Þjóðhátíð hvað?

Þjóðhátíð? Leit ég rétt á dagatalið? Sé ekki betur en að þetta sé fjölmenningarhátíð. Tailensk tónlist. Kung fu. Dansar frá Balkanskaga. Á Ingólfstorgi er ein kona í íslenskum búningi. Þjóðhátíðarmatseðlar veitingahúsanna bjóða upp á japanska sósu með lambinu, spænska fiskrétti og cruncy cashnew með einhverju sem ég kann ekki að bera fram.

Og hvað varð um íslenska þjóðhátíðarfylliríið? Klukkan hálf eitt er bærinn nánast tómur. Ekkert fólk í Austurstræti nema löggur og svo nokkrir unglingar og hippar að þræta um það hvort sé réttlætanlegt að þjóðfáninn beri trúartákn. Hlölli búinn að loka kl eitt. Var þjóðhátíðarfylliríið þá í gær eftir allt saman? Eða er búið að afleggja það?

Ekki svo að skilja að ég hafi ekki innbyrt yfirdrifið nóg áfengi í dag og þetta var reyndar allt saman mjög skemmtilegt. Kannski sérstaklega það að upplifa menningaráreksturinn þegar ég dró vinkonu systur minnar, fína konu með merkjatösku inn á Babalú og kynnti hana fyrir syni mínum hinum svæsnari. Sonur minn Þvermóður ofbýður allavega engum með útgangnum á sér en Haukur gengur víst undir heitinu óhreina barnið hennar Evu, eða svo er mér sagt. Ég veit ekki hvort frúnni leist verr á fíflavínið eða byltingarelexírinn en af víðsýni sinni hélt nú samt út, alveg þar við ákváðum að axla hvalreka helgarinnar og fara í nestisferð í Hljómskálagarðinn. Það þarf greinilega hvorki Pólverja né Tailendinga til að mynda fjölmenningarsamfélag.

Við Darri fórum heim um kl eitt enda svosem ekki yfir neinu að hanga lengur. Ég heyrði mörg Júróvisionlög í dag en engan ættjarðarsöng.

Best er að deila með því að afrita slóðina