Líkami minn er gáfaðri en ég

Líkami minn er gáfaðri en ég sjálf. Hann virðist allavega ætla að standa sig prýðilega í því að hafa vit fyrir mér hvað varðar val á félagsskap. Fyrst hafnar hann Manninum sem drakk ekki konuna sína frá sér heldur reið hana frá sér á fylliríi (væntanlega á þeirri forsendu að hann sé líklegri til að sýkja mig af þunglyndi en að gera mig að þjóðskáldi, þetta tvennt þarf víst ekki endilega að fara saman) og nú er hann búinn að ákveða að einn liður í viðleitni minni til að verða fallegt lík sé sá að hætta algerlega að umgangast reykingafólk. Ég get a.m.k. ekki túlkað skilaboð hans á annan veg.

Ég veit ekki alveg hvað mér finnst um þetta gerræði. Vildi gjarnan geta hitt annað fólk af og til án þess að hósta gengdarlaust og engjast í andnauð næstu nótt. Greind er stórlega vanmetið fyrirbæri og spurning hvort ég eigi ekki að reyna að verða mér úti um heimskari líkama.

Best er að deila með því að afrita slóðina