Passa þig

-Mig vantar leikfélaga, strák til að spila skrabbl og fara með mér í leikhús og á myndlistarsýningar og svoleiðis.
-Varstu ekki búin að finna einhvern?
-Hélt það kannski jú en hann hefur aldrei samband að fyrra bragði. Sennilega hræddur við mig.
-Ég er ekki hræddur við þig.
-Ég veit, afhverju heldurðu að ég sé að hringja?
-Þú ert hinsvegar hrædd við mig.
-Glætan. Nenni bara engu rugli og þú ert ekki jafnoki minn í skrabbli.
-En hvað? Allt er hey í harðindum?
-Þeir fiska sem róa.
-Við erum góð. Ættum að gefa út málsháttabók.

Skrabbl yfir rauðvínsflösku. Sameiginlegt skor viðunandi en hann botnar auðvitað ekkert í tilgangnum með því að spila eins og kona. Það er allt í lagi.

Hann bauð mér á flugeldasýningu.
-Mér er illa við hávaða og eld, sagði ég.
-Af hverju?
-Betri er ósprunginn fjölskyldupakki niðri í kjallara en einn sprunginn kínverji í hendi.
-Ég passa þig.
-Litlir álfastrákar geta ekki passað mig. Ég er nú vönust því að passa mig sjálf.
-Gott og vel, ég fer með þig á flugeldasýningu og þú passar þig sjálf.

Blinnnng! Ég hef heyrt vitlausari hugmyndir. Einhverntíma hef ég líka verið betur sofin á sunnudagsmorgni.

Best er að deila með því að afrita slóðina