Ástandið

Fór í ástandsskoðun í morgun.

Átti allt eins von á því að mér yrði húrrað heim með sjúkrabíl og skýrslu upp á „nánast engin lífsmörk, mælt með byrjendaæfingum á borð við að klappa saman lófunum, hætta á hjartaáfalli við meiri áreynslu en sem því nemur.“

Ég veit ekki alveg hvort ég á að hlæja eða gráta. Ég er samkvæmt mælingum í fínu formi. Allavega miðað við 5 mínútna áreynslu. Ég er ekki orðin fertug og verð samt veik ef smá tóbaksreykur fer ofan í mig, gæti ekki hlaupið þótt mér væri borgað fyrir það (og hef ég þó fengist við margt sem lyktar verr en minn eigin sviti fyrir peninga) og finn breytingu á hjartslætti við að ganga upp á 6. hæð. Hvernig ætli því fólki líði sem er í slæmu formi?

Þar sem ég reikna með að einhverntíma komi að því að ég þurfi að nota hjartað lengur en 5 mínútur í senn ætla ég að gera þetta almennilega. Depurðin sem hellist yfir mig eftir á er miklu verri en hjartsláttur og stífir vöðvar og enginn virðist kunna neina skýringu á því, þeir sem ég hef spurt halda bara að ég hafi ofgert mér. Þótt ég sé ekki vön miklum átökum veit ég samt hvernig þreyta lýsir sér og þetta er sko eitthvað allt annað. Ég verð samt fjandinn hafi það að geta hreyft mig án þess að falla saman, svo ég er búin að panta tíma hjá sálfræðingi.

Ég spái því að ég verði greind afskaplega vel á mig komin andlega.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Ástandið

  1. ————————————-

    6. hæð er nú ekkert svo lítið, ég finn alveg fyrir þessum fjórum uppi í listaháskóla (reyndar hátt til lofts og ég yfirleitt með níðþunga tösku)

    Sumir hreyfa sig bara aldrei neitt.

    Posted by: hildigunnur | 23.04.2007 | 13:42:29

Lokað er á athugasemdir.