Ellefta geðorðið

Hér er skemmtilegur leikur fyrir þá sem hafa gaman af að koma fólki í uppnám. Hann er mjög einfaldur og krefst hvorki innsæis, gáfna, þekkingar né leiklistarhæfileika. Það eina sem þú þarft að gera er að segja eina setningu sem byrjar á „ég trúi nú bara ekki á…“ og svo eitt af geðbólguorðunum 10. Engu máli skiptir hvort þú segir þetta afsakandi, í trúnaðartón, blátt áfram eða frekjulega eða hvort augnaráðið er yfirvegað, ósvífið, þreytulegt eða geislandi af djúpri visku; viðmælandinn MUN sleppa sér í geðbólgu og reyna að koma fyrir þig vitinu með misgáfulegum fyrirlestrum.

Ég hef prófað ýmis orð og komist að raun um að þau vekja mishörð viðbrögð. Það þykir t.d. skrýtið og jafnvel ótrúlegt að trúa ekki á Jesús en það er þó sjaldnast álitið merki um að ég sé mjög geðveik eða jafnvel hættuleg. Það sleppur líka að trúa ekki á andaglas en Almáttugur, Óðinn og allir djöflarnir forði þeim sem trúir ekki á anda hinna framliðnu. Reynsla mín hingað til er sú að geðbólguorðin séu þessi 10:

-Gvuð
-Fyrri líf
-Eftirlíf
-Skyggnigáfu
-Anda hinna framliðnu
-Meðfæddan kærleika mannsins
-Yfirnáttúru
-Dularöfl
-Árulestur
-Alheimsljósið

Í dag fann ég eitt geðbólguorð til viðbótar og gott ef það er ekki áhrifameira en öll hin samanlagt. Ég prófaði að segja viðskiptavini að ég tryði ekki á orku. Það er reyndar haugalygi, ég trúi alveg á orku en ég trúi því ekki að það sé hægt að „jafna orkuflæði líkamans“ (hvað sem það nú merkir) með því að bera á sér stein eða annan grip.

Ég mun aldrei aftur leggja það á lítið barn að hafa yfir jafn magnaða farartálmaþulu í áheyrn foreldranna en ég er allavega búin að finna ráð til að tryggja mér félagsskap um alla framtíð.

Á morgun ætla ég að prófa að segja „ég trúi nú bara ekki á vísindin.“

 

Synd mannsins í heiminum

-Losti er bara rangnefni. Það fer í taugarnar á mér þegar fólk tengir Kenndina við losta af því að orðið sjálft degraderar hana. Ég hef ekkert á móti losta en þetta er bara eitthvað allt annað. Ást kannski eða leikur að trausti. Allavega ekki losti. Kannski blæti?
-Nei, enn síður blæti. Blæti er það sem maður blótar eða dýrkar. Halda áfram að lesa

Og spunahjólið snýst

Það var farið að hvarfla að mér að Pokurinn hefði svikið mig og að ég þyrfti að sitja uppi með mína sálarlufsu sjálf.
Mig grunaði reyndar að ég þyrfti að útvega eitthvað til viðbótar við sálina (enda er hún ekki sérlega eiguleg) til að koma honum í stuð en ég vissi ekki almennilega hvað það ætti að vera. Nú er það loksins komið á hreint. Halda áfram að lesa

Jamm dagsins

Frjádagur enn og aftur á heimsbjörgunarbuxunum (það eru köflóttar náttbuxur en slík múndering ku víst afar hentug til byltinga af ýmsum toga) og búinn að koma sér fyrir í sveitarsælunni ásamt dömunni og mannætupotti. Ég er því aftur ein á Vesturgötunni og þótt sé yndislegt að hafa félagsskap, verð ég að játa að of mikið drasl í of litlu rými dregur dálítið úr kátínu minni til lengdar.
Halda áfram að lesa

Okkar maður

-Skil ég rétt að þú sért sátt við þetta fyrirkomulag eins og það er, en hafir áhyggjur af því að ég taki upp á því að gera meiri kröfur? spurði ég.
-Já, ég get ekki neitað því. Þú virðist vilja meira. Svo hef ég líka velt því fyrir mér hvernig þetta yrði ef við eignuðumst barn.
-Ég held að þú þurfir ekki að hafa neinar áhyggjur af því. Hann vill ekkert eignast barn með þér, sagði ég. Halda áfram að lesa

Bara

Frjádagur og frú eru að undirbúa krossferð gegn stóriðju og fara héðan á föstudaginn. Lærlingurinn kom heim frá Ítalíu í gær og ég er dauðfegin að þurfa ekki að vera hér ein allan daginn á meðan þau bjarga heiminum. Eins og ég er annars lítt mannelsk, þá hættir mér til að deyja úr leiðindum ef ég hef ekki félagsskap.

Viðbótarplan

Já, ég ætla líka að vera búin að horfa á heila seríu af einhverjum góðum afþreyingarþáttum. Kannski Boston Leagal. Ég hef ekki horft á heila seríu af neinu heiladrepandi síðan ég lagðist í viku törn af Friends vegna illrar mixtúru af óhamingju, hálsbólgu og bílleysi í janúar árið 2000. Ætla samt að hafa geðslegri forsendur í þetta sinn.

 

10 ára planið

Þann 1. júlí 2017 verð ég:

-Nógu rík til að ráða fólk í öll verk sem mig langar ekki beinlínis að vinna sjálf.
-Með sömu fituprósentu og í dag.
-Amma (að vísu fær það plan dræmar undirtektir hjá niðjum vorum en ef fortölur duga ekki má alltaf nota gamla, góða húsráðið, að leita uppi smokkasafn heimilisins og leggja á það títuprjónsálög.)
-Hætt að tárast af væmni (ég þoli ekki þennan veikleika hjá sjálfri mér).
-Ennþá gift manninum sem ég giftist sumarið 2008. (Þar sem doktorsnefnan hefur jafnan tekið bónorðum mínum heldur fálega, reikna ég með að beina kröftum mínum heldur að karli einum kankvísum. Hver hann verður veit nú enginn og þá síst hann sjálfur en ástæða er til að ætla að hann verði góður við konuna sína.
-Búin að verja a.m.k. 3 mánuðum við hjálparstörf á stríðshrjáðu svæði.
-Óþolandi hamingjusöm.

 

Takk fyrir mig

Þúsund þakkir fyrir allar afmæliskveðjurnar. Ég vssi ekki að síminn minn gæti tekið á móti svona mörgum sms-um. Og þið sem reynduð að hringja; ég er ekki alveg svona símafælin, ég slökkti ekki á símanum til að losna við að svara, heldur af því að ég var fyrst í kaffiboði og svo að vinna. Ég er líka búin að fá allt of dýrar og fínar gjafir. Held að pabbi og Ranga séu endanlega gengin af vitinu. Halda áfram að lesa

Ammli

Vaknaði tvisvar við símann í nótt. Get svosem alveg fyrirgefið þeim sem hringja á næturnar þegar tilgangurinn er að syngja afmælissöng, úr partýi sem ég hefði kannski mætt í ef mér þætti ekki skemmtilega að sofa. Já og Elías er á sérsamningi. Vaknaði svo fertug í morgun. Gömul og vitur kona í stelpulíkama. Ætla samt ekki að fagna fyrr en í haust þegar ég er flutt inn í fallegu, fallegu íbúðina mína og vinir og vandamann komnir úr sumarfríi.

Ég er samkvæmt hefð að vinna á ammlisdaginn minn. Notaði morguninn til að útbúa kræsingar ofan í 16 manns (jamm, nornafundur í kvöld) og á eftir að útbúa smágaldra fyrir hópinn og nokkrar pantanir.

Fæ samt pönnukökur hjá pabba og Rögnu í dag.

 

Afrekaskrá fjórða áratugarins

Eftir nokkra klukkutíma verð ég fertug.

Fyrir 20 árum fannst mér að það hlyti að vera beint samhengi á milli þess að vera fertugur og ráðsettur. Mér líður samt ekkert ráðsett. Ég er heldur ekkert á leið í neina miðaldurskrísu. Ég hef upplifað tímabil sem ég hef haft meiri frítíma og lagt meiri rækt við heilann í mér en í heildina tekið hef ég aldrei verið jafn sátt við lífið og sjálfa mig. Halda áfram að lesa

Fyrr má nú rota…

Ég ber afskaplega litla virðingu fyrir „best fyrir“ dagsetningum á matvöru. Ég lít á slíka merkingu sem ábendingu um það hvenær maður ætti ekki að borga fyrir vöruna en ekki sem heilagri tilskipun um að henda henni. Lykt og bragð kemur allajafna upp um skemmda fæðu og ég sé enga ástæðu til að bæta nothæfum mat við sorpbirgðir veraldarinnar. Sjoppmundur vinur minn er sama sinnis og gefur mér stundum vörur sem eru orðnar of gamlar til að hann geti selt þær. Ég geri það sama, gef uppáhaldskúnnum krem og olíur sem eru að renna út eða býð upp á köku þegar ég sé fram á að hún fari annars í ruslið.

Það hlýtur nú samt að vera einhver munur á því að vera nýtinn og að nota magann á sér sem ruslafötu. Í gær braut ég allavega það prinsipp að láta nef og tungu um að meta ástandið. Ég rakst á sinnepsbrúsa í kæliskáp föður míns. Hann var merktur best fyrir 07 2001. Ég veit ekki hversu lengi sinnep geymist en hugsaði sem svo að ef á annað borð gæti myndast eitrun í sinnepi yrði þetta ættargóss að teljast varasamt. Þar sem dagsetningin var orðin máð, ákvað ég að gefa forræðishyggju minni lausan tauminn og forða föður mínum frá bráðum bana af völdum sinnepseitrunar.

Þetta var frekar sárt. Flaskan var næstum því full. Sem bendir reyndar til þess að pabbi sé ekki nógu sólginn í sinnep til að leggjast í þunglyndi yfir tjóninu.

 

Heimskona

Ég efast um að tengdadóttir mín, hin eðalborna, hafi vanist því sem hluta af daglegum heimilisstörfum að pödduhreinsa greinar og tæta sundur hálfúldin hrafnahræ. Ég hefði búist við því að stúlka sem er alin upp í höll, segði allavega oj, en mín lætur ekki annað á sér sjá en að þetta sé allt saman fullkomlega eðlilegt.

Heimskona er sú sem er jafnhæf til að sitja veislur aðalsmanna, skipuleggja mótmælaaðgerðir og brúka þorskhaus til galdrakúnsta.