Þessir litlu hlutir

Í dag þurfti ég að leggja bílnum á gjaldsvæði í smástund. Ég var að ganga að gjaldtökuvélinni þegar stúlka snaraði sér að mér og rétti mér miða sem gilti dágóða stund í viðbót. Sagðist hafa borgað of mikið og þyrfti hann ekki lengur, hvort ég vildi ekki nota hann.

Svona almennilegheit gleðja mig svo mikið. Ekki bara af því að þau gefi mér staðfestingu á óvenjulegri lánsemi minni, þótt það sé gott út af fyrir sig, heldur ekki síður af því að svona atvik eru sönnun þess að til sé fólk sem hefur tamið sér hugsunarhátt sem mér finnst réttur og heilbrigður.

Þegar fólk gerir ókunnugum smávægilegan greiða hefur það enga ástæðu til að halda að greiðinn verði endurgoldinn eða að orðspor þess berist víða. Þetta er heldur ekki nógu merkilegt atvik til þess að velgjörðamaðurinn fái virkilegt góðverkakikk. Þegar fólk er vingjarnlegt á þennan hátt, þá er skýringin yfirleitt sú að því finnst það bara sjálfsagt. Það er það sem mér finnst svo yndislegt.

Það ætti að vera manninum eðlilegt að gera ýmislegt sem kemur öðrum til góða en útheimtir samt engar fórnir eða erfiði. Það er svo auðvelt að bjóða einhverjum far þegar maður er hvort sem er einn í bílnum, taka upp rusl þegar maður er einmitt á leiðinni að næstu ruslafötu, gefa Rauða krossinum fötin sem maður hefði annars hent eða hafa ofan af fyrir órólegu barni rétt á meðan foreldri þess kvittar á vísanótuna.

Maður þarf ekki að vera neitt sérstaklega góð manneskja til þess að gera þessu litlu hluti. Maður þarf bara að muna eftir því að þeir gera veröldina pínulítið betri, án þess að kosta mann neitt.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Þessir litlu hlutir

  1. ——————————–

    já, þetta eru hlutir sem ég er alltaf að reyna að muna eftir að gera (var samt ekki ég þarna í dag 🙂 )

    Posted by: hildigunnur | 17.04.2007 | 22:24:21

Lokað er á athugasemdir.