Í nærveru sálar

Þótt ég sé yfirhöfuð ekkert hrifin af því að vera gagnrýnd (þeir sem þykjast vera ánægðir þegar þeim er bent á vankanta sína eru jafn miklir lygarar og þeir sem segjast fagna samkeppni eða lögreglurannsókn) þá gengur mér yfirleitt nokkuð vel að takast á við geðshræringuna sem óhjákvæmilega fylgir því að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig. Hitt er svo annað mál að óumbeðin gagnrýni er sjaldnast uppbyggileg en ég hef svosem aldrei verið í vandræðum með að svara fyrir mig. Mér finnst í raun auðveldara að takast á við ósanngirni og dónaskap en verðskuldaðar útásetningar, líklega af því að í þeim tilvikum lít ég svo á að það sé gagnrýnandinn eigi við stærri vandamál að stríða en ég.

Það sem setur mig út af laginu eru þessi sjaldgæfu tilvik (7,9,13) þegar maður fær skömm í hattinn án þess að vita upp á sig neina sök en þó án þess að geta afgreitt viðkomandi sem asna. Ég man t.d. eftir manni sem varð virkilega sár út í bróður sinn fyrir að kynna sig sem ‘kvennagullið í fjölskyldunni’. Mér fannst mjög undarlegt að hann tæki þetta svona óstinnt upp þar sem hann var að sönnu óvenju myndarlegur og heillandi maður en hann hafði beðið nokkur stór skipbrot í ástamálum og hélt ranglega að bróðirinn væri að vísa til þess. Mér varð á orði að bróðirinn hefði nú líklega ekki gert sér grein fyrir því hvað hann væri viðkvæmur fyrir þessu, en komst síðar að því að ég hafði nánast sært hann til ólífis með því að segja að hann væri viðkvæmur.

Var bróðirinn ógætinn í orðavali? Nei, ég get ekki séð það en ég get samt skilið að einhver sem er á kafi í sjálfsmyndarkrísu snúist til varnar af litlu tilefni. Ég held reyndar að allir geri það einhverntíma. Hundleiðinlegt að verða fyrir því samt og ég hef ekki ennþá gert upp við mig hvort ég gerði eitthvað rangt með því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum í eins nærgætnum tón og mér framast var unnt. Reyndar fannst mér þá og finnst enn, veikleikamerki að geta ekki horfst í augu við eigin viðkvæmni/biturð/afbrýðisemi/örvæntingu eða hvað þær heita allar þessar tilfinningar sem eiga fullan rétt á sér (það eru óábyrg viðbrögð við þessum tilfinningum sem eru vandamál en ekki tilfinningarnar sem slíkar) en kvikindi nota jafnan til að gera lítið úr öðrum. Hvort var stærra vandamál, sú ónærgætni mín að nefna viðkvæmni hans eða viðkvæmni hans gagnvart eigin viðkvæmni? Hversu lengi á maður að tipla á tánum í kringum aðra sál, af því að einhver annar meiddi hana þegar hún var fimm ára?

Það getur reynst erfitt að halda jafnvægi á þessari fíngerðu línu á milli þess að taka tillit til viðkvæmrar sálar og að taka ábyrgð á tilfinningum annarra.

 

One thought on “Í nærveru sálar

  1. ——————————-

    held að maður verði bara að haga sér eins og manneskja, og aldrei að gera eða segja eitthvað gagngert til að særa aðra.

    við getum hvorki séð fyrir, né borið ábyrgð á, tilfinningalegum viðbrögðum annars fólks.

    Posted by: baun | 7.01.2008 | 17:20:14

Lokað er á athugasemdir.