Sölumaður dauðans

-Einhver kona í spilinu?
-Nei, ekki ennþá.
-Ertu til í að hitta mig? Hvernig er þriðjudagskvöldið?
Löng þögn.

-Eva, hvað stendur til? Er eitthvað að?
-Nei þvert á móti. Mér líður prýðilega.
-Af hverju viltu hitta mig eftir allan þennan tíma?
-Ég er bara loksins tilbúin til að mynda vináttutengsl við loðnara kynið og þú lentir í úrtaki.
-Úrtaki?
-Já.
-Og hversu stórt er úrtakið?
-Sem stendur fjórir spenglar með möguleika á fjölgun.
Önnur löng þögn.

-Eva mín, heldurðu virkilega að þetta sé rétta aðferðin?
-Er til réttari aðferð en sú að hafa markmiðið á hreinu og keyra á það af fullum krafti?
-Maður fær bara ekki á tilfinninguna að það sé mikill ástríðuhiti á bak við þetta. Þú ert ekki sérlega góður sölumaður er það?
-Það veit ég ekkert um. Það ER ekki ástíðuhiti sem ræður ferðinni og ég hefði haldið að væri þægilegast að hafa hlutina á hreinu. Viltu kannski frekar að ég ljúgi að þér? Á ég kannski að segja að ég sé ástfangin?
-Ætli þú sæir þá ekki í iljarnar á öllum fjórum.
-Fólk er fífl.
-Sættu þig þá við það og spilaðu eftir því. Ég veit að þú ert jarðýta en þú getur ekki litið á fólk eins og verkefni sem þarf að afgreiða. Það er ekkert óheiðarlegt við smá leikaraskap.

-Gott og vel. Ég skal koma fram við þig eins og þú sért fífl. Hvernig er þriðjudagskvöldið?
-Ég skal hringja í þig.
-Nei, það eru fleiri á lista hjá mér, ég ætla ekki að taka frá kvöld upp á von eða óvon.
-Eva, í alvöru …
-Þú hefur frest til að ákveða þig til kl. 9:30 í fyrramálið. Miðvikudagskvöld kemur til greina líka.
-Þú ert rosalegur sölumaður. Ég skal hringja í þig á morgun.
-Fyrir 9:30.
-Samþykkt.

Fólk er fífl en sum fífl eru áhugaverðari en önnur.
Hjónabandssælan er búin.

Best er að deila með því að afrita slóðina