Líknarmök

-Hún svaf hjá mér, sagði hann þungur á brún.
-Jæja, og var það gott eða slæmt? sagði ég.
-Gott þannig séð, helvíti fínt reyndar en málið er að það var bara helvítis greiðareið. Hún var að þessu til að vera góð við mig. Hún orðaði það m.a.s. þannig.
-Ertu ástfanginn af henni?
-Nei, vá! Nei, alls ekki.

-Og hvert er þá vandamálið? spurði ég.
-Nú, ég lagðist svo lágt að þiggja það og það versta er að mér tekst ekki almennilega að skammast mín fyrir það, sagði hann, undrandi á þessu skilningsleysi mínu.

„Lagðist svo lágt“, sagði hann. Ég verð að játa að ég skil ekki í hverju lágkúran liggur. Ég hef sjálf verið góð við karlmann án þess að vera vitund ástfangin, án þess að vera iðandi af losta, án þess að stæði til að endurtaka það, bara af því að hann þurfti á snertingu að halda og mér finnst bæði indælt og rétt að vera góð við vini mína. Ég hef líka þegið þessháttar elskulegheit af góðum manni sjálf og þegar ég fór frá honum morguninn eftir sagði ég „takk, þetta var fallega gert af þér“ og meinti hvert einasta orð.

Við erum endalaust að gera eitthvað fyrir aðra sem okkur langar kannski ekkert rosalega að gera. Þegar ég gæti barna fyrir vini mína, fer seint að sofa af því að einhver þarfnaðist huggunar, lána peninga, sæki einhvern á flugvöllinn, legg tarotspil eða hjálpa til við flutninga, er það ekki af því að ég hafi verið brennandi af löngun til að gera þessa hluti, heldur af því að vinátta gengur út á það að gera hvert öðru lífið léttara og það gleður mig nógu mikið til að vera ómaksins virði.

Við erum líka sífellt þiggja greiða af öðrum. Þegar vinkona mín faldar buxur fyrir mig er það ekki vegna þess að hún þrái að renna efni í gegnum saumavél. Ég skammast mín samt ekki neitt enda hefði hún ekki boðist til þess ef hún liði sálarkvalir fyrir það. Þegar ókunnugur maður hjálpar mér að losa bílinn minn úr snjóskafli finn ég til hjartanlegs þakklætis en ekki niðurlægingar. Það hvarflar ekki að mér að nokkur geri slíkt af því að ég sé aumkunarverð. Yfirleitt er fólk bara mjög almennilegt af því að náungakærleikur er þáttur í því að vera góð manneskja.

Auðvitað eru takmörk fyrir öllu. Ég geri ekki eitthvað fyrir aðra sem mér finnst andstyggilegt, ekki nema mjög mikið liggi við. Ég myndi ekki lána spilafíkli peninga eða leyfa einhverjum að ganga fram af mér með tilætlunarsemi. Ég myndi ekki hafa líknamök við holdsveikisjúkling. Ég sef heldur ekki hjá einhverjum sem er ástfanginn af mér ef ég er ekki tilbúin í samband sjálf, því það væru bara röng skilaboð. En mér finnst eðlilegt að vinir sýni hver öðrum ástúð eða vinarþel og ef einhver sem er í kjöraðstöðu til þess býðst til að vera góður við mig, og ef ég á þeirri stundu þarf á því að halda, þá skil ég bara ekki hvað er svona niðurlægjandi við það.

Við þrífumst á kærleika. Ekki bara á því að þiggja hann heldur líka á því að sýna kærleika í verki. Fólk gengur andskotinn hafi það svo langt að gefa úr sér líffæri af einskærri ást svo hvernig í ósköpunum komumst við að þeirri niðurstöðu að líknarmök séu algjörlega óboðlegur plástur á einsemd mannsins í heiminum?

Best er að deila með því að afrita slóðina