Pósa

Hafði séð mig fyrir mér liggjandi í mosató. Renna saman við landslagið eins og hvern annan hraunklump. Það varð ekki alveg þannig. Þegar ég kom á staðinn var strákurinn sem átti að pósa með mér að koma sér fyrir til að prófa stellinguna. Flott uppstilling, það vantaði ekki og ég er venjulega áræðin en tilhugsunin um að detta beint niður með höfuðið á undan var satt að segja dálítið ógnvekjandi.

-Ég skal prófa en ég er alls ekki viss um að ég sé nógu sterk, sagði ég enda virtist strákurinn eiga fullt í fangi með að halda sér uppi og var hann þó stæltur og vel á sig kominn.
-Ég þarf sterkasta fólkið í þessa töku og það er útilokað að láta einhvern sem er feiminn gera þetta, sagði Spencer, sem þóttist sjá það á þessum fáu amatöramyndum sem hann hafði fengið af mér að ég væri „listamaður“.

Hangi á hvolfi á fiskihjalla. Rekadrumburinn miklu breiðari en kálfarnir á mér og ég næ ekki að klemma hnésbæturnar utan um hann. Má bara ekki verða svo hrædd að ég grípi í strákinn því þá hálsbrotnum við bæði. Sjitt, þetta er erfiðara en það sýnist.
-Taktu helvítis myndina, ég er að detta, öskra ég -og dett.
Aðstoðarmaður grípur mig, ótrúlegur viðbragðsflýtir. Þótt undarlegt megi virðast er ég ekki lengur hrædd.

Upp aftur.
Andskotinn. Ég þarf að pissa. Er heldur ekki nógu sterk. Dett aftur. Er gripin. Ætla ég að pissa hér? Enginn stór steinn eða annað athvarf. Pissa fyrir framan hóp af ókunnugu fólki. Nei, það held ég ekki. Mér væri sama en ég held að þeim þætti það vandræðalegt. Að pissa hér og nú væri óviðeigandi. Samt er nektin ekki óviðeigandi. Þeir geta gripið mig þegar ég dett kviknakin. Þeir geta hjálpað mér upp á fiskhjallann og haldið mér þar öfugri þar til ljósmyndarinn er tilbúinn. Þeir gætu bókstaflega horft niður í dýrðina á mér ef þeir kærðu sig um það. Líklega gerir einhver þeirra sér grein fyrir því að í þessari stellingu hljóta leggöngin að fyllast af lofti en tilhugsunin um að einhver þeirra sé að velta því fyrir sér er hvorki pervertísk né einu sinni skrýtin. Í þessu samhengi er ég ekki kona, heldur myndefni. Líkami hangandi til þerris innan um aðra fiska, þar af einn mennskan.

Hangi öfug. Horfi til jarðar. Þarf að pissa. Í venjulegri pósu væri ég meðvituð um að spenna rassvöðvana hæfilega en ég hef enga orku til að hugsa um það hvernig ég líti út aftan frá. Ég er Óðinn hangandi á trénu. Kálfarnir spenntir og lærin en efri hluti líkamans verður að vera slakur. Ég er með sinadrátt. Hangi samt.
-Ég er nógu sterk, ég er nógu sterk, tuldra ég.
-Ég er sterkur, sterkur , sterkur, æpir strákurinn.

Geri mér ekki grein fyrir því að tökunni er lokið fyrr en einn aðstoðarmannanna grípur mig.

Þrekraun. Ég get ekki lýst því öðruvísi. Verð samt að játa að það var þess virði. Hef aðallega pósað fyrir amatöra og það er satt að segja ákveðið kikk að fá tækifæri til að vinna með einhverjum frægum.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Pósa

 1. ————————————————-

  Og fáum við að sjá myndina/myndirnar?

  Posted by: Þorkell | 14.05.2007 | 21:08:10

  ————————————————-

  Ég er ekki búin að sjá þær sjálf en ég reikna frekar með að ég fái birtingarleyfi.

  Posted by: Eva | 14.05.2007 | 22:02:14

Lokað er á athugasemdir.