Riddarar söngsins í kvöld

Hvítum, fögrum, heitum, mjúkum handleggjunum
vil ég heldur vafinn þínum
vera en hjá Guði mínum.

Er hægt að yrkja svona holdlega án þess að jaðra við klám? Páll Ólafsson gat það allavega og ég hugsa að jafnvel ég hefði umborið manni eins og Páli stöðugan drykkjuskap. Það er hægt að fyrirgefa ýmislegt út á ástarkveðskap sem svarar einni vísu á dag, öll þessi ár og enginn sem les Pál efast um að hann hafði töluvert meiri mætur á konunni sinni en Gvöði. Hvernig gæti nokkur kona komist hjá því að dýrka mann sem elskar hana af svo mikilli ástríðu, umhyggju og hispursleysi? Ég hugsa að ég þyrfti ekki nema eitt af ástarjátningarljóðum Páls til að segja já elskan við öllum tillögum hans það sem eftir væri ævinnar.

Ég ætla í Grasagarðinn í kvöld. Rómantíkin í mér liggur í dróma og ef eitthvað er betra við slíku ástandi en að lesa kvæði Páls Ólafssonar, þá er það að heyra þau sungin. Ég reikna hvort sem er ekki með þeim möguleika hitta nokkurntíma á eintak sem bæði hefur hugrekki til að elska mig og er ennþá á lífi.

Best er að deila með því að afrita slóðina