Fyrr má nú rota…

Ég ber afskaplega litla virðingu fyrir „best fyrir“ dagsetningum á matvöru. Ég lít á slíka merkingu sem ábendingu um það hvenær maður ætti ekki að borga fyrir vöruna en ekki sem heilagri tilskipun um að henda henni. Lykt og bragð kemur allajafna upp um skemmda fæðu og ég sé enga ástæðu til að bæta nothæfum mat við sorpbirgðir veraldarinnar. Sjoppmundur vinur minn er sama sinnis og gefur mér stundum vörur sem eru orðnar of gamlar til að hann geti selt þær. Ég geri það sama, gef uppáhaldskúnnum krem og olíur sem eru að renna út eða býð upp á köku þegar ég sé fram á að hún fari annars í ruslið.

Það hlýtur nú samt að vera einhver munur á því að vera nýtinn og að nota magann á sér sem ruslafötu. Í gær braut ég allavega það prinsipp að láta nef og tungu um að meta ástandið. Ég rakst á sinnepsbrúsa í kæliskáp föður míns. Hann var merktur best fyrir 07 2001. Ég veit ekki hversu lengi sinnep geymist en hugsaði sem svo að ef á annað borð gæti myndast eitrun í sinnepi yrði þetta ættargóss að teljast varasamt. Þar sem dagsetningin var orðin máð, ákvað ég að gefa forræðishyggju minni lausan tauminn og forða föður mínum frá bráðum bana af völdum sinnepseitrunar.

Þetta var frekar sárt. Flaskan var næstum því full. Sem bendir reyndar til þess að pabbi sé ekki nógu sólginn í sinnep til að leggjast í þunglyndi yfir tjóninu.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Fyrr má nú rota…

 1. ——————————————

  Ég næ heldur aldrei að tæma sinnepsflöskuna áður en það skemmist. Ég held að það sé fátt sem lendir eins oft í tunnunni og blessað sinnepið. 🙁

  Posted by: Þorkell | 30.06.2007 | 18:11:16

  ——————————————

  Klárast alltaf hjá mér. Á yfirleitt fleiri en eina tegund.

  Posted by: Eva | 30.06.2007 | 18:22:19

  ——————————————

  ef maður kaupir sinnep í bónus er það í svo stórum brúsum að það endist mun lengur en best fyrir dagsetning segir til um. sennilega ekki góð leið til að spara.

  Posted by: inga hanna | 30.06.2007 | 22:45:32

Lokað er á athugasemdir.