Einu sinni kenndi ég dreng sem var bæði skarpur og skemmtilegur. Hann hafði óvenjulegar skoðanir og kom oft með frumleg sjónarhorn inn í umræðuna. Eins og títt er um málglatt fólk átti hann til að fara með fleipur en honum gramdist mjög að þurfa að viðurkenna að hann gæti haft rangt fyrir sér.
Ég skildi þennan dreng ákaflega vel. Það er gaman að hitta naglann á höfuðið, og það getur gefið mikilsháttar egókikk að sannfæra aðra um eitthvað sem er algerlega á skjön við það sem þeir álitu fyrir. Mér finnst líka miklu betra að ungt fólk (allt fólk ef því er að skipta), hafi rangar skoðanir en engar. Ég hafði gaman af að rökræða við hann en engu að síður þurfti ég stundum að stoppa vininn af. Þetta fór oft út í þras, sem gat verið truflandi fyrir skólastarfið og hann var ekki alveg búinn að læra að stundum hefur klárasta fólk einfaldlega rangt fyrir sér og þá er ekkert vit í því að halda vitleysunni áfram. Stundum er bara skynsamlegast að kyngja stoltinu og viðurkenna að manni hefur skjátlast, gleðjast yfir því að misskilningurinn hafi verið leiðréttur og ef maður finnur hjá sér hvöt til að láta ljós sitt skína að finna einhvern sem er haldinn þessum sama misskilningi og reka bulið ofan í hann, með stolti sem einhver innistæða er fyrir.
Einhverju sinni var bekkurinn að vinna enskuverkefni sem gekk út á það að raða dýraheitum í flokka. Minn flokkaði krókódíl sem spendýr. Það hefur nú sjálfsagt bara verið hugsunarleysi en hann hafði ætlað að skila villulausu verkefni og tók leiðréttinguna heldur óstinnt upp. Hann maldaði í móinn og ég sá fram á að tíminn færi í tilgangslausar þrætur um undirstöðu í dýrafræði i stað enskukennslu ef ég léti leiða mig út í þessa umræðu. Ég sagði honum því að ég ætlaði nú ekkert að fara að þrasa um þetta við hann, spendýr fæddu lifandi afkvæmi og hefðu þau á spena og þ.a.l. væru krókódílar ekki spendýr, punktur. Og þá kom þessi gullvæga setning;
-Eva, þetta er bara mín skoðun. Ég virði þína skoðun, hversvegna getur þú ekki líka virt mína?
Stundum, einkum þegar ég lendi í samræðum um orkusteina, finnst mér eins og ég sé aftur farin að kenna unglingum, sem átta sig ekki alveg á muninum á skoðun og staðreynd. Það er með hreinustu ólíkindum hve útbreidd sú hugmynd er að steinar gefi frá sér orku og þegar ég held því fram að fallega steina megi nota sem heillagripi en það sé hinsvegar firra að fólk fái nokkra orku úr þeim, þá lítur viðmælandinn á mig særðu augnaráði og segir; þetta er bara mín skoðun.
Því miður er hann yfirleitt ekki 14 ára, og heldur ekki svo klár að vonir standi til að hann læri bráðum að snjallt fólk vill frekar læra það sem þarf til að hafa rétt fyrir sér en að fá að hafa ranghugmyndir sínar í friði.
——————-
kannski nafnið á steinunum fái fólk til að halda að í þeim búi orka.
Posted by: baun | 24.06.2008 | 10:00:55