Manninum ku víst vera eiginlegt að setja sér markmið. T.d. að ljúka doktorsprófi eða verða Ólympíumeistari. Ég hef líka markmið. Ég ætla að vera algjörlega laus við appelsínuhúð (fallegt orð yfir mörkögglaáferð) á afmælinu mínu. Allt útlit er fyrir að ég nái því löngu áður.
Kannski ætti ég að setja mér aukamarkmið svo ég koðni nú ekki niður í vesældóm og hégómaleysi. Ég gæti t.d. sett mér það markmið að hengja upp úr þvottavélinni áður en þvotturinn fer að mygla.
-Hæ?
-Já ég er vöknuð. Góðan dag.
-Ertu búin að taka eftir því að ég svaf hjá þér?
-Svafstu eitthvað, eða lástu bara og horfðir á mig slefa á koddann?
-Ég svaf. Steinsvaf. Og vaknaði hjá þér. Beittirðu einhverskonar galdri?
-Ég held að yfirleitt sé það nú ekki kallað galdur en ef það virkar þá er ég sátt.
-Fokk já. Það virkar.
-Þá vitum við hvað við þurfum að gera næst.
-Ég gæti lifað með því Eva. Ég gæti algjörlega lifað með því. Halda áfram að lesa
Sumir eru fæddir til eymdar. Þeir sem fæðast með alnæmi í stríðshrjáðu landi eiga ekki greiðan aðgang að ævarandi hamingju. En í flestum tilvikum á það við sem kona nokkur orðaði það svo vel að „eymd er valkostur“. Ég hef vel því fyrir mér hversvegna sumir kjósa að nema land í Eymdardal og setjast þar að. Maður hefði haldið að vistin þar væri nógu ömurleg til að enginn kysi hana sjálfviljugur. Allt hefur þó sína kosti og fyrst fólk velur sér þetta hlutskipti sjálft, hlýtur það að græða eitthvað á því. Ég hef óljósan grun um kosti þess að búa í Eymdardal og kannski eru þeir miklu fleiri. Allavega held ég að helsti ávinningur af því sé þessi: Halda áfram að lesa
Mig hlýtur að hafa dreymt almannavarnahávaðann. Kannski hef ég heyrt í sjúkrabíl og skynjunin brenglast svona í svefnrofunum. Ég á mjög erfitt með að kyngja því að mér skjátlist svona hrapalega. Ég var svo viss um þetta að ég fór fram og kveikti á sjónvarpinu. Fannst ég heyra í flugvélum líka og datt helst í hug loftárás. Átti erfitt með að sofna aftur og rauk strax fram til að hlusta á útvarpið þegar ég vaknaði aftur. Það hlýtur að vera upplifun af þessu tagi sem fær fólk til að trúa því að það hafi séð drauga.
Ég vaknaði við almannavarnaflauturnar í nótt. Eða fannst ég allavega hafa heyrt í þeim. Rauk auðvitað fram og kveikti á sjónvarpinu til að gá hvað væri að gerast. Fór á netið líka. Ekkert kom fram sem skýrði þetta svo ég fór í rúmið aftur. Er búin að tékka á helstu miðlum og finn ekki orð um almannavarnaflautur. Var þetta svona sterkur draumur eða sjá fjölmiðlar ekki ástæðu til að gefa okkur skýringu á svona uppvakningu?
-Hún svaf hjá mér, sagði hann þungur á brún.
-Jæja, og var það gott eða slæmt? sagði ég.
-Gott þannig séð, helvíti fínt reyndar en málið er að það var bara helvítis greiðareið. Hún var að þessu til að vera góð við mig. Hún orðaði það m.a.s. þannig.
-Ertu ástfanginn af henni?
-Nei, vá! Nei, alls ekki. Halda áfram að lesa
Fékk fréttir af Byltingunni í gær. Hann hefur enn ekki verið handtekinn enda virðast ríkja allt önnur viðhorf til friðsamlegra mótmæla á Íslandi en í þeim hluta heimsins sem sýnir viðleitni til að þoka sér í átt til siðmenningar. Halda áfram að lesa
Mér skilst að lykillinn að hamingjunni felist í því að klára allt þetta sem maður byrjaði á endur fyrir löngu.
Þegar maður er búinn að smyrja á sig, fyrir utan venjulegt andlitskrem og húðmjólk, fótafrískandi, hárvaxtarheftandi, rassasléttandi, brjóstastinnandi, augnpokastrekkjandi, svitastoppandi, munnhrukkumildandi og naglbandamýkjandi kremum, þarf maður þá virkilega að klára handáburðinn líka til að ná blissinu?
Stefán bauð mér með sér á kaffihúsafund hjá einhleypraklúbbi í gær. Þarna voru samankomnir 5 karlar og 500 konur, flest eldri borgarar með smábörn. Neinei, ekki barnabörn heldur sín eigin. Mín kynslóð mun líklega ekki eignast barnabörn fyrr en um áttrætt. Sennilega er ég eina manneskjan í heiminum sem finnst æskilegt að konur hefji barneignir áður en þær komast á breytingaskeiðið. Já, mér finnst það í alvöru æskilegt, ekki bara réttlætanlegt í undantekningartilvikum. Halda áfram að lesa
Húsasmiðurinn hringdi. MIður sín út af þessu með Gyðjuna. Ég gaf honum á sínum tíma eitthvað af munum sem ég ætlaði að losa mig við og hann hafði ruglað einhverj saman og talið að styttan tilheyrði. Ég sé enga ástæðu til að draga þessa skýringu í efa því ef tillit er tekið til þess ógnarmagns af dóti og drasli sem blessaður maðurinn hefur safnað í kringum sig, þá vær beinlínis óeðlilegt ef hann henti reiður á hverjum einasta hlut. Fær því hér með fulla fyrirgefningu.
Mig langar samt ekkert að hafa þessa styttu heima hjá mér lengur.
-Er eitthvað sérstakt við miðvikudaginn? Fullt tungl eða eitthvað svoleiðis?
-Nei. Ekki svo ég viti.
-Hvað þá? Eru að byggja upp spennu með því að bíða eða ertu að reyna að halda aftur af þessari kyssiþörf þinni með því að slá því á frest?
-Ég bara þarf að hafa stjórn á þessu. Ekki flana að neinu. Halda áfram að lesa
Á sínum tíma reyndi ég að múta vinum og kunningjum til að kynna mig fyrir karlmanni. Það bar lítinn árangur enda þekki ég eingöngu andlegt fólk sem kærir sig ekki um hundraðþúsundkalla. Skýringin er allavega ekki sú að almennilegir karlar séu ekki til. Og reyndar er líka einhver reytingur af vel útlítandi mönnum í boði. Halda áfram að lesa
-Manstu þegar við kysstumst?
-Ég gæti rifjað það upp.
-Við gætum endurtekið það.
-Ekkert er útilokað.
-Af hverju erum við að ræða þetta? Af hverju kyssumst við ekki bara eins og annað fólk?
-Seg þú mér.
-Við skulum gera það einhverntíma. Kyssast á ég við.
-Ekki núna semsagt?
-Ekki núna nei. Á miðvikurdaginn. Við skulum kyssast á miðvikudaginn.
Ég endurheimti gyðjuna mína í gær. Konan sem fékk hana að gjöf frá manninum sem bað mig að giftast sér kom til mín og skilaði henni. Það fannst mér huggulegt af henni. Halda áfram að lesa
Í gær hringdi í mig kona, í sárum eftir Húsasmiðinn. Þurfti að hafa upp á honum til að losna við búslóð sem hann kom fyrir hjá henni áður en hann fór úr landi. Hún taldi að bloggfærslur mínar undanfarið tengdust honum (ekki spyrja mig hvernig hún hefur komist að þeirri niðurstöðu) og fiskaði eftir því hvað væri „í gangi“. Halda áfram að lesa
-Þú ert andvaka.
-Ekki hugsa um það. Farðu bara að sofa, það er allt í lagi með mig.
-Það er ekki í lagi að vera andvaka, það er andstyggilegt.
-Hafðu ekki áhyggjur Eva mín.
-Er þér heitt?
-Nei, mér líður vel.
-Ekki er það kynhvötin.
-Nei. Halda áfram að lesa
En svo var ég að átta mig á því bara núna rétt áðan að ég þekki 2 pör í viðbót sem eru búin að vera saman mjög lengi. Alveg bara rosalega lengi og eru dálítið líkleg til að gera það áfram. Ég mundi ekki eftir þeim þarna um daginn. Ég þekki sumsé 12 pör sem hafa lafað saman í meira en 10 ár. Og það er nú alveg dálítið. Svo kannski gengur sambúð upp í einhverjum tilvikum.
Kannski.
Ég er í nýrri peysu. Það er næstum eins gott og að vera elskuð. Stelpur, konur, kerlur ef ykkur vantar egóbúst, ekki þá eyða pening í sálfræðing eða reyna að draga komplíment út úr karlmanni. Farið til stílista í Debenhams. Hún sagði mér að ég hefði fullkomið vaxtarlag. Ég veit að hún er bara í vinnunni en hún sagði það samt þannig að ég trúði því. Og það kostar ekkert.