Kæri Sáli

Kæri Sáli horfði á mig samúðarfullu augnaráði og spurði hvort gæti verið að harmleikur sálar minnar ætti rætur í höfnun eða áföllum í bernsku. Ég svaraði því til að ég þekkti nú reyndar enga manneskju sem hefði ekki orðið fyrir áföllum í æsku en flestu fólki tækist nú samt, eftir rækilegan lestur á meira en 200 sjálfsræktarbókum, að plata sjálft sig til að verða ástfangið af einhverjum sem vildi eitthvað með það hafa.

Sálinn kinkaði kolli skilningsríkur samþykkti umsvifalaust mótrök mín gegn þeirri kenningu hans að ég ætti í vandræðum með að tjá tilfinningar mínar en smíðaði jafnframt nýja kenningu þess efnis að ég hefði átt ennþá meira bágt en meðaljóninn og byggði þá hugmynd á „greinilegum merkjum um djúpstæða reiði og sársauka“. Auk þess heyrði hann á mér að ég væri mjög einmana og ekkert tiltakanlega heimsk. Satt að segja seig dálítið í mig því ég var þegar búin að segja honum að ég væri að visna upp af einsemd og vitanlega hefði ég frekar farið til spákonu ef mig hefði langað að heyra eitthvað um sjálfa mig sem eg vissi fyrir.

Ég urraði dálítið á Sála og gerði honum grein fyrir því að hin djúpstæða reiði mín beindist gegn honum persónulega fyrir að sóa tíma mínum til ónýtis. Ég hefði tekið það fram strax á fyrstu mínútunni að ég væri fullkomlega einfær um að vorkenna mér, yndi við það löngum stundum og hefði hreint ekki í hyggju að borga honum 6000 kall fyrir eitthvað sem ég gerði miklu betur sjálf. Hvort hann vildi nú ekki fara að koma sér að efninu og kenna mér tafarlaust eitthvert nothæft trix til að mynda náin tengsl við einhvern með greindarvísitölu yfir sjávarmáli og viðhalda þeim í meira en 3 vikur.

Sál dæsti. Sagði að þar sem ég bæri greinileg merki þess að hafa orðið fyrir alvarlegu ofbeldi væri ekkert vit í því fyrir mig að fara í meðferð hjá karlmanni, konur væru mun hæfari til þess að takast á við svoleiðis nokkuð og hvort hann ætti ekki að setja kollegu sína inn í málið til að spara mér ómakið við að segja sömu söguna einu sinni enn.

Jæja. Ég hef að vísu ekki orðið fyrir alvarlegra ofbeldi en gengur og gerist en líklega er það rétt kenning hjá Sála að karlmenn séu á þessu sviði sem öðrum of takmarkaðir til að gagnast mér. Hitti Sálu á föstudaginn og er þegar búin að senda henni tölvupóst með upplýsingum um hvaða þjónustu ég vil ekki:

Ekki aðstoð við að tjá mig -ég þekki fáa sem eiga jafn létt með það.

Ekki ræður um það hvað ég sé æðisleg og eigi mikla möguleika í lífinu. Ég veit allt um það.

Ekki útlistanir á skiljanleika tragedíu tilveru minnar. Mér er svoleiðis fokkings sama um skýringar á því sem hefur mislukkast í lífi mínu, ég vil bara fá að vita hvað ég á að gera til að breyta því og ég vil fá að vita það NÚNA.

Vona sannarlega að þessi kvensáli hafi til að bera meira hugrekki en karlsálinn. Ég hefði alveg eins getað farið til spákonunnar sem heldur því fram að sálarmein mitt stafi af því að gula ljósið nái ekki niður í klofið á mér. Hún er þó allavega fyndin.

Best er að deila með því að afrita slóðina