Klikk

Skrýtið, og þó, kannski er það ekkert svo skrýtið.

Ég býst við að langsveltur maður sem sest að veisluborði sjái næringuna á undan lúxusnum. Hann áttar sig á því að allt er flott og fullkomið en hann treður sig fyrst út til að seðja sárasta hungrið og fer svo að dást að borðbúnaðinum og serviettunum og pæla í því hvernig laxasneiðunum er raðað í blómamynstur.

Síðustu þrjá mánuði hef ég eytt meiri tíma í húsi Pegasusar en heima hjá mér. Og auðvitað tók ég alveg eftir því að húsið er flott og fullkomið, maður þyrfti að vera blindur til að sjá það ekki. En það er fyrst núna sem ég er að meðtaka smáatriðin.

Ef ég hefði verið beðin að lýsa húsinu fyrir hálfum mánuði hefði ég sagt að það væri risastórt og fokkans flott. Ég hefði getað lýst rúminu hans (enda hef ég varið flestum stundum þar) og sagt til um litinn á eldhússinnréttingunni og sófasettinu í arinstofunni. Ég hefði vitað að það er lazyboy sófasett í aðalstofunni, en ég hefði líklega sagt að stólarnir væru tveir (þeir eru fjórir). Ég hefði getað lýst handriðinu, sófaborðinu, rósettunum í loftinu (sem eru úr gipsi en ekki frauðplasti) og ljósakrónunum af því að þessir hlutir eru bara listaverk sem höfða sérstaklega til mín en ég hefði sagt að rósetturnar væru tvær og báðar í stofunni en hið rétta er að þær eru fimm. Ég vissi að kæliskápurinn er með klakavél en ég hefði ekki munað að hann er tvöfaldur. Ég hefði sagt að garðurinn væri stór og að það væru mörg herbergi í húsinu og að skrifstofan væri full af viðurkenningarskjölum og prófskírteinum. Og stjörnukíki. Og bílskúrinn fullur af bílum og hjólum og allskonar. Ég hefði ekki getað lýst flísunum á baðherberginu (engu þeirra) gólfefnunum, höldunum á eldhússskápunum, lömpunum í svefnherberginu, speglinum á aðalbaðherberginu, ljóskerjunum í garðinum, símahillunni, útidyrahurðinni og ýmsum smáhlutum. Efri hæðina þekki ég svotil ekkert ennþá en ég er allt í einu núna að kveikja á því að þar er fullt af ónýttum og lítt nýttum herbergjum.

Ég hef verið svo upptekin af því að drekka í mig ástúð og blíðu að heilinn í mér hefur hreinlega ekki skrásett það sem blasir þó greinilega við. Ég er semsagt núna fyrst, eftir þriggja mánaða samband að meðtaka það að ég er með manni sem er rúmlega vel stæður. Ég vissi, svona vitrænt séð að hann byggi svosem ekki við neinn skort en það er einhver nýr skilningur að smella inn. Það allra skrýtnasta er að það hræðir mig ekki.

 

Best er að deila með því að afrita slóðina

One thought on “Klikk

 1. ————————————————-

  Rósetturnar eru reyndar sex. Ég sé það núna.

  Posted by: Eva | 30.12.2007 | 12:35:08

  —   —   —

  þetta er greinilega prins (ég er búin að hlusta og horfa amk fimm sinnum á Öskubusku síðustu daga). Þú hefur fundið prins. Til hamingju með það.

  Posted by: Parisardaman | 30.12.2007 | 15:20:02

  —   —   —

  jamm, til hamingju með þennan ágæta mann.

  Posted by: baun | 30.12.2007 | 21:38:19

  —   —   —

  Hvers vegna verða stelpur/konur alltaf svona væmnar þegar þær verða ástfangnar? Ekki misskilja mig. Ef einhver átti það skilið að finna prinsinn þá var það Eva. Ég átta mig bara ekki á því hvers vegna lýsingarnar enda alltaf í Barby og Ken dæminu þegar konur finna ástina. Ekki það að það sé neitt slæmt við Barby og Ken. Það væri óskandi að allir væru eins ástfangnir og þau.

  Posted by: Þorkell | 31.12.2007 | 7:01:32

  —   —   —

  Hvað á fólk ekki að misskilja Þorkell? Þú ert greinilega að ergja þig á því hvað ég er væmin þessa dagana en segir um leið að ég hafi átt það skilið að „finna prinsinn“. Er það semsagt fínt að ég sé ástfangin en frekar slæmt að ég skuli láta það í ljós eða hvern fjandann ertu eiginlega að reyna að segja?

  Annars eru það ekkert bara konur sem verða væmnar þegar þær verða ástfangnar. Karlar tala hinsvegar minna um tilfinningar almennt, hvort sem það eru rómantískar tilfinningar eða aðrar. Og þér að segja kemur þetta komment nú reyndar úr hörðustu átt. Þú ættir kannski, svona til að auðvelda sjálfum þér skilgreininguna á væmni, að kíkja aðeins á þinn eigin ástarkveðskap frá árunum áður en þú fórst til Albaníu.

  Posted by: Eva | 31.12.2007 | 10:09:03

  —   —   —

  LOL! Jú, það má bæta ungum rómantískum drengjum við listann 🙂

  Posted by: Þorkell | 31.12.2007 | 17:06:54

  —   —   —

  Ég get persónulega ekki séð hvar Eva hefur verið væmin á blogginu sínu þó hún skrifi fallega um draumaprinsinn sem hún er búin að finna. Það er nefnilega töluverður munur á að vera væmin og hafa tilfinningar.

  Til dæmis fyndist mér væmið að gefa einhverjum 20 bleika bangsa í tilefni af 20 ára brúðkaupsafmæli, á meðan mér finnst bara flott að gefa 20 rauðar rósir.

  Posted by: anna | 31.12.2007 | 17:47:53

Lokað er á athugasemdir.