Herdís en ekki herligt

Ég var að fá ábendingu um villu sem ég ætlaði hreinlega ekki að trúa á.

Það á víst að vera Þar var Herdís, þar var smúkt.

Ég hef alltaf sagt herligt enda passar það algerlega við samhengið. Allar útgáfur sem ég hef fundið á netinu segja hinsvegar Herdís.

Getur einhver sagt mér hver þessi Herdís var?

 

Í dag er ég væmin

Var búin að skrifa færslu sem var svo löðrandi í þakklæti og kærleika að hún hefði sómt sér prýðilega upplesin í mærðartón á Lindinni. Ég hafði nú sem betur fer rænu á því að eyða henni. Allar tilfinningar eiga rétt á sér en framsetningin má ekki vera þannig að maður æli yfir sitt eigið blogg.

Má samt til að koma því á framfæri að lukkan er með mér í liði og virðist ætla að yfirtaka jafnvel það svið tilveru minnar sem gegnum tíðina hefur valdið mér mestum sársauka.

Valdi rétt :-)

Í gær skildi ég Lærlinginn eftir einan með 20 manna hóp af því ég þurfti sjálf að nornast annarsstaðar. Ég ætlaðist ekki til annars af honum en að hann kláraði prógrammið, gerði upp og lokaði búðinni. Átti von á öðrum hópi í morgun en lenti í ófyrirséðum töfum og sá fram á að verða allt of sein. Salurinn auðvitað í rúst og ég hafði ekki tekið símanúmer hjá þeim sem voru að koma með mér heim, svo ég gat ekki látið þau vita að mér hefði seinkað. Sá fram á hyperstressandi dag. Nema hvað. Einhver hefði verið feginn að komast snemma heim á föstudagskvöldi en þegar ég loksins kom á staðinn, korteri áður en hópurinn átti að mæta, þá var bara allt fullkomið. Búið að þvo upp og ganga frá salnum, svo það eina sem ég þurfti að gera var að laga jurtaseyði.

Þeir sem vöruðu mig við því að ráða ungling í vinnu geta hér með étið það ofan í sig. Þessi piltur hefur gagnast mér betur en 5 andlegar kerlingar með doktorsgráðu hefðu nokkurntíma gert.

 

Pósa

Hafði séð mig fyrir mér liggjandi í mosató. Renna saman við landslagið eins og hvern annan hraunklump. Það varð ekki alveg þannig. Þegar ég kom á staðinn var strákurinn sem átti að pósa með mér að koma sér fyrir til að prófa stellinguna. Flott uppstilling, það vantaði ekki og ég er venjulega áræðin en tilhugsunin um að detta beint niður með höfuðið á undan var satt að segja dálítið ógnvekjandi. Halda áfram að lesa

Út með ruslið

Stundum þarf maður að losa sig við eitthvað sem maður hefur haldið mikið upp á af því að það er orðið ónýtt og gagnast manni ekki lengur. Gerir jafnvel meiri skaða en gagn. Maður geymir t.d. ekki myglaða köku. Stundum er svosem hægt að lappa upp á það sem hefur skemmst. Einu sinni átti ég t.d. fallega Alparós sem fékk lús. Ég hefði sennilega getað drepið lúsina með dálítilli vinnu en rósin skipti mig ekki nógu miklu máli til þess að ég væri tilbúin að til að hafa pöddur á heimilinu svo ég henti henni. Halda áfram að lesa

Alveg að fara að flytja

Ég afhendi íbúðina um mánaðamótin. Finn samt ekki fyrir neinum flutningakvíða, kannski af því að við Anna ætlum saman í helgarferð um leið og ég er búin að skila lyklunum og ég hlakka svo mikið til þess að ég er hreinlega á hjólum. Ég lifði á galdraráðstefnunni síðasta haust fram að jólum en nú er ég farin að þurfa sárlega á tilbreytingu að halda.

Talandi um flutninga: Ég þarf að losa mig við stórt amerískt hjónarúm, borðstofustóla, lítið nett sófasett, þvottavél, kæliskáp og uppþvottavél. Áhugasamir sendi póst á eva@nornabudin.is

 

Nett pirrandi

Mér finnst með ólíkindum að það skuli ekki vera hægt að treysta á milli 10 og 20 hræðum fyrir lykilorði á lokaða vefsíðu. Ég hefði haldið að það væri í verkahring eiganda síðunnar að ákveða hvenær er tímabært að opna hana en það eru víst ekki allir sammála mér um það.

 

Í það heilaga

Systir mín Loftkastalinn er að fara að gifta sig í sumar. Nú hafa þau Eiki búið saman í 10-11 ár og eiga saman tvo stráka, fyrir utan hin þrjú börnin sem hann hefur gengið í föðurstað. Þau telja víst að nú sé komin nóg reynsla á sambandið til að stíga það örlagaþrungna skref að fá prest til að innsigla samninginn. Gott hjá þeim. Alltaf eitthvað rómantískt við brúðkaup. Skilst mér. Halda áfram að lesa

Skyr

Hvaðan kemur sú hugmynd að skyr sé eina próteinuppsprettan sem líkamsræktarfólki stendur til boða? Ekki svo að skilja að ég hafi neitt á móti skyri, mér finnst það alveg ágætt, með sykri og rjóma að sjálfsögðu. Ég er bara svo hissa á þessari áherslu á einmitt skyr. Hvernig er það í öðrum löndum, þar sem skyr er ekki til? Setja útlenskir endorfínfíklar tófú eða fisk saman við ávaxtamaukið? Eða eru allir bara pervisnir í útlöndum?

 

Þegar tennurnar týnast …

Fólk sem tekur líkamsrækt alvarlega eyðir ekki orkunni í að tyggja ávexti. Það maukar þá og þynnir svo leðjuna með safa, mysu eða undanrennu svo sé hægt að neyta þeirra í fljótandi formi. Ég hef alltaf haldið að svona hræringur þjónaði þeim tilgangi að hylja lyfjabragðið af próteinpúlveri en nú er mér sagt að það séu ekkert endilega sett fæðubótarefni saman við súpuna. Halda áfram að lesa

Goðsögnin um endorfínkikkið

Tvennt hefur komið mér á óvart síðustu daga.

Í fyrsta lagi er fólk sem hreyfir sig reglulega er ekki rassgat fallegra en við hin. Að vísu hef ég ekki séð marga fituhlunka í tækjasalnum og sjálfsagt er þetta fólk allt saman rosalega sterkt og með mikið úthald en sturturnar eru svo fullar af signum brjóstum, flaxandi viskustykkjahandleggjum og lærum með mörkögglaáferð að ég er alveg hissa á að lýtalæknar hafi ekki klínt auglýsingum upp um alla veggi. Halda áfram að lesa

Sellofan

-Hvernig þekkirðu þennan mann? spurði Lærlingurinn.
-Gömul silkihúfa, svaraði ég.
-Draugur?
-Já. Hann skýtur upp kollinum einu sinni á ári eða svo.
-Draugur sem droppar inn og býðst til að sverma fyrir viðskiptasamböndum. Það er athyglisvert. Heldurðu að sé einhver alvara á bak við það eða er hann bara að vesenast eitthvað til að hafa afsökun fyrir því að nálgast þig?

Það er nú það. Ég veit það ekki og eiginlega er mér sama. Það kemur allt í ljós. Heppnin á það til að bregða sér í dulargervi og þegar allt kemur til alls virka galdrar ekkert verr þótt þeim sé pakkað í sellófan. Þeir seljast hinsvegar betur.

Silkihúfa.
Kannski sellófanhúfa.
Mikið vildi ég að hann Elías drifi nú í því að barna einhverja huggulega lesbíu.

 

Krónísk frekja?

Enn stendur frekjubíllinn í tveimur stæðum. Um daginn skildi ég eftir á honum svohljóðandi orðsendingu; „Þú hefur dýpkað skilning minn á orðinu frekja.“ Að sjálfsögðu setti ég einnig nafn og staðsetningu á blaðið. Maður sem býr í hverfinu kom í búðina til að þakka mér fyrir framtakið en þetta hefur hinsvegar ekki haft nein áhrif á eigandann.

Ef hann verður ekki farinn í kvöld frem ég eitthvert fordæði.