Ryk

Sameignarryksugan er biluð og stigagangurinn orðinn -úff. Sjálf á ég enga ryksugu, bara drullusokk og hann gerir jöskuðum gólfmottum ekkert gagn. Þótt ryksuguskortsdrama mitt sé einmitt öfugt við ryksugudrama Langa Sleða finn ég til djúprar samkenndar með honum þessa dagana. Ég held nefnilega að ryksogsleysi lífs míns sé í raun táknrænt jin sem fellur nákvæmlega að hinu ryksogna jangi í lífi Sleðans. Ég er búin að biðja hann að giftast mér en hann vill það ekki. Ég skildi rökin ekki alveg en þau tengjast held ég Íslendingabók.

Það er hægt að lifa án ryksugu en ekki án tölvu. Heimur minn er að riða til falls. Það er mikill misskilningur að maðurinn sé voldugusta vera jarðarinnar. Voldugasta vera í hinum lífræna heimi er vírusinn. Í efnisheiminum er það tölvuvírusinn.

Sagt er að ytri veröld manns endurspegli innra líf. Samkvæmt því er mitt innra líf á kafi í vírusum og ryki. Hitt er ekki síður athyglisvert að bera saman innra líf mitt og ytra útlit. Everything about me is real; allavega þegar ég lít í spegilinn. Hárið með upprunalegum lit, brjóstin ekta, neglurnar ekta. Hef ekki einu sinni farið í tannréttingar, hvað þá fitusog og bótox. Ég mála mig og fjarlægi stærstu gærulufsurnar úr handakrikunum og búið.

Samkvæmt kenningunni ætti innra líf mitt þannig að vera í nokkuð góðu samræmi við það sem það sýnist vera. Annað leiðir sjálfhverfukönnun mín í ljós. Bestu vinir mínir (hverjum ég hef skammarlega lítið sinnt) vita greinilega ekki rassgat um það sem hefur drifið á daga mína síðustu 10 árin og ég get ekki annað en brosað þegar ég sé þá mynd sem bloggestir hafa af mér. Allt sem ég reyndi að fela milli línanna án þess að segja það berum orðum hefur skilað sér, ég er betri en ég hélt. Hvað sem öllum samræmiskenningum líður er staðreyndin sú að lífið er í eðli sínu fagurt en lýtalæknar hafa nóg að gera samt. Everything about me is fake og ég er í rauninni þokkalega djollý yfir því.

Lífið er fagurt, með ryki og öllu. Skítt með tölvuna, ég skrifa þá bara í rykið.

Best er að deila með því að afrita slóðina