Uppskrift að fullkomnum degi

Ég er búin að finna uppskrift að fullkomnum degi. Ekki fullkomnu lífi samt því maður yrði nú fljótt að eymingja ef maður hefði alla daga svona. Tvisvar eða þrisvar á ári ætti að duga.

  1. Vaknið um miðja nótt og gjörið dodo. (Á þessum árstíma er það auðvelt þar sem flugeldaáhugamenn sjá gjarnan um að ræsa allt hverfið á ólíklegustu tímum.)
  2. Sofið eins lengi og ykkur er mögulegt, vaknið þá og gjörið dodo í ýmsum tilbrigðum fram að hádegi.
  3. Takið nú til við að éta allt sem tönn á festir. Leggið áherslu og feitt, reykt og saltað og allt með sykri og rjóma að sjálfsögðu.
  4. Brjótið átið upp rétt fyrir offylli með rólegri innandyraafþreyingu svosem bóklestri, tölvuleikjum, krossgátum og kvikmyndaáhorfi.
  5. Ef óhófleg hreyfiþörf gerir vart við sig, gjörið dodo.
  6. Reynið að halda átinu sem óslitnustu yfir daginn. Jafnvel þótt maður sé pakksaddur er yfirleitt hægt að troða í sig smáköku eða konfektmola án þess að verða illt. Gangi það ekki má innbyrða hitaeiningar í fljótandi formi. Rjómalíkjör og púrtvín fara t.d. einkar vel með innantómri afþreyingu.
  7. Haldið áfram að troða í ykkur fram yfir miðnætti, hættið því þá í bili og gjörið dodo fram eftir nóttu.

Rétt er að taka fram að Sápuóperan tekur enga ábyrgð á hugsanlegri sjúkrahússvist eftir slíkan dag og er lesendum eindregið ráðlagt að lifa slíkan dag í samráði við lækni.

 

One thought on “Uppskrift að fullkomnum degi

  1. ————————————————–

    Ertu sem sagt hætt að vera væmin? Gleðilegt og gott ár kæra Eva.

    Posted by: Parisardaman | 31.12.2007 | 12:42:30

    —   —   —

    Eins og talað út úr mínu hjarta 🙂 Gleðilegt ár og takk fyrir öll skemmtilegu skrifin á árinu! Ég skrifa ekki alltaf athugasemdir en ég les alltaf.

    Posted by: Sigga | 31.12.2007 | 13:00:31

     

Lokað er á athugasemdir.