Grænblár

Ég hef ekki fengist við ljóðaþýðingar fyrr og var eiginlega að hugsa um að gefa verkið frá mér. Það er svo gott á ensku. Merkingin svo margræð og ég var alveg viss um að mér yfirsæist eitthvað. Búin að skoða margar túlkanir á netinu en vissi að eitthvað vantaði. Stundum er engu líkara en lausnin komi að ofan þótt ég efist um að guðdómurinn standi fyrir því sem kom fyrir mig í þetta sinn.

Ég var svolítið í hestum sem stelpa. Hef stöku sinnum komið í hesthús síðan, nógu oft til að þekkja lyktina en ég hef ekki stundað útreiðar, ekki einu sinni komið á bak í mörg ár.

Hann fór með mig upp í hesthús og kynnti mig fyrir Pegasusi. Aldrei hef ég setið þíðari hest, ekki svona „berst á fáki fráum“ heldur meira eins og líða inn í draum.

-Viltu elska mig? spurði ég. Viltu elska mig eins og á að elska?
-Kann ég að elska þig eins og á að elska?
-Við getum komist að því ef þú leyfir mér að elska þig. Óskaðu þér bara og ef það stendur í mínu valdi mun ég uppfylla það, sagði ég.
-Segðu mér þá sögu, sagði hann og ég sagði honum söguna af því hvernig heimurinn getur stundum orðið grænblár.

Og svo kom merkingin skyndilega til mín. Eins og að ofan. Ég vissi allt í einu hvað vantaði. Hringdi í bróður minn, sagði honum að ég hefði ráðið gátuna en hann yrði að leita að staðfestingu fyrir mig.

Það er áreiðanlega frekar galið en maður nýtir svona augnablik, hvernig sem á stendur.
-Fyrirgefðu en ég verð að yrkja smávegis. Það getur því miður ekki beðið, sagði ég.
-Geturðu gert það hér? sagði hann og ég komst að því að það er alveg eins hægt að yrkja í hesthúsum og annarsstaðar.

-Fyrirgefðu misheppnað deit, ég ætlaði ekki að láta þetta fara svona, sagði ég eftir á en nennti ekki að gera mér upp samviskubit.
-Takk fyrir að leyfa mér að fylgjast með því, þetta átti hvort sem er að vera þitt kvöld, sagði hann.
-Þú hlýtur að vera umburðarlyndasti maður í heimi.
-Varla, en þú baðst mig um að elska þig eins og á að elska og ég held að það sé kannski einhvernveginn svona.

Stundum verður heimurinn grænblár. Og þarf ekki Pegasus til. Bróðir minn fann staðfestinguna sem mig vantaði í gær, ég hafði rétt fyrir mér og þýðingunni er lokið.

Best er að deila með því að afrita slóðina