43 smjörstykki

Eva: Ég er með eina athugasemd við þessa ástandsskoðun. Þessi tala hérna, fitumassi 21,6 kg, hún getur ekki staðist.
Þjálfari: Nú, af hverju ekki?

Eva: Af því að ég er samkvæmt sömu mælingu 46,6 kg og fituprósentan er 21,4.
Ég er ekki góð í prósentureikningi en 21,4% af 46,6 kg er ekki 21,6 kg heldur eitthvað nálægt 10.
Þjálfari: Þetta er bara sú mæling sem kom út úr tækinu.
Eva: Já, ég er ekkert að rengja það en annaðhvort hlýtur tækið að hafa rangt fyrir sér, eða þá að það vantar einhverjar upplýsingar inn í þetta. Eða getur þú bent mér á hvar ég geymi þessi 43 smjörstykki? Þau eru allavega ekki á brjóstunum á mér.
Þjálfari: Fitumassi er ekki bara fita, það er líka vatn inni í þessu.
Eva: Það er líka vatn í vöðvum, blóði og beinum. Heldurðu að geti verið að beinin í mér, húðin, blóðið, innri líffæri og allir vöðvar vegi ekki nema rúm 25 kg?
Þjálfari: Samkvæmt þessu já.
Eva: Þá er ég semsagt með 21,6 kg af spiki utan á mér, eða sem svarar 43 smjörstykkjum og samt segir þú að ég megi alls ekki léttast!
Þjálfari: Þú mátt ekki horfa á fitumassann, þú átt að horfa á fituprósentuna og samkvæmt henni ertu undir kjörþyngd.

Niðurstöður dagsins:
-Ég er með 21,6 kg af spiki en samt undir kjörþyngd. Ekki undarlegt þótt þríhöfðarnir á mér ráði ekki við nema 20 kg. lóð. Þeir eiga alveg nóg með allt þetta spik.
-21,4 prósent af 46,6 eru 21,6. Ég botna greinilega ekkert í stærðfræði og ætla ekki einu sinni að reyna að læra prósentureikning.
-Gagnrýnin hugsun er ekki umfangsmikið fag í íþróttakennaraskólanum.
-Tækið hefur alltaf rétt fyrir sér.

Þetta reyndist eiga sér eðlilega skýringu.

 

One thought on “43 smjörstykki

  1. ————————————————–

    Hvert gramm er samt undursamlegt

    Posted by: G | 16.05.2007 | 11:34:02

    ————————————————–

    Gerirðu þér grein fyrir því að þú ert jafn þung og 8 ára dóttir mín sem gerir fátt annað en hlaupa handahlaup og stökkva arabastökk alla daga?

    Posted by: Elías | 16.05.2007 | 12:49:29

    ————————————————–

    Þetta er reyndar alveg fín prósenta fyrir konu. Þegar ég heyrði tilsvarandi tölu fyrir mig kom mér til hugar að 82% af mér væri ég en restin er fita 🙂

    Posted by: Guðjón Viðar | 16.05.2007 | 14:06:28

    ————————————————–

    Ég trúi líka alveg á þessa fituprósentu. Það sem mér finnst einkennilegt er að fitumassinn geti verið svona hár en samt ekki nema 21,4 prósent.

    Posted by: Eva | 16.05.2007 | 15:19:07

    ————————————————–

    Ég tek undir það að þú megir alls ekki léttast, já.

    Ég hef annars ekki mikla trú á þessum tækjum (líklega vegna þess að ég sé engan veginn hvernig þau eiga að virka – nema það sé vegna þess hvað ég mældist með hrottalega háa fituprósentu…)

    Posted by: hildigunnur | 16.05.2007 | 16:01:36

    ————————————————–

    Trú þjálfaranna á dótið flytur þá kannski líka þessi ímynduðu fitufjöll?

    Posted by: Harpa J | 16.05.2007 | 22:51:11

    ————————————————–

    Rassgat! Ég var að eyða spami og hef óvart eytt löngu og áhugaverðu kommenti frá Langa-Sleða. Ég VERÐ að fá almennilega spam-vörn. Búin að lenda í þessu allt of oft.

    Posted by: Eva | 17.05.2007 | 15:52:17

    ————————————————–

    já ég er brjálaður og nenni ekki að skrifa þetta aftur

    Posted by: Langi Sleði | 17.05.2007 | 23:59:37

Lokað er á athugasemdir.