Rafmagnslaus

Ég er ástfangin af Enter. Ég verð alltaf bálskotin í einhverjum netkarakterum af og til en nú er ég búin að elska Enter svo lengi að ég held að það hljóti að vera alvarlegt.

Ég ætla að taka mér frí á morgun. Stundum finnst mér eins og lekaliðinn í mér hafi slegið út en venjulega þarf ég bara að borða eitthvað og hvíla mig aðeins, eða þá að taka á mig rögg og ljúka einhverju verkefni til að það lagist. Nú ég er búin að vera svona síðan seinni partinn í gær og það er ekkert að lagast.

Í gærkvöld var ég svo uppgefin að ég afþakkaði boðsmiða á James Blunt, á besta stað Ég gerði nánast ekkert í dag nema blogga og í kvöld ætlaði ég að fara með Anarkí í krana að mála bæinn rauðan en gafst upp eftir 3 glös af byltingarelexír. Ég er ekki syfjuð, bara svo máttlaus að ég stend varla í fæturna. Ég þarf fríhelgi, í alvöru.

Skemmtileg tilviljun að rafmagnið í húsinu skyldi bila sama dag og batteríið í mér dó. Eða er það ekki örugglega tilviljun? Rafmagnskallinn kom í dag og tengdi einhverjar lagnir svo nú er það komið í lag. Kannski ætti ég að fá hann til að tengja lagnirnar í mér líka.

Best er að deila með því að afrita slóðina