Út vil ek

Ég er víst að fara út á lífið. Ein. Allir sem ég myndi venjulega fá til að koma með mér eru annaðhvort að heiman, ástfangnir, að vinna eða að hamast við að skipuleggja byltingu. Ég verð vessgú annaðhvort að kynnast einhleypu fólki eða hanga ein öll fríkvöld það sem eftir lifir sumars og það er ekki nema hálfnað enn. Ég er virkilega að leggja mig fram um að vera roslega jákvæð. Af hverju í fjandanum byrjar þetta frábæra ‘líf’ aldrei fyrr en um miðja nótt?

Annars er mér engin vorkunn. Það er svo mikil óregla á mér þessa dagana að ég man bara ekki annað eins tímabil síðan ég var að vinna á veitingahúsi fyrir 4 árum og þá oft langt fram á nætur. Ég hlýt allavega að geta haldið mér vakandi til 2.

 

Bara að gá…

Birta: Heldurðu að geti verið að kynhvötin í okkur sé dauð?
Eva: Nei, ég hef nú enga trú á því, þetta er líklega bara lægð.
Birta: Endast lægðir virkilega svona lengi?
Eva: Það hlýtur að vera. Eða ert þú kannski með girndarauga á einhverjum?
Birta: Nei. Alls ekki. Heldurðu að þetta sé eðlilegt?
Eva: Æ bíddu bara. Eftir nokkra daga eða í mesta lagi nokkrar vikur verðurðu farin að kvarta undan því að við séum með óeðlilega mikla kynhvöt. Það er áreiðanlega normalt að hafa ekki áhuga í nokkrar vikur.Birta: Við ættum samt kannski að ganga úr skugga um það? Til öryggis.
Eva: Hvaða öryggi væri í því?
Birta: Bara þú veist. Vera öruggar um að við séum ekki búnar að missa áhugann endanlega. Við þyrftum ekkert að láta vaða, enda myndi ég nú ekki nenna því. Ég meina bara svona að gá hvort er hægt að koma okkur til. Athuga hvort við erum orðin uppþornuð piparjúnka.
Eva: Njaaat… við nennum nú ekki að fara heim og mála okkur og standa svo í einhverju eymdar hösli á börum borgarinnar fram eftir nóttu, bara svona í tilraunaskyni. Það er lágmark að hafa áhuga til að leggja það helvíti á sig. Hvað þá að ætla að hætta í miðju kafi. Hvaða karlmaður heldurðu að sætti sig við það?

Birta: Hmmm… Ég er að hugsa… Ungir menn eru hlýðnir. Kannski ekki við lögin en áreiðanlega í rúminu. Við gætum tekið einn og baðað hann.
Eva: Nei góða mín, við erum ekki að fara að forfæra einhvern anarkistahvolp, bara til að gá hvort kynhvötin í okkur sé dauð. Ekki einu sinni þótt okkur tækist að reka hann í sturtu fyrst og svo heim áður en nokkurt fallerí nær fram að ganga.
Birta: Nei það er líklega rétt. Líklega ættum við bara að fara heim að sofa.

 

Kornflex vikunnar

Byltingin: Mamma, má ég fá blómavír hjá þér?
Mamman: Alveg sjálfsagt.
Byltingin: Heyrðu, hvað heldurðu að Össur Skarphéðinsson sé þungur?
Mamman: Ég hef nú bara ekki vigtað hann nýlega, af hverju ertu að spá í það?
Byltingin: Ég er bara að spá í hvort þrefaldur blómavír haldi honum.

Bara tengja

Og auðvitað elskan mín, auðvitað tekur maður mark á aðvörunarljósinu, staldrar við og athugar málið. En rauða ljósið merkir ekki endilega að tækið sé ónýtt. Stundum er það bara merki um að þurfi að tengja einn pínulítinn vír.

Hnútur

Fyrr eða síðar verður maður að taka á sig rögg og gera það sem maður þarf að gera. Leysa hnútinn. Fyrr eða síðar, bara ekki í dag. Það er eitthvað svo erfitt að leysa hnúta á meðan maður er með hnút í maganum. Þótt maður viti að hann hjaðnar um leið og maður er búinn að leysa hina hnútana.

Vits er þörf

Ég er satt að segja farin að halda að ranghugmyndir um orkusteina séu að verða álíka stórt vandamál og blessaður kristindómurinn. Og of margir sem kæra sig hreint ekki um að maður leiðrétti vitleysuna og útskýri hvers vegna sumir steinar virka fyrir sumt fólk

Orkusteinabullið

Þegar ég opnaði Nornabúðina hélt ég að aðeins mjög þröngur hópur nýaldarsinna tryði á svokallaða orkusteina. Ég hélt bara að almenn eðlisfræðiþekking dygði til þess að uppræta þá hugmynd að grjót búi yfir einhverri sérstakri ‘orku’, hvað þá að nærvera ákveðinna steinda lækni sjúkdóma. Halda áfram að lesa

Þjóðhátíð hvað?

Þjóðhátíð? Leit ég rétt á dagatalið? Sé ekki betur en að þetta sé fjölmenningarhátíð. Tailensk tónlist. Kung fu. Dansar frá Balkanskaga. Á Ingólfstorgi er ein kona í íslenskum búningi. Þjóðhátíðarmatseðlar veitingahúsanna bjóða upp á japanska sósu með lambinu, spænska fiskrétti og cruncy cashnew með einhverju sem ég kann ekki að bera fram. Halda áfram að lesa

Gleðilegan 16. júní

Skrattinn er ekki ennþá laus. Ekki ennþá.

Við fáum gamla jaxla úr samtökum herstöðvarandstæðinga í mat í kvöld. Ég reikna með að fagna þjóðhátíðardeginum með bylingarelexír og ættjarðarsöngvum fram eftir nóttu.

Hvort það losar tappann úr sauðarleggnum eða kýlir hann inn, það verður bara að koma í ljós.

 

Andvaka

Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum.
Birta: Andskotakornið. Ég var að vona að tappinn væri að losna úr Þvagleggnum.
Eva: Í alvöru, það er eitthvað í aðsigi, ég er með verk í hjartanu.
Birta: Kannski er það bara líkamlegt. Of mikið kaffi?
Eva: Nei, það er Skrattinn.
Birta: Við þurfum að sofa.
Eva: Við þurfum að troða tappanum í legginn.
Birta: Á morgun kannski. Við getum ekki tekið áhættuna á að hreyfa við honum núna.

Eva: Af hverju er ég í rusli? Af hverju núna?
Birta: Skiptir það nokkru máli? Geturðu ekki bara hætt að vera í rusli og þar með hætt að pæla í því?
Eva: Ég held að tappinn sé að losna úr sauðarleggnum. Ég held það í alvöru.

Seim óld

-Hvað skiptir þig mestu máli í fari konu? spurði ég. Hann vissi það ekki.

Yfirleitt vita þeir það ekki. Þeir vita hinsvegar nákvæmlega hvað skiptir máli þegar þeir velja sér bíl eða mótorhjól. Það er vegna þess að bílar og mótorhjól eru í augum flestra manna dýrmætari en konur. Sem er skiljanlegt þar sem konur eru ókeypis og sjá sér oftast fyrir eldsneyti sjálfar. Og sjá sjálfar um að dekra við sig.

Ég vil láta taka upp brúðkaup í bókstaflegri merkingu. Þ.e. maðurinn þarf að borga brúði sína með peningum. Helst mjög miklum peningum. Eða það sem væri betra; þeir fengju ekki að aka bíl eða mótorhjóli fyrr en þeir væru búnir að læra að elska konuna sína.

Þreytan er að hverfa en ég er samt ennþá með bakpoka undir augunum.
Á morgun þarf ég að bíta í mig kjark og dug til að byrja á verkefni sem hefur setið á hakanum í rúmar 6 vikur.

Svo fallega meint

Blíða greiddi hárið á mér fyrir andlitið og mældi út nýja toppsídd.
-Sjáðu Kolla, heldurðu að færi henni ekki betur að klippa toppinn svona?
-Jú, sko með þetta andlitsfall, þá yrði hún rosleg týpa með því að taka hann meira hingað
, sagði Kolla. Og Blíða flýtti sér að kippa hárinu á mér í sömu skorður aftur.
-Drottinn minn Kolla, sagði hún, það síðasta sem hún þarf er að verða meiri týpa.

Hún aftýpaði mig af bestu getu og hefði líklega stungið upp á því að eyða blogginu mínu, eða allavega taka það úr birtingu, ef hún hefði talið minnstu líkur á að ég hefði nægan áhuga á karlkyninu til að normaliserast út á þokkalegt eintak.

Fólk vill manni yfirleitt svo óskaplega vel.

 

Riddarar söngsins í kvöld

Hvítum, fögrum, heitum, mjúkum handleggjunum
vil ég heldur vafinn þínum
vera en hjá Guði mínum.

Er hægt að yrkja svona holdlega án þess að jaðra við klám? Páll Ólafsson gat það allavega og ég hugsa að jafnvel ég hefði umborið manni eins og Páli stöðugan drykkjuskap. Það er hægt að fyrirgefa ýmislegt út á ástarkveðskap sem svarar einni vísu á dag, öll þessi ár og enginn sem les Pál efast um að hann hafði töluvert meiri mætur á konunni sinni en Gvöði. Hvernig gæti nokkur kona komist hjá því að dýrka mann sem elskar hana af svo mikilli ástríðu, umhyggju og hispursleysi? Ég hugsa að ég þyrfti ekki nema eitt af ástarjátningarljóðum Páls til að segja já elskan við öllum tillögum hans það sem eftir væri ævinnar.

Ég ætla í Grasagarðinn í kvöld. Rómantíkin í mér liggur í dróma og ef eitthvað er betra við slíku ástandi en að lesa kvæði Páls Ólafssonar, þá er það að heyra þau sungin. Ég reikna hvort sem er ekki með þeim möguleika hitta nokkurntíma á eintak sem bæði hefur hugrekki til að elska mig og er ennþá á lífi.

Klafi

Undanfarnar vikur hef ég efast um mátt minn og megin og í morgun vaknaði ég með burn out syndrom. Ég er svo þreytt að ég hálf dróst fram til að bursta tennurnar og skreið svo aftur upp í rúm. Ég er enn í rúminu, ekki einu sinni búin að laga kaffi og klukkan langt gengin í 9. Ég er ekki veik og það hefur ekki verið óhóflegt vinnuálag á mér. Mig bara langar ekki á fætur, sem er mjög óvenjulegt fyrir mig því yfirleitt vakna ég mjög glöð þótt ekkert merkilegt sé fyrirhugað. Halda áfram að lesa