Uncanny

Einu sinni elskaði ég mann svo heitt að ég lokaði vefbókinni minni til að geðjast honum. Ef einhver annar hefði sagt mér að hann hyggðist gera það sama hefði ég sagt viðkomandi að það væri sjúkt og rangt og að sá sem væri tilbúinn til að þyggja slíka fórn væri hennar sennilega ekki verður. Ég gerði það samt. Reyndar fórnaði ég líka heimili mínu og fjárhagslegu öryggi áður en hann gaf skít í mig en það var nú ekkert eins erfitt.

Í dag á þessi maður við alvarlegan heilsubrest að stríða og þarf líklegast að gangast undir skurðaðgerðir bæði á hjarta og heila. Það er eðli málsins afskaplega sorglegt og ég hugsa til hans með samúð en ég tek það ekki inn á mig. Ekki fremur en um væri að ræða einhverja nágranna sem komu í kaffi til móður minnar þegar ég var unglingur.

Mér finnst nánast óhugnanlegt að sé hægt að vera svona kaldur gagnvart einhverjum sem maður hefur elskað svona mikið en það er skárri valkostur en að liggja í sorg og sjálfsvorkunn. Það sem er ennþá ógeðfelldara er að til þess að hafa ástæðu til að aftengja svona snyrtilega, þarf maður fyrst að elska nógu mikið til vera reiðubúinn til að fórna sumu af því sem skiptir mann mestu máli og gefa annarri mannveru vald til að særa sig mjög djúpt. Mig langar ekkert sérstaklega í þann hluta af pakkanum.

Það er dálítið ógnvænlegt þegar álit einhvers annars á manni fer að skipta mann máli. Kannki sérstaklega af því að það ku víst bara vera heilbrigt.

Stundum finnst mér heilbrigt fólk vera mjög sjúkt.

Best er að deila með því að afrita slóðina