Anna: Ég sá Jesus Crist Superstar og allt í einu áttaði ég mig á því að eftir 50-100 ár verða fígúrur eins og Ophra Winfrey og Dr. Phil tekin í dýrðlingatölu. Fólk er svo sjúkt í persónudýrkun sinni.
Eva: Það er svosem skiljanlegt að fólk dýrki gaur sem breytti vatni í vín. Halda áfram að lesa
Greinasafn fyrir flokkinn: 7. hluti Pegasus
Uncanny
Einu sinni elskaði ég mann svo heitt að ég lokaði vefbókinni minni til að geðjast honum. Ef einhver annar hefði sagt mér að hann hyggðist gera það sama hefði ég sagt viðkomandi að það væri sjúkt og rangt og að sá sem væri tilbúinn til að þyggja slíka fórn væri hennar sennilega ekki verður. Ég gerði það samt. Reyndar fórnaði ég líka heimili mínu og fjárhagslegu öryggi áður en hann gaf skít í mig en það var nú ekkert eins erfitt. Halda áfram að lesa
Enn eitt lúxusvandamálið
Óttalega er nú bjánalegt hvað mér finnst alltaf kvíðvænleg tilhugsun að koma jólunum í geymslu. Það hefur aldrei verið hið minnsta vandamál og sjaldan tekið langan tíma. Reyndar hefur það aldrei verið minna mál en í þetta sinn, þar sem ég hef aldrei verið í minni íbúð og þ.a.l. aldrei með minna skraut, hvorugur strákanna setti neitt upp í sínu herbergi og við settum ekki upp jólatré (enda hvergi almennilegt pláss fyrir það.)
Þetta er ein ljósakeðja, aðventukrans og einn kassi með kannski 10-15 hlutum. Auk þess er Darri heima og þótt hann sé ekki haldinn taumlausri afjólunarástríðu verður ekkert mál að fá hann til að hjálpa mér að taka niður háaloftsstigann og setja hann upp aftur en það er erfiðasti hlutinn af þessu prógrammi. Ég reikna með 12 mínútum í verkið. Samt líður mér eins og ég sé að fara í Bónus.
Í nærveru sálar
Þótt ég sé yfirhöfuð ekkert hrifin af því að vera gagnrýnd (þeir sem þykjast vera ánægðir þegar þeim er bent á vankanta sína eru jafn miklir lygarar og þeir sem segjast fagna samkeppni eða lögreglurannsókn) þá gengur mér yfirleitt nokkuð vel að takast á við geðshræringuna sem óhjákvæmilega fylgir því að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig. Hitt er svo annað mál að óumbeðin gagnrýni er sjaldnast uppbyggileg en ég hef svosem aldrei verið í vandræðum með að svara fyrir mig. Mér finnst í raun auðveldara að takast á við ósanngirni og dónaskap en verðskuldaðar útásetningar, líklega af því að í þeim tilvikum lít ég svo á að það sé gagnrýnandinn eigi við stærri vandamál að stríða en ég. Halda áfram að lesa
Annáll ársins 2007
Um áramót er ég vön að líta yfir farinn veg og tíunda afrek síðasta árs. Það er frekar fljótlegt að þessu sinni. Helsta afrek mitt árið 2007 er það að hafa tekist að halda úti vefsíðu sem er uppfærð að meðaltali einu sinni á dag, þrátt fyrir að hafa ekki gert nokkurn skapaðan hlut sem er upprifjunar virði.
Jú annars, eitt kannski. Ég framdi svartagaldur á Austurvelli og síðan hafa verið stöðugar jarðhræringar í Upptyppingum.
Áramótakveðja
Nýtt ár er upp runnið og óska ég landsmönnum öllum og öðrum lesendum gríðarlegrar hamingju og skemmtunar á nýju ári. Sérstaklega vona ég að bekkjarsystkini mín úr Þelamerkurskóla sem skipulögðu bekkjarmótið í haust verði fyrir margháttuðu happi á árinu þar sem umrædd samkoma hafði hinn mesta happadrátt í för með sér.
Áramótaheit mín að þessu sinni eru tvö.
1 Ég ætla að hætta að hugsa fyrir syni mína. Að sjálfsögðu ætla ég áfram að hafa skoðanir á öllu sem þeir gera og gera ekki og skipta mér af eftir smekk og þörfum. Ég ætla hinsvegar að hætta að minna þá á að skila bókasafnsbókum, kaupa afmælisgjafir, mæta í matarboð og hengja úr þvottavélinni.
2 Ég ætla að finna leiðir til að vera eins góð við Pegasus minn og hann á skilið. Það verður öllu erfiðara.
Uppskrift að fullkomnum degi
Ég er búin að finna uppskrift að fullkomnum degi. Ekki fullkomnu lífi samt því maður yrði nú fljótt að eymingja ef maður hefði alla daga svona. Tvisvar eða þrisvar á ári ætti að duga. Halda áfram að lesa
Klikk
Skrýtið, og þó, kannski er það ekkert svo skrýtið.
Ég býst við að langsveltur maður sem sest að veisluborði sjái næringuna á undan lúxusnum. Hann áttar sig á því að allt er flott og fullkomið en hann treður sig fyrst út til að seðja sárasta hungrið og fer svo að dást að borðbúnaðinum og serviettunum og pæla í því hvernig laxasneiðunum er raðað í blómamynstur. Halda áfram að lesa
Innkaup
Ég er með vott af stórmarkaðafóbíu. Kemst svosem alveg í gegnum Bónus á föstudegi án þess að fríka út en líður alltaf eins og einhver ægileg ógn sé í nánd. Reyndar hef ég komið mér sem mest undan verslunarferðum síðustu tvö árin en þá sjaldan að ég neyðist til að fara í búð breytir það ótrúlega miklu fyrir mig að hafa einhvern með mér. Halda áfram að lesa
Scrabble
Eva: Anna. Ég get búið til orðið ‘sáðfruss’.
Anna: Ég tek það gilt. Ég hef séð svoleiðis.
Gjafalisti
Óli Gneisti er með dálítið sniðugt á vefsíðunni sinni. Lista yfir allt sem hann langar í. Þetta gerir fólki sem ætlar að færa honum gjöf auðvitað mun auðveldara fyrir. Ég hef oft byrjað á svona lista sjálf en þar sem mér dettur ekkert í hug nema framlög til líknarmála, bílaþvottur eða smurþjónusta gefst ég alltaf upp. Mitt fólk tekur mig nefnilega ekki alvarlega þegar ég nefni það sem virkilega gleður mig. Halda áfram að lesa
Tilbrigði
Tristan litli þvertekur fyrir að kunna bókmenntastórvirkið Búddi fór í bæinn og Búddi fór í búð. Hann söng hinsvegar fyrir mig með sama lagi, Batmann fór í bæinn. Og reyndar líka með svipuðu lagi; Kertasníkir fór til kanínu.
Allt fullkomið
Walter og Tristan bónuðu bílinn minn. Walter sá um að pússa rúðurnar og Tristan gekk á eftir honum og athugaði hvort kæmu nokkuð fingraför á rúðurnar eftir þrifin.
Mörg stig
Ég vissi alveg að ég væri búin að kynnast besta manni sem ég hef nokkurntíma orðið hrifin af en lengi getur best bestnað. Hann bauðst til að strekkja fyrir mig viftureimina í sjálfrennireið minni og það þótti mér vænt um. Ég las smávegs fyrir börnin og lék við þau á meðan en fór svo niður í bílskúr til að sjá hvernig verkinu miðaði. Nema hvað, hann var þá langt kominn með að þrífa gripinn í þokkabót. Mér finnst ekkert leiðinlegra en að þrífa bíla og það hefur enignn gert neitt svona fyrir mig áður.
Ekki nóg með það. Ég ætlaði að sýna þá lágmarks viðleitni að tæma uppþvottavélina en hann var þá búinn að því líka. Ekki veit ég hvernig það gat gerst án þess að ég tæki eftir því.
Hversu fokking demit æðislegur getur einn maður verið?
Húslestur
Miriam er dugleg að læra íslensku. Smábarnabækurnar hafa reynst vel. Hún er búin að lesa Stubb og Láka, Kol litla og bókina um litina og nú er hún að lesa Stúf. Haukur virðist hafa alveg jafn gaman af að láta lesa fyrir sig eins og þegar hann var fjögurra ára.
Kurteisi
–Takk fyrir komuna, sagði Tristan litli þegar þau voru að fara heim í gærkvöld.
Minnir mig á það þegar Keli og Lindita komu með telpurnar sínar í búðina til mín. Emma fékk litla brúðu og þegar ég rétti henni hana sagði hún -segðu takk. Vel uppalin börn fá snemma á tilfinninguna hvenær er viðeigandi að sýna kurteisi, þótt nákvæm útfærsla á reglunni komi ekki alveg strax.
Ég vaknaði ekki fyrr en hálf tólf í dag en nú er ég líka að verða úthvíld. Miriam var rétt í þessu að færa mér kaffibolla. Yndislegt.
Jólakveðja
Innilegustu jólakveðjur til allra landsmanna nær og fjær og þó einkum til dyggra lesenda.
Etið, drekkið og verið glöð og fremjið margar aðrar dauðasyndir um jólin.
Allt með sykri og rjóma
Matur. Meiri matur. Grilljón pakkar og svo fleiri.
Afi og Miriam sitja í sófanum og lesa saman prinsessubókina sem Tara fékk í jólagjöf.
Darri og Walter liggja á hnjánum á gólfinu og leika sér fallega að „brautalestinni“ hans Tristans litla. Tara, sem hefur annars einokað Miriam allt kvöldið leikur sér með þeim og hérna kemur litli stubbur akandi nýja vörubílnum sínum inn í eldhús.
Haukur kemur af vaktinni um miðnætti. Gúllar í sig bæði humarsúpu og kjöti í tilefni dagsins. Tara loksins orðin svöng en hvorugt barnanna kom miklu niður um sexleytið og Haukur sker handa henni væna flís af feitum sauð. Ég þeyti meiri rjóma.
Jól.
Fullkomið
Ég á fullkomið heimili (nema stofuborðið mitt er bilað en Pegasus ætlar að laga það í fyrramálið þvi hann er svo góður lagari) og fullkomin börn (fullorðin + uppkomin = fullkomin?) Við ætlum að halda jól með fjölskyldu Walters, nota heimilið hans og siðina okkar. Ég fór til Walters til að útbúa möndlugrautinn og krydda kjötið, svo allt sé nú nákvæmlega eftir mínu höfði, og þegar ég fór að heiman var all subbulegt jólaföndur í vinnslu. Ég var að vísu búin að segja þeim að ég vildi að allt yrði fullkomið þegar ég kæmi heim og ég vissi að þau myndu taka til og allt það en ég reiknaði samt ekki með því að það yrði eins og ég hefði gert það sjálf.
Fæturnir á mér eru skælandi af þreytu en nú er ég komin í frí og það er svo fínt heima hjá mér að ég tími varla að fara að sofa.
Hefði verið svo tilvalin jólagjöf
Pegasus: Ég keypti mér reykvél.
Stutt þögn
Eva: Jahá. Og hvað í ósköpunum ætlar þú svo að gera við reykvél?
Pegasus: Bara. Æ, þú veist maður er kannski bara heima í rólegheitum. Búinn að panta pizzu og svona. Og mér datt í hug að þá gæti verið kósý að hafa svona reyk. Halda áfram að lesa