Sveitt daður

Finn snertingu við öxlina. Sveitta öxl. Bregður eilítið og slít heyrnartólin úr eyrunum en hann er þegar búinn að vekja athygli mína á lausri skóreim með bendingu. Stoppa færibandið, muldra þakkir og reima skóinn.

-Getur verið varasamt, segir hann í frekar hressum tón sem gefur til kynna að hann vilji spjalla. Ég þakka aftur og treð tólunum í eyrun enda skil ég ekki hugmyndina „sveitt en samræðuhæf„. Með svitatauma lekandi niður eftir bakinu er ég ekki einu sinni nærveruhæf, hvað þá samræðuhæf. Ég er ekki þessi hressa týpa og allra síst á meðan svitinn slettist frá mér í allar áttir. Eins gott að loftræsingin er í lagi.

Tæpum klukkutíma síðar sit ég á gólfinu með hausinn milli hnjánna og þegar ég lít upp er hann þar í einhverri álíka afkáralegri stellingu og horfir á mig. Ég brosi. Ekki af einskrærri gleði heldur af því að hann er almennilegur og maður á að brosa til almennilegs fólks.
-Æfirðu oft? spyr hann
-Nei, svara ég.
Að vísu hef ég farið 6 sinnum í viku en ég er nú bara rétt að klára þriðju viku svo það er varla tímabært ég fari að kynna mig sem líkamsræktarfrík. Hvað kemur honum það líka við?
-Bless, segi ég svo vingjarnlega og stend upp.
-Ertu að flýta þér? spyr hann.
-Ekki þannig nei en ég er búin með þetta helvíti svo það er ekki eftir neinu að bíða.
-Ég var að hugsa um hvort ég mætti bjóða þér eitthvað á bústbarnum á eftir.

Bíddu nú við. Hvað er að gerast? Er maðurinn að daðra við mig? Já, hann er að því. Næstum sömu frasarnir „kemurðu oft hingað?“ „viltu ekki eitthvað af barnum?“ Hér! Hárið á mér blautt af svita. Er hann sætur? Jú, reyndar, hann er bara þó nokkuð sætur og það er langt síðan ég hef þegið drykk á bar. Finn að Birtan í mér er að rumska.

-Ég fer nú ekki að klúðra þessum hamagangi með því að innbyrða óþarfa hitaeiningar, segi ég, sem síðast í gær át súkkulaðitertu með þeyttum rjóma í kvöldmat og hamborgara og franskar fyrir svefninn.
-Þú fitnar nú ekki af bústi segir hann og skiptir um stellingu.
-Nei, ekki ef ég æti bara próteinduft og skyr en ég hef nú hugsað mér að graðga ýmsu öðru í mig í dag. Auk þess er ég kona og við erum minnst hálftíma að klæða okkur og smyrja á okkur andliti. Þú verður allt of seinn í vinnuna ef þú bíður eftir mér.
-Semsagt nei?

Ég hugsa mig aðeins um. Einhverntíma hef nú gengið lengra til að komast í kynni við karlmann en að gúlla í mig sjálfsblekkingarfæðu og ég veit ekki til þess að Elías sé farinn að ræða barneignir við samtökin 78 ennþá.
-Kannski er þetta maðurinn minn segir Evan í mér.
-Drottinn minn, Satan og allir æsirnir, hvernig lenti ég eiginlega með þér í skrokk, rómantíski fávitinn þinn? stynur Birtan.

-Takk fyrir gott boð, við getum kannski hist seinna en ég verð eiginlega að drífa mig núna, lýg ég og brosi ísmeygilega. Það er furðu erfitt að brosa ísmeygilega á meðan maður finnur svitann storkna á milli brjóstanna.

-Hvað heitirðu? kallar hann upp í fararsniðið á mér.
-Birta, svara ég að bragði. Ég spyr hann ekki að nafni.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina