Mig vantar orð

-Ég bið að heilsa litlu systkinum mínum, sagði pilturinn, þegar var komið á hreint að hann gæti ekki komið í heimsókn með svo stuttum fyrirvara, þar sem móðir jörð þyrfti að leggja sig. (Það er náttúrulega ekki hægt að leggja sig með föður og son í hrókasamræðum í eldhúsinu.)

-Litlu hálfsystkinum þínum, leiðrétti litlagunna, rétt eins og væri einhver hætta á því að hann gengi með þá ranghugmynd að hann tilheyrði fjölskyldu föður síns og væri jafnvel velkominn í heimsókn.

-Tussa, tautaði ég þegar ég frétti af samtalinu en áttaði mig strax á því hvað ég hafði sagt og skammaðist mín fyrir að vanvirða dýrðina á mér með þessari hroðalegu samlíkingu.

Ég hef valið litlugunnu ýmis nöfn á undanförnum vikum. T.d. belja, tík, meri, gylta, padda og rotta. Biðst hér með auðmjúklega afsökunar á því. Blessuð húsdýrin hafa ekkert til þess unnið, pöddur geta verið ógeðfelldar en eru tákngervingar sjálfsbjargarviðleitni og rottur eru, þrátt fyrir allt, gáfaðar.

Þarf það að hafa eitthvert nafn? Þarf að skilgreina það? Já, mér finnst það. Ég sé litlugunnu sem undarlegan sambreisking af óþokka og kjána og ég finn hjá mér hvöt til að setja það í kassa. Lítinn kassa úr dingalingaling. Ég er löngu búin að afgreiða litlajón. Hann er náttúrulega bara lufsa. Meiri lufsa en Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin samanlagt. En litlagunna -ég veit ekki alveg hvernig ég á að skilgreina það fyrirbæri.

-Hún á náttúrulega bara bágt, sagði pilturinn og hristi höfuðið af stöku umburðarlyndi. Fínt ef hann trúir því en ég held að það eigi ekki rassgat bágt. Auðvitað er eitthvað að litlugunnu en ég held að því líði ekkert illa. Ég held að því líði bara vel í litla ruglheiminum sínum og ég finn hjá mér hvöt til að leiðrétta það. Hvað heitir sú kennd? Særð réttlætistilfinning? Reiði? Andúð? Er einhver sérstök ástæða til að bregðast við slíkum tilfinningum?

Allajafna nenni ég ekki að láta tilveru litlugunnu fara í taugarnar á mér. Mér finnst gott á litlajón að vera giftur því, fyrst hann leyfir því að komast upp með svona framkomu gagnvart hinum börnunum sínum og hef hingað til losað mig við reiðina með því að hnussa „belja“, eða eitthvað álíka. En ég get ekki gert mig seka um slíka vanvirðu lengur. Mig vantar orð sem lýsir áliti mínu á litlugunnu. Orð sem felur í sér alla þá fyrirlitningu sem það á skilið. Tillögur óskast en hafið þó eitt í huga: Þegar ég vaknaði í morgun ákvað ég að í dag ætlaði ég að vera beinlínis slímug af elskulegheitum. Þessvegna kemur hið góða, gilda, alíslenska orð hlandfor ekki til greina.

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Mig vantar orð

 1. ——————————————-
  er einfalt orð eins og aumingi ekki nógu gott fyrir hana?

  Posted by: inga hanna | 12.07.2007 | 16:11:38

  ——————————————-

  Æj hvað ég skil þig, ég reyni sjálf að forðast það að nota dýrðarkenningar sem skammaryrði en það er fjandanum erfiðara. Sting upp á þú talir bara um litlugunnu sem smásálina.

  Posted by: Unnur María | 12.07.2007 | 19:05:02

  ——————————————-

  Smásálarojminginn kannski?

  Posted by: Eva | 12.07.2007 | 19:39:35

  ——————————————-

  Smásálarojmingi er gott orð! Til áhrifaauka mætti svo prjóna inn í það þegar brúka þarf almennilega munn, sbr. t.d. „smásálaraumingjaónefnan toppaði sig algerlega síðustu helgi“.

  Posted by: Unnur María | 12.07.2007 | 19:51:28

  ——————————————-

  Drulluháleisti er í miklu uppáhaldi hjá mér…

  Posted by: Hulla | 13.07.2007 | 11:04:40

Lokað er á athugasemdir.