (alltaf eitt sem ég get ekki strax). Bakaði hjónabandssælu og bauð ákveðnum manni í kaffi (minnist þess að allt sem ég geri er á einhvern hátt táknrænt) en hann reyndist vera að vinna svo ég hef skyndilega tíma sem ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við.

Ég gæti farið í heimsóknaleiðangur en krakkarnir eru á bílnum. Gæti skrifað metsölubók en sé ekki fram á að ná að klára hana fyrir kvöldið og þar sem ég bind vonir við að tiltekinn maður (sem er engin drusla og trúaður í þokkabót) fáist til að gleðja mig með dásamlegri nærveru sinni mun ég sennilega ekki verja kvöldinu til ritrænna afreka. Sé ekki annað en að deginum verði best varið til lesturs og veit að það ætti að vera viðskiptafræði en ómægod hvað er langt frá því að ég nenni.

Af ofangreindu hljóta lesendur að sjá að ég er í mikilli sálarangist og togstreitu. Það er ekki nýtt ástand enda stendur maður sífellt frammi fyrir allskyns völum með tilheyrandi kvölum. Ég segi nú bara eins og hún Agnes í Draumleik Strindbergs; mikið ósköp eiga mennirnir bágt.

Þeir sem vilja vorkenna mér pilli sig hingað hið snarasta áður en hjónabandssælan er uppétin og ég búin að finna mér eitthvað skemmtilegt að lesa.

Best er að deila með því að afrita slóðina