Sumar í nánd

Mikið er það nú heppilegt að skólanum skuli bráðum fara að ljúka. Ég hef að vísu komist drjúgan spöl á tímamögnunargaldrinum en það mun óneitanlega létta af mér fargi þegar Lærlingurinn tekur við fullu starfi og kannski rúmlega það.

Annars eru undarlegir hlutir að gerast. Ég var að horast niður svo ég hef staðið á beit síðustu daga og nú eru mér að vaxa brjóst aftur en þó án þess að lærin á mér séu á leiðinni vestur á firði og austur á Höfn. Virðist vera alveg nóg að lyfta nokkrum kílóum þrisvar í viku til þess að fitan lendi á réttum stöðum.

Annað líka sem ekki er síðra. Í nokkur ár hef ég ekki getað hlaupið án þess að fá verki í lungun en nú er komið í ljós að það er ekki áreynslan sem ég þoli ekki heldur er ég svona viðkvæm fyrir kulda. Ég á ekki í neinum vandræðum með að hlaupa innan dyra. Frekar bjánalegt verð ég að segja því hvenær þarf maður svosem á því að halda að hlaupa inni? Ég er samt auðvitað hæst ánægð og er loksins búin að átta mig á því að óbeit mín á hreyfingu stafaði ekki af of lágum leiðindastuðli heldur af veikindahræðslu. Bæði móðir mín og systir hafa lent á spítala af því að lungun í þeim féllu saman og það er ekkert í lífinu sem ég er eins hrædd við og að verða sjúklingur. Um leið og ég hætti að hafa áhyggjur af því að fá verki í lungun, hætti ég að kvíða því að mæta í ræktina. Mér finnst þetta svosem ekkert brjálað fjör, finn ekkert fyrir þessum hressindum sem eiga víst að fylgja og hef enn ekki fengið endorfínkikk út úr neinu öðru en samskiptum við dreng sem mér þykir vænt um en þetta er ekkert leiðinlegra en að taka til eða aka Miklubrautina milli 8 og 9.

Og Elías…
-Ef þér leiðist í Ameríkunni geturðu alltaf komið heim. Þú barnar einhverja áreiðanlega lesbíu sem er til í sameiginlegt forræði, ég skal vera besta stjúpa í heimi og við verðum barnlaus aðra hverja helgi sagði ég.
Hann sagði að ég væri ferleg en símareikningurinn hans hefur hækkað upp úr öllu valdi og háskólar í Ameríku starfa ekki á sumrin frekar en þeir íslensku.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Sumar í nánd

Lokað er á athugasemdir.